Sveitarstjórnarlög

Föstudaginn 05. desember 1997, kl. 13:54:36 (1741)

1997-12-05 13:54:36# 122. lþ. 36.13 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv., ÁE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur

[13:54]

Ágúst Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Ég vil veg sveitarfélaga sem mestan. Ég vil gjarnan standa að því með öðrum að styrkja sveitarstjórnarstigið. Ég held að ekki þurfi að vera ágreiningur milli mín og hv. þm. Jóns Kristjánssonar um það efni. Hins vegar er ég að draga fram þau verkefni sem eru falin sveitarfélögunum með útfærslu frv. og ég bendi á að hægt er að lesa beint upp úr frv. athugasemd með ákvæðinu til bráðabirgða. Vinnuhópurinn sem hefur unnið með samvinnunefndinni um þetta hefur lagt ríka áherslu á að leyst verði úr stjórnsýslumálum á miðhálendi Íslands á þann hátt sem gert er ráð fyrir í frv. þessu. Það er alveg ljóst hver stefnumörkun hæstv. félmrh. er í þessum efnum.

Hins vegar er ég að segja að sérstaka stjórnsýsluumgjörð þarf um þetta mikla verkefni, þessa víðáttu og flóknu aðkomu að mörgum málum bæði hvað varðar skipulag, umhverfismál og heilbrigðismál á öllu þessu landsvæði. Þetta er það risavaxið verkefni að lítil sveitarfélög ráða einfaldlega ekki við það. Það er ekki vantraust á sveitarfélögin sem slík. Ég vil gjarnan taka þátt í að styrkja þau. Það er einfaldlega um það að ræða að þessi útfærsla leiðir til þess að ekki verði staðið eins skynsamlega og vel að málum sem tengjast miðhálendinu og hægt væri að gera. Það er ekki vantraust, herra forseti, á sveitarfélögin í landinu nema síður sé því að við skulum færa verkefnið til sveitarfélaga og við skulum þá færa tekjustofna til sveitarfélaga, en við verðum að gera það þannig að samræmi sé á milli þeirra verkefna sem þeim eru falin og getu þeirra til að taka við þeim verkefnum. Það er eðlileg aðferð í byggðamálum.