Sveitarstjórnarlög

Föstudaginn 05. desember 1997, kl. 15:54:21 (1777)

1997-12-05 15:54:21# 122. lþ. 36.13 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv., félmrh.
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur

[15:54]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Áður en lengra er haldið þá held ég að nauðsynlegt sé að taka fram að þetta frv. er stjfrv. Það er búið að samþykkja það í báðum stjórnarflokkunum. Þjóðlendufrv. sem hæstv. forsrh. kemur til með að mæla fyrir innan skamms verður líka stjfrv. og nýtur stuðnings beggja þingflokka stjórnarflokkanna. Einn þingmaður Framsfl. lýsti andstöðu við þetta frv. í þeim búningi sem það er, þegar málið var tekið fyrir til afgreiðslu í þingflokki framsóknarmanna.

Þessi frv. eru bæði prýðilega samræmanleg og byggja reyndar með vissum hætti á lögum sem hér voru samþykkt í fyrra um skipulagsmál, þ.e. á skipulags- og byggingarlögum. Þjóðlendufrv. fjallar um eignarrétt. 1. gr. þessa frv. sem hér er á dagskrá og bráðabirgðaákvæðið fjallar um stjórnsýslu og á þessu tvennu er munur. Það er ekkert óeðlilegt við það að forsrh. komi fram fyrir hönd þjóðarinnar, þ.e. eigenda þjóðlendnanna. Það er hlutverk sem forsrh. er fengið með þjóðlendufrv. þegar hann kemur fram sem fulltrúi almennings, þjóðarinnar sem væntanlega verður úrskurðuð eigandi að verulegum hluta hálendisins þannig að það er ekkert ósamræmi í því. Það er ekkert óeðlilegt við það þó að forsrh. sé ætlað hlutverk ásamt með sveitarstjórnum og þetta skarast alls ekki eins og forsrh. tók ítarlega fram í morgun þegar hann tók hér til máls. Og það er rétt, herra forseti, að rifja það upp fyrir mönnum hvað hann sagði.

,,Það er rétt að taka fram þannig að það sé ekki misskilið að þjóðlendufrv. byggir á því að landinu öllu sé skipt í sveitarfélög og slíkar línur séu dregnar þannig að það er engu að síður nauðsynlegt að það sé gert á einhvern tiltekinn hátt þannig að frv. um þjóðlendur, ef að lögum verður, fái notið sín. Ég tel mjög mikilvægt að frv. til laga um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta, verði hér samferða frv. hæstv. félmrh. í gegnum þingið.

Það er mat þeirra lögmanna sem að samningu þjóðlendufrv. komu að það eigi ekki að þurfa að skarast að málin verði afgreidd.``

Það er ekki gert ráð fyrir því að sveitarfélögin fari með neins konar eignarrétt á almenningum eða afréttum nema þau geti sannað eignarrétt sinn á þeim og þá kemur til kasta forsrh. Það er það hlutverk sem honum er fengið. Ef sveitarfélögin eða einstaklingar geta ekki sannað eignarrétt sinn á einhverjum hlutum hálendisins, þá er það hlutverk forsrh. að koma fram fyrir hönd þjóðarinnar.

Samkvæmt gildandi lögum skiptist byggðin í landinu og afréttirnar á milli sveitarfélaga. Þessi sveitarfélög fara nú þegar með stjórnsýsluvaldið bæði í byggð og á afréttum. Og ef við skoðum kort af landinu, þá sjáum við það að afréttirnar eru nánast allt sem ekki er hulið jökli. Viðbótin sem sveitarfélögunum er ætluð hér er fyrst og fremst jöklarnir. Það var ágreiningur á nokkrum stöðum milli einstakra sveitarfélaga hvar mörkin lægju og í það hefur verið lögð ágætisvinna að skera úr og draga línur sem samkomulag er um hvar mörk sveitarfélaga séu og það er einungis á einum stað á landinu þar sem ágreiningur er enn þá en ég vænti þess að sá ágreiningur leysist áður en mjög langt um líður, enda er það mjög brýnt.

Það kom hér fram hugmynd í frumvarpsformi frá þáv. umhvrh. Eiði Guðnasyni um að breyta þessu skipulagi og setja hálendið allt undir sérstaka stjórn. Meiri hluti Alþingis hafnaði þeirri hugmynd að taka afréttina undan sveitarfélögunum og setja þá undir einhverja hreppsnefnd hálendisins. Ég hef ekki trú á því að sú viðhorfsbreyting hafi orðið hér á Alþingi síðan þetta var að það geti verið meiri hluti fyrir því að ráðast á sveitarfélögin og taka af þeim það stjórnsýsluvald sem þau hafa á hálendinu. Og það er rétt að taka það fram að Samband ísl. sveitarfélaga, hvort heldur eru fulltrúar af suðvesturhorninu, Vestfjörðum og alls staðar að af landinu styðja þá útfærslu sem hér er lögð til.

