Frumvarp til sveitarstjórnarlaga

Föstudaginn 05. desember 1997, kl. 10:51:55 (1722)

1997-12-05 10:51:55# 122. lþ. 36.93 fundur 114#B frumvarp til sveitarstjórnarlaga# (um fundarstjórn), SvG
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur

[10:51]

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ég vil nú mjög eindregið fara fram á það við hæstv. forseta að hann hlusti á þær óskir sem eru þegar komnar fram frá fulltrúum tveggja þingflokka. Hér er um að ræða mál sem verður að ræða í samhengi. Annað er ekki hægt. Hæstv. félmrh. upplýsti reyndar að þessi mál hefðu verið rædd saman í þingflokki Framsfl. og mér finnst afar sérkennilegt ef hann ætlar að beita sér gegn því að þingið ræði þessi mál í samhengi. Því hvet ég til þess að þessari umræðu verði frestað þangað til hæstv. forsrh. kemur hingað.

Í annan stað, herra forseti, vildi ég fá að bæta því við að nú er mér tjáð að boðaður sé fundur í efh.- og viðskn. kl. 11.30. Þar á að taka fyrir frv. til laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda, eitt stærsta mál þessa þings og frv. til laga um ríkisábyrgðir og stefnt er að afgreiðslu þess máls á sama tíma og fundir standa hér yfir. Ég mótmæli þessu. Ég tel að það sé algerlega fráleitt að halda fundi hér í þinginu á sama tíma og nefndarfundir eru eða öfugt. Annaðhvort verður að víkja, einnig á annasömum dögum, þannig að ég vil mótmæla því að fundað skuli í efh.- og viðskn. á sama tíma og hér er verið að ræða mikilsverð mál sem ýmsir fulltrúar flokkanna í efh.- og viðskn. þurfa að vera viðstaddir. Ég fer fram á það við hæstv. forseta að hann tryggi að efh.- og viðskn. og formaður hennar beygi sig undir eðlilegt vinnuskipulag hér í þessari stofnun.