Sveitarstjórnarlög

Föstudaginn 05. desember 1997, kl. 15:14:31 (1763)

1997-12-05 15:14:31# 122. lþ. 36.13 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv., SF
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur

[15:14]

Siv Friðleifsdóttir:

Herra forseti. Við erum að fjalla hér um afar flókið mál eins og alþjóð veit. Því miður hefur lítil umræða farið fram um það í þjóðfélaginu og það má segja að fólki sé ákveðin vorkunn. Þetta eru það flókin mál. Við erum nú að fjalla um frv. til sveitarstjórnarlaga þar sem er fjallað um stjórnsýsluna. Við höfum einnig rætt um annað frv. sem er ekki búið að mæla fyrir enn þá, þjóðlendufrv., en þar er fjallað um eignarréttinn á miðhálendinu. Stundum hafa tvinnast inn í þessi mál umfjöllun um námuréttindi, hvernig eigi að nýta jarðhita o.s.frv. og svo dregst inn í þessa umræðu tillagan um svæðisskipulag á miðhálendinu, enn eitt málið, og einmitt nú í auglýsingu til 10. desember, þannig að það er afar flókið fyrir fólk að átta sig á öllum leiðunum til að nálgast málefni miðhálendisins.

[15:15]

Við erum að fjalla um mjög stóran lagabálk en ég ætla einungis að fjalla um 1. gr. þannig að ég verð að svekkja hv. þm. Kristínu Ástgeirsdóttur, formann félmn. Ég ætla ekki að fara í aðrar greinar þar sem mér liggur 1. gr. og ákvæði til bráðabirgða frekar þungt á hjarta. Í lögum hefur verið það ákvæði að byggðin í landinu skyldi skiptast á milli sveitarfélaga en núna á að breyta þessu og það á að heita að landið allt skiptist milli sveitarfélaga. Hér eru gífurlega miklir hagsmunir í húfi að mínu mati. Talsvert vald felst í því að fara með stjórnsýslu á miðhálendinu og ákveða hvernig skipulags- og byggingarmálum verði háttað þannig að ekki er skrýtið þó að það sé tekist á um þetta mál í þinginu.

Það er rétt sem kom áðan fram hjá hv. þm. Jóni Kristjánssyni að með frv. er verið að eyða vafaatriðum um skipulagsmálin en að mínu mati í ranga átt. Vafaatriðum er ekki eytt eins og æskilegt er. Það er alveg ljóst að skipulags- og byggingarmál miðhálendisins hafa verið í miklum ólestri. Samkvæmt könnun á ástandi byggingarmála á miðhálendinu eru um 370 byggingar á þessu svæði en einungis þriðjungur þeirra er með tilskilin byggingarleyfi og aðeins í 30% tilvika eru fráveitumál talin viðunandi. Níu af hverjum tíu þessara bygginga voru byggðar eftir 1960 og helmingur þessara húsa er í einkaeign. Af þessu má sjá að bygginga- og skipulagsmál á miðhálendinu hafa verið í miklum ólestri og auðvitað er rétt að taka á því.

Segja má að það sé mjög gott að hafa lögin eins og við höfum haft þau hingað til, þ.e. að byggðin í landinu skiptist á milli sveitarfélaga. Sveitarfélögin eru þessar einingar meðfram ströndinni þar sem fólk býr í nánd við hvert annað. Það eru byggðakjarnar og innan þessara eininga geta menn rætt skipulags- og byggingarmál fram og til baka eins og eðlilegt er þannig að það er mjög eðlilegt að skipta byggðinni almennt á milli sveitarfélaganna.

