Sveitarstjórnarlög

Föstudaginn 05. desember 1997, kl. 14:55:24 (1752)

1997-12-05 14:55:24# 122. lþ. 36.13 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv., JónK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur

[14:55]

Jón Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Þessi ræða sýnir vel algjöran grundvallarmisskilning. Þjóðin öll á ýmsar eignir, t.d. hérna í Reykjavík. Þjóðin á Alþingishúsið, þjóðin á Þjóðleikhúsið, þjóðin á ýmislegt sem hefur verið byggt hér upp og jafnvel lönd hérna innan svæðisins. En þjóðin hefur engar kröfur gert til þess að eiga aðild að borgarstjórn Reykjavíkur til þess að stjórna þessum eignum. Þetta sýnir að málið fjallar ekkert um eignarrétt. Þetta fjallar aðeins um stjórnsýslu. Þetta er grundvallarmisskilningur hjá hv. þm.

Ég heyrði eftir hv. ræðumanni í blaðaviðtali um daginn ... (ÖS: Þú heyrðir ekki í blaðinu.) Ég las það í blaðaviðtali. Ég er svo vanur að hlusta á hv. þm. tala að ég mistalaði mig eins og algengt er í þessum ræðustól. Ég heyri svo oft í honum, segja setningu sem sýnir vel hvað hv. þm. blandar þessum málum saman. Hann sagði: ,,Það er verið að stela af okkur miðhálendinu eins og verið er að stela af okkur fiskimiðunum.`` Þetta sagði hv. þm. og þetta sýnir hvað þessi málflutningur er gjörsamlega út í hött því að það er ekki verið að setja nein ákvæði um eignarrétt á miðhálendinu í þessu frv.