Sveitarstjórnarlög

Föstudaginn 05. desember 1997, kl. 17:01:40 (1788)

1997-12-05 17:01:40# 122. lþ. 36.13 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv., SvG
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur

[17:01]

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ég vil að mörgu leyti taka undir lokaorð hv. 9. þm. Reykv. að í rauninni eru þessi mál í nokkru uppnámi, ekki vegna þess að í öllum atriðum stangist þau frv. á sem hér hafa aðallega verið til umræðu, þ.e. ákvæði þessa frv. og þjóðlendufrv., heldur vegna þess að greinilegt er að menn í þessari virðulegu stofnun skilja málin afar misjöfnum skilningi. Ég tel að það væri alveg fráleitt að afgreiða málin þannig að í fyrsta lagi væri þessu frv. vísað til félmn. með hefðubundnum hætti og hún látin fara yfir það eins og hvert annað sveitarstjórnarmál, sem þetta er ekki --- þetta er ekki bara sveitarstjórnarmál, hinu málinu væri síðan vísað til allshn. með venjulegum hætti og hún fjallaði svo um það, og nefndirnar hefðu afar lítil samráð sín á milli um hlutina. Ég held að það eigi ekki að gera þetta svona. Ég held að þau umdeildu ákvæði, þessa frv. annars vegar og þjóðlendufrv. hins vegar, ættu hugsanlega að fara til sérnefndar þannig að horft væri á þessi mál í samhengi. Þá er ég ekki bara að hugsa um þessi ákvæði, ég er líka að hugsa um þau ákvæði skipulagslaga sem hér er um að ræða vegna þess að ég tel að um sé að ræða miklu víðtækari mál en svo að hægt sé að afgreiða þau á þann veg sem á að gera.

Ég get ekki tekið undir allt það sem hv. 9. þm. Reykv. sagði um þessi mál í ræðu sinni áðan en ég tek þó undir lokaorð hans, að ekki á að stofna til óvissu og ófriðar á undirbúningsstigi þessa máls því þetta er svo stórt mál að það snertir grundvallarþætti í þjóðartilverunni og það á að reyna að afgreiða þessa hluti þannig að um þá geti verið eins góð sátt og mögulegt er. Ég vil líka vísa því á bug, og taka undir það með hv. 9. þm. Reykv., að allt tal um að gagnrýni á þetta ákvæði til bráðabirgða snúist um vantraust eða ekki vantraust á sveitarstjórnum. Þetta er nákvæmlega sama klisjan og var notuð á okkur, t.d. á mig og fleiri þingmenn, þegar við hreyfðum spurningum varðandi það hvort rétt væri að flytja skólana til sveitarfélaganna. Það sem það mál snerist um af okkar hálfu var það að við vildum tryggja að börnin í landinu fengju sæmilega örugga kennslu og uppfræðslu á jafnréttisgrundvelli í landinu öllu, þetta snerist ekkert um vantraust eða traust á sveitarfélögunum, það kemur málinu ekkert við. Ég vísa sem sagt á bug klisjum af því tagi, í þessu frv. líka, og segi alveg eins og er, herra forseti, mér finnst að við ættum að reyna að temja okkur það í umræðum um mál af þessum toga að fara í efnisatriðin eins og þau liggja fyrir, og við erum hér til þess að reyna að leysa mál. Við erum ekki hér til þess að bera klisjur hvert á annað.

Ég vil síðan víkja að aðalefni þessa frv. og segja það alveg eins og er að mér finnst að hæstv. félmrh., með því að setja inn ákvæði til bráðabirgða, setji sveitarstjórnarstigið í rauninni dálítið niður. Vegna þess að frv. um stjórn sveitarfélaganna fær enga umræðu hérna eins og það þyrfti þó að gera vegna þess að hæstv. ráðherra treður inn í það allt öðru deilumáli. Ég tek undir það sem fram hefur komið að því er varðar þá hluti sem snúa að sveitarfélögunum, þá finnst mér frv. metnaðarlaust og lágreist og hvergi er í rauninni tekið á neinum þeim meginvandamálum sem við er að fást varðandi stjórn sveitarfélaganna í landinu.