Miðhálendið er allt annars eðlis og þar á allt annað við. Að mínu mati er ekki hægt að líkja þessu saman. Miðhálendið er víðátta. Það er ekki byggð í þeirri merkingu. Auðvitað eru einhverjir fjallaskálar þar en það er ekki þessi venjulega byggð, þetta er víðátta og það að skipta þessari víðáttu á milli 40 sveitarfélaga er að mínu mati mjög óeðlilegt. Þetta eru landslagsheildir, þetta eru jöklar, þetta eru hraunbreiður og sandar og það passar engan veginn að skipta þessari heild á milli 40 sveitarfélaga. Mér finnst hugmyndafræðin bera vott um skammsýni. Það er ekki eðlilegt að sneiða miðhálendið niður í 40 kökusneiðar. Það er mjög óeðlilegt að hugsa sér þetta sem rjómaköku sem maður skiptir í 40 sneiðar. Miklu skynsamlegra væri að fella skipulags- og byggingarmálin undir einn hatt. Sumir vilja að umhvrn. verði með þann hatt og má segja að það sé mjög eðlilegt að mörgu leyti. Þar eru skipulags- og byggingarmál fyrir og auðvitað er umhvrn. afskiptasamt gagnvart umhverfi og allir eru sammála um að umhverfismál á miðhálendinu séu mikilvæg. Hugsanlega væri hægt að hafa þennan hatt hjá forsrn., ég skal ekki segja. Í mínum huga er a.m.k. mjög æskilegt og nauðsynlegt að skipulags- og byggingarmál miðhálendisins falli undir eina einingu, eina nefnd, eitt vald.

Sumir hafa rætt um að þetta sé allt í lagi þar sem verið sé að sameina sveitarfélög og þessum 40 sveitarfélögum fækki. Ég er ekki sammála því. Þó að sveitarfélögin væru ekki nema fimm þá finnst mér þetta jafngallað. Miðhálendið er ein heild. Það á ekki að skipta heildinni í 40 parta, ekki í fimm, ekki í tvo. Þetta er ein heild.

Sumir hafa agnúast út í það að í þessum 40 sveitarfélögum búa einungis um 15 þúsund manns eða 4% þjóðarinnar. Allir hljóta að sjá að það er óæskilegt að svo fámennur hluti samfélagsins fari með svo mikið vald sem skipulags- og byggingarmál á miðhálendinu eru. Auðvitað er það óæskilegt. Það væri æskilegra að öll þjóðin kæmi að því. Það eru þó ekki aðalrökin í mínum huga. Þó að öll þjóðin byggi í þessum 40 sveitarfélögum, hver einasti maður, 270 þúsund manns, þá er þetta jafnrangt í mínum huga. Það er jafnrangt að skipta miðhálendinu upp í 40 einingar.

Ég tel þessi sveitarfélög vera tiltölulega óburðug, því miður, en ég vil líka benda á það eins og ég gerði áðan að burðug sveitarfélög geta valdið miklum skipulagsslysum. Í mínu sveitarfélagi hefur t.d. stefnt í slíkt skipulagsslys. Þar hafa gilt úrelt sjónarmið, engin umhverfissjónarmið verið þar á lofti og afar erfitt hefur verið að vinda ofan af þeim vilja sem hefur ríkt hjá því sveitarfélagi þrátt fyrir skoðanakannanir þar sem meira en helmingur íbúa svaraði hvernig hann vildi hafa ákveðin skipulagsmál, þ.e. ekki byggja eitt einasta íbúðarhús í náttúruperlunni í kringum Nesstofu. Sveitarstjórnin samþykkti að þar yrðu byggð 24 hús enda þótt gengið hafi verið í hvert einasta hús til þess að safna undirskriftum og skrifuðu þúsund manns undir sem er eitthvað tæplega 30% af íbúum sveitarfélagsins. Samt var bara bakkað ofan í 13 hús þannig að maður sér hve valdið er ofboðslega sterkt hjá þeim aðila sem gerir fyrstu skipulagstillögur. Að mínu mati má segja að það bjóði hættunni heim að verulegu leyti að færa skipulags- og byggingarmál undir sveitarfélögin 40.

