Sveitarstjórnarlög

Föstudaginn 05. desember 1997, kl. 15:52:10 (1775)

1997-12-05 15:52:10# 122. lþ. 36.13 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv., SF (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur

[15:52]

Siv Friðleifsdóttir (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er rétt sem fram kom hér að mínar hugmyndir falla mjög vel að þeim hugmyndum sem Eiður Guðnason setti hér fram á sínum tíma.

Varðandi ályktun kjördæmisþings okkar framsóknarmanna á Reykjanesi, þá var þessi ályktun samþykkt einróma. Á staðnum var líka þingmaður okkar númer tvö og lagðist hann alls ekki gegn þessari samþykkt. Vel má vera að viðkomandi þingmaður taki hér til máls síðar í umræðunni, ég skal ekki segja. Hins vegar hef ég sérstaklega rætt þessi mál í þingflokki framsóknarmanna og skýrt frá mínum skoðunum. Ég stend ein að því að hafa sagt þar skýrum orðum að ég geti ekki stutt þessa leið sem við erum að fara núna. Ég hef sagt það mjög opinskátt eins og ég er að segja það hér núna úr þessum ræðustóli, en þetta mál hefur eigi að síður verið lagt fram í þessum búningi sem það er og ég held að það svari nú alveg fyrirspurn hv. þm.