Búnaðargjald

Fimmtudaginn 04. desember 1997, kl. 19:47:22 (1713)

1997-12-04 19:47:22# 122. lþ. 35.11 fundur 333. mál: #A búnaðargjald# (innheimta) frv., landbrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 35. fundur

[19:47]

Landbúnaðarráðherra (Guðmundur Bjarnason):

Hæstv. forseti. Á þskj. 419 sem er mál nr. 333, flyt ég frv. til laga um breytingu á lögum nr. 84/1997, um búnaðargjald.

Frumvarp til laga um búnaðargjald varð að lögum frá Alþingi 26. maí sl. Þau lög gera ráð fyrir að við álagningu þinggjalda leggi skattstjórar búnaðargjald á gjaldstofn framleiðenda í landbúnaði og að gjaldið verði innheimt í staðgreiðslu á gjalddögum virðisaukaskatts. Í þessu felst að gjaldskyldir aðilar greiða staðgreiðslu af sama gjaldstofni og síðar kemur til álagningar.

Við undirbúning að framkvæmd laganna sem taka eiga gildi 1. janúar nk. hefur hins vegar komið í ljós að hagkvæmara yrði að tengja innheimtu búnaðargjaldsins við annað innheimtukerfi sem fyrir er, fremur en það sem mælt er fyrir um í lögunum. Hægt er að nýta álagningar- og innheimtukerfi fyrir sérstakan tekjuskatt manna, svokallaðan hátekjuskatt, með tiltölulega litlum breytingum. Þetta hafði ekki verið kannað áður þar sem um mjög ólíka skatta er að ræða, en fyrst og fremst hafði verið litið til tengingar við innheimtukerfi vegna laga um virðisaukaskatt og laga um markaðsgjald.

Ekki er stefnt að breytingum á endanlegri álagningu búnaðargjaldsins. Skattstjórar mundu eftir sem áður leggja það á gjaldendur einu sinni á ári. Gert ráð fyrir að búnaðargjald verði innheimt árlega fyrir fram á fimm gjalddögum frá ágúst til desember á árinu næst á undan álagningarári. Við álagningu verði síðan gerður upp sá mismunur sem kann að koma fram á fyrirframgreiddu og álögðu búnaðargjaldi. Við sérstakar aðstæður geti gjaldandi sótt um lækkun á fyrirframgreiðslunni.

Hæstv. forseti. Ég vil sérstaklega vekja athygli hv. þm., sem reyndar eru nú ekki mjög margir í þingsalnum að þessu sinni, á ákvæði til bráðabirgða í frv. Þar er kveðið á um frávik frá framkvæmd fyrirframgreiðslu á árinu 1998 þar sem ekki er unnt að framfylgja ákvæði 4. gr. á fyrsta ári laganna þar sem gjaldstofn fyrra árs mun ekki liggja fyrir. Því er lagt til að miðað verði við gjaldstofn virðisaukaskattsveltu ársins 1997 í stað gjaldstofns búnaðargjaldsins. Gjaldstofn virðisaukaskattsins víkur frá gjaldstofni búnaðargjalds í tveimur tilvikum, annars vegar ef um er að ræða sölu varanlegra rekstrarfjármuna og hins vegar getur velta vegna annarra atvinnugreina en búrekstrar skv. 2. gr. laganna falist í veltu viðkomandi aðila. Af þessum sökum og vegna hugsanlegra breytinga á starfsemi er gert ráð fyrir að gjaldendur geti sótt um breytingu á fyrirframgreiðsluskyldu í þeim tilvikum þar sem framangreint á við í samræmi við ákvæði 4. gr. laganna.

Helstu kostir við þessa breytingu eru m.a. sparnaður við pappírs- og útsendingarkostnað, breytingar á hugbúnaði verða óverulegar, gjaldskyldir aðilar þurfa ekki að reikna eða ákvarða gjaldstofn sinn við hverja greiðslu, gjaldið skilar sér fyrr, nýta má innheimtukerfi sem fyrir er og minna þarf að hafa fyrir framkvæmdinni á skattstofum.

Helsti ókostur breytingarinnar er að horfið er frá því að miða fyrirframgreiðslu við samtímagjaldstofninn. Þá má nefna að frá sjónarhorni gjaldandans greiðist gjaldið fyrr en gildandi lög gera ráð fyrir, sækja þarf um lækkun ef veruleg breyting verður á gjaldstofni og nokkur óvissa verður um stofn fyrirframgreiðslunnar í fyrsta sinn.

Upphaflega var að því stefnt að gera innheimtu sjóðagjalda í landbúnaði einfalda, örugga og ódýra. Við tæknilega útfærslu innheimtunnar hefur komið í ljós að hægt er að þjóna þessum sjónarmiðum enn betur en núgildandi lög gera ráð fyrir með því að breyta um innheimtuform eins og miðað er við í þessu frv. þar sem hægt er að nýta álagningar- og innheimtukerfi fyrir sérstakan hátekjuskatt manna með tiltölulega litlum breytingum. Þetta hafði ekki verið kannað áður vegna þess hvað hér er um ólíka skatta að ræða eins og ég gat um fyrr í framsögu minni. Kostir þessarar breytingar sem ég hef nú rakið þykja ótrvíræðir og því ekki verjandi annað en leggja til umrædda breytingar á lögunum. Þar sem lögin eiga að taka gildi um næstu áramót er mjög brýnt að frv. þetta verði lögfest fyrir þann tíma.

Hæstv. forseti. Ég tel ekki ástæðu til að fara frekari orðum um frv. en vísa að öðru leyti til grg. með frv. Að lokinni þessar umræðu legg ég til að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. landbn.