Ég ætla í sjálfu sér ekki að fara yfir einstök atriði í þessum sveitarfélagabálki. Ég tel hins vegar að það örli á gamaldags, lokaðri, ólýðræðislegri hugsun í frv. Það er t.d. opnað fyrir það í frv. að sveitarstjórn, sem þó er kannski ekki nema 11 manna, og verður að halda opna fundi samkvæmt sérstöku ákvæði í frv., geti deilt sér niður þar sem sjö menn eru í svokölluðu sérstöku byggðarráði sem heldur lokaða fundi. Hvergi er gert ráð fyrir að fastanefndir á vegum sveitarfélaganna geti haldið opna fundi sem væri þó eðlilegt í ýmsum tilvikum og opnað yrði fyrir. Ég tel með öðrum orðum að nútímaáherslur varðandi skipan sveitarstjórnarmála hafi ekki náð inn í þetta frv. eins og þyrfti að gera.

Það er líka stór spurning hvort menn gangi ekki að nokkru leyti of langt í að kveða á um fyrirkomulag einstakra atriða í frv. og ég bendi á að kveðið er á um það í 12. gr. frv. að sett verði þak á fjölda sveitarstjórnarmanna í hverju sveitarfélagi. Þetta finnst mér vera hlutur sem sveitarstjórnirnar og stjórnvöld í sveitarfélögunum eigi að taka á en ekki þurfi að hafa vit fyrir þeim eins og gert er í þessu ákvæði og í fjöldamörgum öðrum.

Ég vil líka víkja að einu minni háttar atriði sem vakti athygli mína og benti til þess að frv. væri kannski ekki að öllu leyti nógu vandað en gert er ráð fyrir því í 38. gr. eins og þar stendur í 4. mgr. að formaður byggðarráðs, þ.e. byggðarráða og borgarráðs í Reykjavík þar með, skuli valinn úr hópi kjörinna byggðarráðsmanna. Það hefur verið þannig í Reykjavík um mjög langt skeið að formaður borgarráðs hefur ekki endilega verið úr hópi kjörinna borgarráðsmanna og ég hygg að það hafi verið Davíð Oddsson, hæstv. forsrh., sem innleiddi þetta fyrir allmörgum árum. Það hefur verið ágæt sátt um að framkvæmdastjórinn úr hópi borgarfulltrúa gæti verið formaður byggðarráðsins. Hér virðist hæstv. ráðherra vera með tillögu um að afnema þetta fyrirkomulag --- eða hvað? Og ég spyr vegna þess að í grg., á bls. 33, segir: ,,Í 4. mgr. er hins vegar bætt við ákvæði um að formaður byggðarráðs skuli valinn úr hópi kjörinna fulltrúa í byggðarráði. Rétt er þó að taka skýrt fram að slíkt ákvæði telst ekki koma í veg fyrir að byggðarráð geti í einhverjum tilvikum falið öðrum fundarstjórn, t.d. framkvæmdastjóra.`` Með öðrum orðum, það stendur allt annað í grg. en í frv. sjálfu. Ég hef reyndar rekist á það í fáeinum tilvikum öðrum, sem ég hef ekki tíma til að tíunda í smáatriðum, að mér sýnist að menn hefðu kannski mátt gefa sér aðeins betri tíma við að fara yfir annars vegar texta grg. og hins vegar þau ákvæði sem eru í frumvarpstextanum sjálfum og gæti ég nefnt um það fleiri dæmi en geri ekki að sinni vegna tímaskorts.

Þá vil ég, herra forseti, víkja aðeins lauslega að ákvæðinu til bráðabirgða, og minna á það meginatriði í stefnu sem við alþýðubandalagsmenn höfum gjarnan fylgt í þessu máli, að við höfum talið að hálendið ætti að vera ein samfelld stjórnsýslueining. Um þetta mál var fjallað mjög rækilega í nefnd sem skipuð var af þáv. umhvrh., ég hygg Júlíusi Sólnes á sínum tíma, og í skýrslu umhvrh., um undirbúning að löggjöf um stjórnsýslu á miðhálendi Íslands að því er tekur til skipulags- og byggingarmála, sem var lögð fyrir 113. löggjafarþing, er mjög rækilega farið yfir þetta og ég bendi þeim þingmönnum sem vilja setja sig inn í málið á þetta gagn því þar er býsna vel farið yfir hlutina. Þeir sem stóðu að þeirri skýrslu og því nál. voru m.a., með leyfi forseta: Geir Gunnarsson frá Alþb., Héðinn Sverrisson frá Samtökum um jafnrétti og félagshyggju, Hjörleifur Guttormsson, Hulda Jensdóttir frá Borgaraflokki, Jóhannes Geir Sigurgeirsson frá Framsfl. og Sigfús Jónsson frá Alþfl. Niðurstaða þessara manna, og fleiri reyndar, var sú sem fram kemur í skýrslunni, á bls. 3, með leyfi forseta, og hljóðar svo:

