Sveitarstjórnarlög

Föstudaginn 05. desember 1997, kl. 15:00:17 (1755)

1997-12-05 15:00:17# 122. lþ. 36.13 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv., ÁE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur

[15:00]

Ágúst Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Það þarf að hafa í huga að sveitarfélögin fara ekki með stjórnsýslu á miðhálendinu. Þetta hefur hins vegar verið ágreiningsmál milli sveitarfélaga þar sem mörkin eru óljós og það er í sjálfu sér rétt sem hv. þm. segir. Þessi löggjöf og þessi útfærsla eins og er í frv. eyðir óvissu en hún eyðir henni á mjög ákveðinn hátt. Hún felur sveitarfélögunum stjórnsýsluvald á miðhálendinu og um það snýst deilan. Það hafa ekki verið almennar heimildir til stjórnsýsluvalds á miðhálendinu og það er meginatriðið í þessu máli.

Vitaskuld er það síðan pólitísk spurning hver á að fara með eignaryfirráðin á hálendinu. Þetta er alveg sambærilegt við aðrar sameiginlegar auðlindir eins og fiskimiðin umhverfis landið að þau eru eign allrar þjóðarinnar. Afnotarétturinn er í höndum fárra. Við viljum ekki, herra forseti, að það sama gerist með miðhálendið og gerst hefur með fiskimiðin að þetta sé nýtt og í reynd slegið örfáum einstaklingum til eignar. Það má ekki gerast í þessu landi. Því er útfærsla okkar, að það sé eitt sveitarfélag sem sjái um þessi mál á miðhálendinu, mun skynsamlegri en að fara þá leið sem þetta ákvæði til bráðabirgða í frv. félmrh. gerir ráð fyrir.