Sveitarstjórnarlög

Föstudaginn 05. desember 1997, kl. 12:42:33 (1734)

1997-12-05 12:42:33# 122. lþ. 36.13 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv., SighB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur

[12:42]

Sighvatur Björgvinsson (andsvar):

Herra forseti. Sú aðferð til að fá úrskurð um hvaða land skuli teljast ríkiseign, sem lögð er til í þjóðlendufrv., er sama aðferð og notuð var á sínum tíma í Noregi þegar sama mál var þar á dagskrá. Þetta er sama aðferð og við alþýðuflokksmenn lögðum til í okkar málatilbúnaði að yrði farin og reynslan frá Noregi er sú að í flestum tilvikum var það mjög skýrt hver væru mörk einkaeignarréttar og almannaeignarréttar. Það var úrskurðarnefnd sem fjallaði um þau mál en ekki dómstólar fyrr en í síðustu umferð og úrskurðarnefndinni tókst að leysa flestöll vandamál sem upp komu þannig að það er rétt hjá hv. þm. að eflaust verður eitthvað um það að dómstólar verði að skera úr, en það verður frekar undantekning en hitt ef miðað er við reynslu Norðmanna. Það verður því mjög skýrt mjög fljótlega, a.m.k. um meginefni þjóðlendufrv., þ.e. hvaða hálendissvæði verða skilgreind þjóðareign og þjóðlendur.

Ég ítreka það, virðulegi forseti, að það er auðvitað meginatriði málsins sem markað er í þjóðlendufrv. að þarna er um að ræða tilraun til þess að koma þjóðareign yfir hálendið og þarna er ákvörðun um það að á hálendið skuli verða litið, þ.e. það hálendi sem telst þjóðareign, sem eitt skipulagssvæði undir yfirstjórn eins ráðherra.