Sveitarstjórnarlög

Föstudaginn 05. desember 1997, kl. 14:01:28 (1744)

1997-12-05 14:01:28# 122. lþ. 36.13 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv., HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur

[14:01]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er kannski ekki rétt að fara að deila um eignarrétt á hugmyndum í tengslum við þetta mál. Ég hugsa að það megi nú finna þess stað að Alþb. hafi flutt mál og það jafnvel fyrr en umræddur ágætur þingmaður Alþfl., 1979 líklega. Ég stend í þeirri trú áður hafi slíkt frv. verið lagt fram af hv. þm. Ragnari Arnalds. Það tengdist stjórnarskrá landsins, alveg hliðstætt, og það var því Alþb. sem kom fyrst inn með tillögur um að lífrænar auðlindir sjávar yrðu lýstar þjóðareign. Það er mál sem alþýðubandalagsþingmenn fluttu hér inn í þingið 1983 en Alþfl. hefur svona verið að reyna að slá eign sinni á.

En það er sama hvaðan gott getur og stuðningur kemur við góð málefni. Við skulum því ekki deila mikið um það. En ég ítreka að við verðum að skoða þessi efni, náttúrlega bæði þjóðlendufrv. og frv. félmrh. og skipulagslöggjöfina heildstætt. Ég vara við þeim málflutningi sem kemur fram hjá þingmönnum Alþfl. eða þingflokks jafnaðarmanna eins og þingflokkurinn mun heita, virðulegur forseti, að fólki úti á landi sé ekki treystandi fyrir því að fara með mál. Og það er samkvæmt tillögum Alþfl. sem þessi tilhögun er á höfð þannig að þeir sem eru komnir inn í Alþfl. núna ættu að muna eftir því sem þeir taka við í þeim efnum. Þetta er ekki bara 4% því að ég tók eftir að fyrrv. formaður Alþfl. vildi fá umræðu um prósentuna. Ég hugsa að það verði talsvert meira eftir að sú sameining sveitarfélaga er gengin yfir sem hefur verið samþykkt núna að undanförnu. Skagafjörður í heild sinni kom ekki að þessu máli sem slíkur. Fljótsdalshérað að verulegu leyti, Vestur-Húnavatnssýsla og fleiri sveitarfélög, Austur-Skaftafellssýsla hafa verið að sameinast í sveitarfélög. Þessi prósenta hefur hækkað og það er meiri bakfiskur í vinnunni fram undan en verið hefur í þessum efnum. Við tryggðum þó með skipulagslöggjöfinni, sem reist er eftir forskrift Alþfl., aðgengi allra landsmanna að því skipulagi sem nú er til umsagnar um miðhálendi Íslands. Menn ættu að líta á þær tillögur og koma sínum sjónarmiðum á framfæri því að það mun væntanlega ganga eftir verði það mál unnið til enda.