Sveitarstjórnarlög

Föstudaginn 05. desember 1997, kl. 13:48:51 (1738)

1997-12-05 13:48:51# 122. lþ. 36.13 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv., JónK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur

[13:48]

Jón Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég vil gera athugasemd við eitt atriði í ræðu hv. 11. þm. Reykn. en það hefur verið hafður uppi prósentureikningur í þessum málum um að 40% landsins eigi að vera í umsjá fjögurra prósenta af íbúunum. Hér er verið að vitna til línu sem er dregin um hálendismörkin en þetta er í raun vinnulína sem samvinnunefnd um skipulag miðhálendisins hafði og hefur haft í verki sínu, en hún hefur unnið síðan 1993, en það er langt í frá að þetta sé lína utan um þau landsvæði sem geta heitið þjóðlendur. Innan við þessa línu eru jafnvel heimalönd sem hefur ekki verið umdeilt að séu það. Ég vara við svona alhæfingum í þessu máli, prósentureikningi sem á ekki við neitt að styðjast nema vinnulínu sem hefur verið dregin utan um starfið sem þessi samvinnunefnd um skipulag miðhálendisins hefur unnið í umboði allrar þjóðarinnar og samkvæmt lögum síðan 1993.

Ég mun síðan fjalla nánar um það vantraust í garð sveitarfélaganna í landinu sem kemur fram í orðum hv. ræðumanns.