Sveitarstjórnarlög

Föstudaginn 05. desember 1997, kl. 13:59:14 (1743)

1997-12-05 13:59:14# 122. lþ. 36.13 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv., ÁE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur

[13:59]

Ágúst Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Það er visslega rétt hjá hv. þm. að ýmsir hafa komið að umræðu um eignarréttarmál á liðnum áratugum, bæði alþýðuflokksmenn og alþýðubandalagsmenn. Hins vegar ber að hafa í huga að sá sem hreyfði þessum málum fyrstur var líklega Bragi heitinn Sigurjónsson, fyrrv. alþm. Það hillir undir að sum þeirra mála sem voru rædd fyrir áratugum séu að komast í höfn.

Hv. þm. ræddi að e.t.v. væri skynsamlegt að setja upp auðlindadeild innan umhvrn. og ég get alveg tekið undir þá hugmynd. Ég nefndi hins vegar auðlindaráðuneyti því að ég sé það miklu víðtækara heldur en bara þá þætti sem snúa að miðhálendi og umhverfismálum. Þetta væri ráðuneyti sem færi með málefni virkjana, jarðvarma, fiskimiðin og náttúruna almennt í landi okkar. Þetta væru verkefni sem væru tekin frá fjölmörgum ráðuneytum sem yrðu þá í umsjón eins ráðuneytis og einkenni allra þessara atriða er að þau eru í eign allrar þjóðarinnar. Þetta verðum við vitaskuld að hugleiða og ræða hvort það væri hægt að fikra sig áfram á þessari braut. Ég hef lýst yfir stuðningi við meginatriði í þjóðlendufrv. forsrh. og þá fyrst og fremst það ákvæði að kveðið sé upp úr um eignarrétt á landsvæðum sem eru utan eignar og það er mjög mikilvægt málefni. Það er vitaskuld matsatriðið hvort hæstv. forsrh. fari með þessi málefni. Ég held að það sé a.m.k. til bóta að einn aðili hafi umsjón um þessi mál. Hvort það er forsrh. eða einhver annar verðum að ræða þegar það frv. kemur fram en ég skrifa ekki upp á þjóðlendufrv. eins og það kemur fyrir en ég styð samt meginatriðið í 1. gr. þess sem fjallar um að kveða upp úr um eign á landsvæðum utan einkaeigna.