Ég er mjög sammála því að færa verkefni til sveitarfélaga og finnst það afar æskilegt. Núna er t.d. verið að ræða um að færa málefni fatlaðra. Að vísu er ekki ljóst að það takist, það er verið að skoða þar. Að öllum líkindum verðum við með A-sveitarfélög og B-sveitarfélög í landinu áður en við vitum af. Nokkur reynslusveitarfélög eru komin með málefni fatlaðra, t.d. Vestmannaeyjar, Höfn í Hornafirði og Akureyri. Þessi sveitarfélög munu örugglega ekki losa sig við málefni fatlaðra. Það gengur mjög vel hjá þeim og hæstv. félmrh. hefur sagt að það geti vel komið til greina að sum sveitarfélög taki málefni fatlaðra og önnur ekki þannig að við verðum þá með A- og B-sveitarfélög. En ég styð tilfærslu verkefna en ekki að færa skipulags- og byggingarmál miðhálendisins undir sveitarfélagastigið. Ákveðinn eðlismunur er þar á vegna þess að miðhálendið er þessi eina heild. Það má hugsa sér þetta sem eitt sveitarfélag án nokkurrar fastrar búsetu. Sumir hafa kallað það sveitarfélag Fjallahrepp hinn nýja en það væri þá skárra af því að það er ein heild.

Það hefur einnig verið rætt um samvinnunefndina, um svæðisskipulag miðhálendisins, sem er einmitt þessa dagana að leggja drög að svæðisskipulagi miðhálendisins og inn í þá umræðu hefur verið dregið að það sé rangt að miðhálendið sé 40% af flatarmáli Íslands. En það er alveg ljóst að sú tillaga sem samvinnunefnd svæðisskipulags er að gera dekkar eina heild og þar er slegið ákveðið stef. Samvinnunefndin á að halda sig inni á svæði og samkvæmt ákvæði til bráðabirgða segir, með leyfi forseta:

,,Svæðið markast í aðalatriðum af línu sem dregin verður milli heimalanda og afrétta.`` Það má því segja að hér sé komið ágætis fordæmi fyrir því svæði sem var hægt að hugsa sér innan þessarar einingar, þessarar miðhálendiseiningar þannig að hér er ákveðið fordæmi. Að vísu hefur þessi nefnd unnið mjög ötullega að því að fá í gang vinnu við skiptingu miðhálendisins á milli sveitarfélaga og það hefur einmitt vinnuhópur verið í því og það er alveg ljóst að það er búið. Hæstv. ráðherra Páll Pétursson hefur t.d. ítrekað sagt að að langmestu leyti sé búið að skipta miðhálendinu í dag á milli sveitarfélaga. Í nefndinni er búið að ná sátt á milli sveitarfélaganna sem liggja að miðhálendinu og þó að við séum ekki búin að ákveða okkur nákvæmlega á hinu háa Alþingi hvernig þetta verður er búið að undirbúa jarðveginn, það er búið að skipta miðhálendinu á milli sveitarfélaganna. Ég held að það sé hugsanlega eitt svæði sem stendur út af þannig að það er mjög ankannalegt en menn eru greinilega að reyna að vinna sér tíma.

Í samvinnunefndinni eru nánast eingöngu sveitarstjórnarmenn, ekki alveg þó sem sveitarstjórnarmenn aðliggjandi sveitarfélaga og það má alveg gagnrýna það eins og ég gerði áðan í andsvari mínu. Þarna eru þó ákveðin mörk á milli heimalanda og afrétta sem er alveg hægt að skoða sem ný mörk á miðhálendinu. Hins vegar finnst mér að umræðan gangi of mikið út á tæknileg atriði eins og mörk, heimalandamörk, hvar liggja afréttir, hvar liggur þetta, hvar liggur hitt? Ég held að við ættum að reyna að hugsa þetta svolítið á öðrum grundvelli. Við eigum að láta skynsemina ráða. Við eigum að taka meginhluta miðhálendisins undir eina heild en binda okkur ekki svona fast í fortíðina. Við þurfum að horfa fram á veginn í þessu en ekki til baka.

Menn hafa líka notað það talsvert í umræðunni að afréttirnar séu undir sveitarfélögum og það stendur eitthvað á þá leið í frv. Þar er verið að vísa í 3. mgr. 3. gr. laga um sveitarfélögin, að áður fyrr hafi hvort eð er nánast öllu miðhálendinu verið skipt á milli sveitarfélaganna, þ.e. staðarmörkum. Maður spyr sjálfan sig: Hvaða réttlæti er í því þó að einhver búfénaður hafi verið settur í beit á ákveðnum svæðum? Er þar með sagt að það sé eðlilegt að skipulags- og byggingarmál á viðkomandi svæði tilheyri sveitarfélaginu þaðan sem búfénaðurinn kom? Ég sé ekki skynsemi í því.

