Sveitarstjórnarlög

Föstudaginn 05. desember 1997, kl. 15:02:02 (1756)

1997-12-05 15:02:02# 122. lþ. 36.13 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv., JónK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur

[15:02]

Jón Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. sagði að stjórnsýsluréttur sveitarfélaga væri ekki fyrir hendi á miðhálendinu eins og það er nú. Þetta er nú vafasöm fullyrðing. Ég veit t.d. ekki betur en að við löggæslu á miðhálendinu sé sótt til þeirra löggæslumanna í viðkomandi löggæsluumdæmi og viðkomandi sýslu eins og þær voru og um það sé ekkert deilt. En þessi mörk eru óljós, (Gripið fram í: Er það hálendislögreglan?) það er staðreynd. Það væri væntanlega hálendislögregla. Ef það væri sérstakt sveitarfélag á miðhálendinu þá yrði að koma á fót hálendislögreglu. En ég tel miklu eðlilegra að löggæslumenn á þeim svæðum sem liggja að miðhálendinu annist þar löggæslu og ég veit ekki betur en þeir hafi gert það í flestum tilfellum. Hins vegar er ekki margt um þetta að segja. Það er haldið áfram að ræða þetta á þeim forsendum að þetta frv. kveði á um eignarrétt fárra á landinu. Það er náttúrlega alls ekki svo. Ef hv. þingmenn vildu lesa frv. þá er það náttúrlega ekki svo. Það er algerlega út í hött að útleggja þetta á þann hátt.