Sveitarstjórnarlög

Föstudaginn 05. desember 1997, kl. 16:12:19 (1779)

1997-12-05 16:12:19# 122. lþ. 36.13 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv., félmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur

[16:12]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get fullvissað hv. þm. um að það hafa iðulega komið upp raddir innan Framsfl. sem ekki hafa verið nákvæmlega sammála því sem ég hef verið að segja eða gera. Ég hef bara búið við þetta í öll þessi ár og það er aldrei hægt að gera svo að öllum líki. En í þingflokki framsóknarmanna, og í umboði þess þingflokks starfa ég, var það samþykkt með öllum atkvæðum gegn einu að þetta frv. færi fram sem stjfrv. Einn þingmaður gerði formlega fyrirvara um stuðning sinn við málið og við því er ekkert að segja. Það hefur iðulega komið fyrir áður.

Ég get líka fullvissað hv. þm. um að það gengur ekki hnífurinn á milli okkar hæstv. forsrh. í þessu efni. Það liggur náttúrlega fyrir að þetta frv. verður ekki afgreitt fyrr en þjóðlendufrv. er líka komið til meðferðar á Alþingi því eins og hér hefur þegar margoft komið fram í dag, þá verður því dreift einhvern næstu daga og hugsanlega tekið til 1. umr. fyrir jól. En bæði þessi frumvörp verða til meðferðar á sama tíma í þinginu. Þau fara hins vegar ekki til sömu nefndar. Ég geri ráð fyrir því að þjóðlendufrv. fari til allshn. Þetta fer til félmn. Það sem forsrh. lagði til var að nefndirnar mundu þá bera frumvörpin saman og fara yfir þau sérstaklega og þar með sannfærast um það að frumvörpin skarist ekki þannig að ég sé ekki að þarna séu nein vandamál á ferðinni.