Sveitarstjórnarlög

Föstudaginn 05. desember 1997, kl. 14:53:21 (1751)

1997-12-05 14:53:21# 122. lþ. 36.13 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur

[14:53]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Jón Kristjánsson kvartaði hálfvegis undan því að umræðan snerist að litlu leyti um hinar 105 greinar þessa frv. en þeim mun meira um bráðabirgðaákvæðin. Það er auðvitað rétt hjá hv. þm. vegna þess að þar kemur fram mál sem varðar réttlætiskennd allra. Það er prinsippmál sem krefst mikillar umræðu og þess vegna hefði hann betur haft vit fyrir hæstv. félmrh. þegar hann ákvað að troða þessu þarna inn í bráðabirgðaákvæðið. Hvers vegna gerði hann það? Auðvitað til þess að reyna að draga úr þeirri umræðu sem óhjákvæmileg var. (Gripið fram í: Nýr tónn.)

Hins vegar, herra forseti, snýst þetta um réttlæti. Og í hverju felst þetta réttlæti? Það felst nákvæmlega í því sem hv. þm. sagði hérna áðan. Nú liggur fyrir að það á að koma fram frv., þjóðlendufrv. svokallaða, sem á að taka á eignarréttinum á miðhálendinu. Við öll eigum miðhálendið og við munum eiga það öll saman eftir að það hefur farið í gegnum þingið fyrir utan þau landsvæði þar sem einstaklingar eða einhverjir aðrir geta sannað eignarrétt sinn á. Með öðrum orðum, við eigum þetta. Réttlætið felst þess vegna í því að við sem eigum þetta komum öll að stjórn svæðisins. Þess vegna snýst málið ekki um það hvort sveitarfélögin hafi burði til þess að stjórna þessu heldur það hvort við sem eigum landið sem þarna liggur en eigum hins vegar ekki búsetu í sveitarfélagi sem liggur að því eigum að fá að koma að stjórnun þess. Það er réttlætismálið sem við erum að ræða hérna og ég er þeirrar skoðunar að það sé ekki hægt að útiloka íbúa til að mynda Vestfjarða, Reykjavíkur og Reykjaness frá því að koma að stjórn miðhálendisins. Það er það sem við erum að ræða um hérna. Það er réttlætismálið sem skiptir máli og það er það sem hv. þm. ætti auðvitað að ræða hérna. Hvaða afstöðu hefur hann til þess? Öll hans ræða varðandi þetta snerist hins vegar um það hvort sveitarfélögin hefðu burði til þess að fara með stjórnsýsluna. Það er ekki spurningin heldur er það réttlátt að þessi sveitarfélög fari með það en hin sveitarfélögin, fjölmennustu sveitarfélög landsins fá ekki að koma að henni. (Gripið fram í: En Hornstrandir?)