Sveitarstjórnarlög

Föstudaginn 05. desember 1997, kl. 16:16:44 (1782)

1997-12-05 16:16:44# 122. lþ. 36.13 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv., JBH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur

[16:14]

Jón Baldvin Hannibalsson (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. félmrh. fullyrti í ræðu sinni hér áðan að það væri prýðilegt samræmi í þessum tveimur frumvörpum, þjóðlendufrv. hæstv. forsrh. og frv. félmrh. um sveitarstjórnarmálefni. Þessi fullyrðing er ekki rétt. Hæstv. ráðherra sagði: Þjóðlendufrv. fjallar um eignarrétt en mitt frv. fjallar um stjórnsýslu. Hæstv. ráðherra er stundum í þessum umræðum að bregða öðrum um að hafa ekki lesið frv. sitt. Nú spyr ég: Hefur hæstv. ráðherra ekki lesið þjóðlendufrv.? Í 3. gr. þess sem varðar kjarna málsins segir:

,,Leyfi forsætisráðherra þarf til að nýta vatns- og jarðhitaréttindi, námur og önnur jarðefni innan þjóðlendu nema mælt sé fyrir um annað í lögum. Ráðherra er jafnframt heimilt að leyfa nauðsynleg afnot af landi til hagnýtingar á þessum réttindum.``

Þetta varðar nýtingarrétt, framkvæmdir, stjórnsýslu. Hver er þá réttur annarra? Hann er frávik og undantekning. Hér segir skýrum stöfum að til þess að nýta land og þjóðréttindi að öðru leyti en hér er búið að taka fram, það er búið að taka það mikilvægasta út, þá þarf leyfi hlutaðeigandi sveitarstjórnar. En er það ótakmarkað? Nei, nei. Sé nýting heimiluð til lengri tíma en eins árs þarf jafnframt samþykki forsrh.

Með öðrum orðum réttur annarra, sveitarstjórna, en um það snýst mál hæstv. félmrh., snýst í fyrsta lagi ekki um mikilvægustu nýtinguna, stjórnsýsluna, og í annan stað er hún takmörkuð við einhverjar minni háttar framkvæmdir sem taka innan við ár. Sú fullyrðing að annað frv. sé um eignarrétt en hitt um stjórnsýslu og framkvæmd er þess vegna augljóslega ekki rétt. Er ekki rétt að hæstv. ráðherra lesi þjóðlendufrv. betur?

[16:18]