[16:00]

Svo er það með prósentureikninginn. Mér finnst óskemmtilegt að hlusta hér sýknt og heilagt á þá fyrirlitningu, þá vantrú á sveitarstjórnum á landsbyggðinni sem kemur fram í hverri ræðunni eftir aðra. Nú er rétt að taka það fram eins og hér hefur reyndar komið fram í ágætri ræðu hv. þm. Jóns Kristjánssonar og reyndar hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar að sveitarfélögin hafa tekið breytingum og það eru ekki einungis 4% þjóðarinnar sem koma að þessu eða fulltrúar 4% þjóðarinnar heldur miklu fleiri því að nú hafa sveitarfélög sem betur fer verið sameinuð í stórum stíl og innan skamms á þeim sveitarfélögum eftir að fækka til muna sem liggja að hálendinu. Þau eiga eftir að sameinast og þessar skákir sem hér hefur verið talað um í lítilsvirðingartón eiga eftir að stækka og þeim á eftir að fækka þannig að það er mjög ör þróun í þessu. Menn hafa hér fest sig við að tala um ákvæði til bráðabirgða og það hefur verið gert að aðalmáli þessa frv. í máli mjög margra ræðumanna. Auðvitað er ákvæðið til bráðabirgða bara viðhengi. Í 1. gr. segir og frv. hefst á þessu:

,,Landið skiptist í staðbundin sveitarfélög sem ráða sjálf málefnum sínum á eigin ábyrgð.``

Þetta eru upphafsorð frv. og bráðabirgðaákvæðið fjallar nánast bara um aðferðafræðina. Allt annað í þessu frv. hefur horfið í skuggann nema hjá einum tveimur ræðumönnum. Ég vil þakka formanni félmn. fyrir málefnalega yfirferð yfir frv. Ég var ekki sammála öllu sem hún sagði en það er greinilegt að hún hefur lesið frv. Hún hefur lesið það frá upphafi til enda og það hefur hv. 2. þm. Austurl., Jón Kristjánsson, að sjálfsögðu gert því hann var formaður þeirrar nefndar sem samdi málið eða stjórnaði endurskoðuninni og hann kann málið.

Varðandi þetta með hæfi sveitarstjórnarmanna sem hv. þm. Kristín Ástgeirsdóttir fjallaði um, þá er nauðsynlegt að kveða skýrt á um þetta til þess að forðast að þurfa að liggja í endalausum úrskurðum um hver sé hæfur og hvenær við ákvarðanatöku í sveitarstjórnum.

Nú er rétt að minna á að með sameiningu sveitarfélaga stórfækkar sveitarstjórnarmönnum og ég get svo sem skotið því að í þessu sambandi að það er að vissu leyti eftirsjón að því. Ég tel að seta í sveitarstjórn sé býsna góður skóli jafnvel þó að það sé bara í lítilli hreppsnefnd. Ég sat sjálfur í sveitarstjórn í mínum hreppi áður en ég varð þingmaður. Ég lærði heilmikið á því. Og þessi félagsmálaskóli sem starf að sveitarstjórnarmálum hefur verið fjölda mörgum verður ekki til staðar eða aðgengilegur fyrir jafnmarga og verið hefur eftir að þessi stækkun sveitarfélaganna hefur komið til framkvæmda þannig að það er svona bakhliðin á peningnum.

Hugsunin á bak við ákvæðin um fjárhagsáætlanir er sú að fjárhagsáætlun sé afgreidd áður en á að fara eftir henni, þ.e. að hún liggi fyrir afgreidd um áramót þannig að á nýju ári sé strax hægt að fara að vinna eftir gildri fjárhagsáætlun.

Hér hefur verið talað um svæðisskipulag miðhálendisins og þá gagnrýni sem sú tillaga hefur hlotið. Ég verð að segja að ég tel að það sé þakkarvert að bæði orkugeirinn og ferðabisnessinn eru óánægðir með þessa tillögu því að ef annar þessara aðila með jafnandstæða hagsmuni og gagnstæðan málflutning, væri mjög ánægður, þá væri hér um bil gefið að það væri gengið stórlega á hluta hins þannig að ég held að það sé bara gott að báðir aðilar séu svona mátulega óánægðir.

Ég geri ekki ráð fyrir því að meiri hluti sé á Alþingi til þess að ráðast á sveitarfélögin og fara að taka af þeim stjórnsýsluvald á afréttum enda er það nokkuð byltingarkennd hugsun. Eignarréttur á miðhálendinu er til skoðunar. Þeirri skoðun lýkur ekki strax. Það er flókið og vandasamt verkefni og það verður ekki gert í einu vetfangi. Mig minnir að í þjóðlendufrv. sé hugmyndin að úrskurðarnefndin ljúki sínu starfi á fimm árum. Þá eru eftir hugsanlega einhver málaferli, einhver réttargangur áður en ljóst verður hvar eignarrétturinn liggur og ég tel að ómögulegt sé að bíða eftir því. Væntanlega eru þeir sem tala fyrir því að taka miðhálendið undir sérstaka stjórn ekki að fjalla þar um önnur svæði en þau sem eru almenningseign eða verða almenningseign. Væntanlega eru þeir ekki að tala um þær afréttir sem einstök sveitarfélög geta sannað eignarrétt sinn á eða einstaklingar sem líka getur komið til greina þannig að ég held að það að bíða með málið þangað til búið væri að finna út hver ætti hvað, sé mjög óheppilegt.

Ég tel út af fyrir sig að óeðlilegt sé að taka skipulags- og byggingarlög út fyrir sviga eins og hér kom fram tillaga um. Það er prýðilegt samræmi í frv. eins og þau eru núna við skipulags- og byggingarlögin. En ef það ætti að gera, þá verður það ekki gert í þessu frv. heldur yrði það gert með breytingu á nýlega samþykktum skipulags- og byggingarlögum sem reyndar taka ekki gildi fyrr en um næstu áramót.

Menn hafa talað um hvað þessir sveitarstjórnarmenn sem koma til með að hafa eitthvað að segja um skipulagsmál á hálendinu séu nú fáir og smáir. Auðvitað þurfa þeir að kaupa sérfræðiaðstoð. Auðvitað kaupa þeir sér sérfræðiaðstoð og væntanlega verður það úr þéttbýlinu á suðvesturhorninu að einhverju verulegu leyti þannig að ég býst ekki við að oddvitarnir sjálfir fari að semja skipulagstillögur á eldhúsborðinu. Það dettur mér ekki í hug.