Ég held að afar mikilvægt sé að við reynum að ná sátt í svo viðamiklu máli eins og skipulagsmál og byggingarmál miðhálendisins eru. Ég hef reynt að sjá fyrir mér einhverjar leiðir til þess og ég velti upp einni hugmynd sem væri ágætt ef hæstv. ráðherra gæti hugsað sér að svara. Er einhver möguleiki að taka skipulags- og byggingarmál út fyrir sviga, þ.e. þetta yrði þá eitthvert nýtt form, ef við skiptum miðhálendinu upp á milli sveitarfélaganna en tökum örugglega byggingar- og skipulagsmál út fyrir sviga? Löggæslan og hreinlætiseftirlitið gæti þá fallið undir sveitarfélögin þarna en skipulags- og byggingarmálin væru tekin út fyrir sviga. Þeim væri fyrir komið hjá einni nefnd undir einum hatti þar sem t.d. ferðamannageirinn, útivistargeirinn og þessir hagsmunaaðilar hafa meiri tök á að koma að málum.

Ég vil líka koma því á framfæri að ég hef verið sveitarstjórnarmaður í sjö ár og ég tel að hér sé ekki um neitt vantraust að ræða á sveitarfélögin, alls ekki. Sveitarfélögin hafa eðli málsins samkvæmt verið að skipa málum í byggð, þar er nándin en byggðin er ekki uppi á miðhálendinu. Það verkefni er allt annars eðlis. Það er mjög stórt verkefni þannig að ég tel að við eigum að hætta að tala um þetta mál eins og einhverja sérstaka baráttu á milli dreifbýlis og þéttbýlis. Eðli málsins er allt öðruvísi. Við eigum að velja bestu leiðina en ekki þá næstbestu. Sjálfsagt verður næstbest að koma þessu fyrir hjá sveitarfélögunum.

Mig langar að sýna líka fram á að kjördæmið sem ég kem úr, Reykjanes, hefur látið sig þessi mál skipta. Kjördæmisþing framsóknarmanna sem var haldið fyrir stuttu ályktaði sérstaklega um þetta mál og þar var ekki minnst einu einasta orði á íbúatölur. En mig langar að lesa þessa ályktun hér, hæstv. forseti, sem kjördæmisþing framsóknarmanna í Reykjanesi ályktaði núna um daginn á þingi sínu en hún hljóðar svo:

,,Kjördæmisþing framsóknarmanna á Reykjanesi hafnar því að skipta stjórnsýslu, þar á meðal skipulags- og byggingarmálum miðhálendisins milli 40 sveitarfélaga. Miðhálendið er ein heild þar sem m.a. jöklar, hraun og sandar mynda landslagsheildir. Skynsamlegast er að miðhálendið verði eitt stjórnsýslusvæði.``

Hér er ekkert minnst á mannfjöldann þó að það sé að sjálfsögðu æskilegt að sem stærstur hluti þjóðarinnar komi að skipulagsmálum á miðhálendinu. Hér er einungis verið að tala um að óæskilegt sé að vera að skipta miðhálendinu upp. Ég vil líka benda á það að á bak við þessa ályktun stendur stór hópur framsóknarmanna, 1/4 af því fylgi sem við fengum í síðustu kosningum þannig að mér finnst mjög mikilvægt að koma þessu á framfæri.

Ég vil að lokum segja af því að tími minn er að renna út að varðandi þetta frv. í heild þá líst mér ágætlega á það en ég get ekki stutt hugmyndina sem felst í 1. gr., þ.e. að skipta öllu landinu alveg inn í innsta punkt á milli sveitarfélaga. Það er ekki rétt framtíðarsýn í því. Ef við horfum 100 ár fram í tímann og setjum okkur í spor framtíðarmannsins er ég alveg sannfærð um það að augu manna opnast frekar fyrir því að það væri rétt að hafa þetta sem eina heild. Ég hef stutt mína menn í gegnum súrt og sætt hér í þinginu og við höfum gert afar marga og góða og jákvæða hluti. Hins vegar tel ég að 1. gr. sé ekki rétt skref og ég get því miður ekki fellt mig við þá sýn og þá hugmyndafræði sem í henni felst.