Frumvarp til sveitarstjórnarlaga

Föstudaginn 05. desember 1997, kl. 10:44:36 (1717)

1997-12-05 10:44:36# 122. lþ. 36.93 fundur 114#B frumvarp til sveitarstjórnarlaga# (um fundarstjórn), SighB
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur

[10:44]

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Í frv. til sveitarstjórnarlaga, sem nú á að taka á dagskrá eru ákvæði til bráðabirgða sem gera ráð fyrir því að hálendi Íslands verði skipað innan staðarmarka sveitarfélaga fyrir 31. desember 1998, með öðrum orðum að nokkrum sveitarfélögum verði afhent stjórnsýsla á hálendi Íslands. Nú lagði hæstv. forsrh. fram frv. um þjóðlendur á þinginu í fyrra og væntanlega mun hann leggja það frv. aftur fram á þessu þingi. Ákvæði til bráðabirgða í þessu frv. stangast algjörlega á við það frv. sem hæstv. forsrh. flutti og mun án efa flytja á þessu þingi. Ég tel, virðulegi forseti, að ekki sé unnt að ræða þetta stóra mál öðruvísi en svo að hæstv. forsrh. sé viðstaddur og ég fer þess á leit við forseta að umræðu um málið verði frestað þar til forsrh. getur verið viðstaddur, en það mun hann örugglega geta þegar lokið er ríkisstjórnarfundi sem nú stendur yfir.

Ég tel, virðulegi forseti, og ítreka það að þetta stóra mál er ekki hægt að ræða öðruvísi en að hæstv. forsrh., flutningsmaður þjóðlendufrv., sé viðstaddur.