Sveitarstjórnarlög

Föstudaginn 05. desember 1997, kl. 13:50:53 (1739)

1997-12-05 13:50:53# 122. lþ. 36.13 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv., ÁE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur

[13:50]

Ágúst Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. er ekki sáttur við prósentureikninginn. Þannig er að miðhálendið er 40% af landinu og það er ekkert rangt í því. Það er hins vegar alveg ljóst að hluti af miðhálendinu er ekki utan eignarréttar. Hluti af miðhálendinu er í eign ýmissa aðila. Hins vegar nefndi hann ekki hina töluna sem hefur líka verið nefnd að um er að ræða 3--4% af landsmönnum sem fá yfirráðarétt á þessum svæðum, skipulagslegan yfirráðarétt.

Það er ekki vantraust, herra forseti, sem ég hef komið með á sveitarfélögin í landinu þegar ég gagnrýni frv. félmrh. Það er einfaldlega ekki skynsamleg aðferð að fela tiltölulega vanmáttugum sveitarfélögum svona mikil verkefni á stórum svæðum landsins. Það er ekki flóknara en það, herra forseti. Þau koma ekki til með að ráða við skipulagsvinnuna, við heilbrigðisvinnuna, við umhverfisvinnuna sem tengist þessum risastóru svæðum lands okkar. Það er meginmálið í málflutningi okkar. Þetta á að skipuleggja á annan hátt, t.d. að sett sé ein sérstök stjórnsýsluumgjörð um allt miðhálendið þannig að kveðið sé ótvírætt á um það eins og gert er reyndar í þjóðlendufrv., að svæði sem er utan núverandi eignarréttar verði eign ríkisins eða eign almennings. Það þarf að gera. Það á ekki að snúa umræðunni upp eina ferðina enn í baráttu á milli dreifbýlis og þéttbýlis. Það er fráleitur málflutningur, herra forseti, eins og kom fram hjá hv. þm. Jóni Kristjánssyni.