,,Afmörkun hálendis. Til þess að bæta úr því ástandi sem nú er í skipulags- og byggingarmálum kom fram sú hugmynd að framlengja mörk sveitarfélaga sem að hálendinu liggja þannig að landinu yrði öllu skipt í sveitarfélög. Þessi hugmynd virðist tæplega raunhæf. Mjög erfitt yrði að ákveða út frá hvaða sjónarmiðum ætti að framlengja, enda mörkin milli sveitarfélaga víða óljós og umdeild. Ekki tæki betra við [segir nefndin] þegar kæmi að því að ákveða efri mörkin á öræfa- og jöklasvæðum. Hugmyndir hafa þá verið um það að undanskilja öræfa- og jöklasvæði í slíkri afmörkun en þá er vandamálið enn óleyst því alls konar framkvæmdir hafa farið fram á öræfa- og jöklasvæðum og er síst við því að búast að úr slíku dragi. Eina raunhæfa leiðin [segir svo hér] til að koma lagi á meðferð byggingar- og skipulagsmála á hálendinu virðist því sú að koma þessum málum undir heildarstjórn.``

Þeir sem stóðu að þessu, eins og ég gat um áðan, voru menn úr öllum flokkum nema Sjálfstfl., þar á meðal Framsfl., Jóhannes Geir Sigurgeirsson, fyrrv. hv. þm., og ég man ekki betur en að um þessa skýrslu væri mjög góð sátt í þáv. hæstv. ríkisstjórn, sem var undir forustu Framsfl. Síðan gerist það að þetta mál er flutt á Alþingi í sérstöku frv. sem heitir frumvarp til laga um stjórn skipulags- og byggingarmála á miðhálendi Íslands. Og þar sagði svo í 1. gr.

,,Miðhálendi Íslands er sérstakt umdæmi að því er tekur til skipulagsmála samkvæmt skipulagslögum, nr. 19/1964, með síðari breytingum, og byggingarmála samkvæmt byggingarlögum, nr. 54/1978, með síðari breytingum, en með þeim frávikum sem greinir í þessum lögum.``

Með öðrum orðum var í rauninni að myndast full sátt um það hvernig á stjórnsýslu þessa svæðis yrði tekið. Um þetta mál var fjallað, m.a. í þeirri nefnd sem ég nefndi áðan, en einnig í sérstakri nefnd sem umhvrh. skipaði í ágústmánuði 1991, þá annar umhverfisráðherra sem var væntanlega Eiður Guðnason ef ég man rétt, og í þeirri nefnd voru fimm menn og höfðu það hlutverk að semja frv. um stjórn skipulags- og byggingarmála á miðhálendinu og í henni voru: Árni Ragnar Árnason alþm., Árni Gunnarsson fyrrv. alþm., Gunnar Eydal skrifstofustjóri, tilnefndur af Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Stefán Thors, skipulagsstjóri ríkisins, og Páll Líndal ráðuneytisstjóri, sem jafnframt var skipaður formaður nefndarinnar. Þessir menn, úr öllum flokkum og Sjálfstfl. til viðbótar, komast að þeirri niðurstöðu að gera tillögu um að miðhálendið verði allt eitt svæði. Því miður varð það þannig, þegar þetta mál kom til umræðu í þinginu, að menn fóru mikinn gegn því. Þar var fremstur í flokki núv. hæstv. félmrh. Það er ekki hægt að neita því. Hann fór þar langfremstur fyrir þeim mönnum sem réðust gegn þessu máli af öllu afli og notaði gríðarlega stór orð, jafnvel í samanburði við hann sjálfan, og er þá langt gengið, herra forseti.

[17:15]

Það var alveg greinilegt að hæstv. núv. félmrh. var gríðarlega mikið í mun að stoppa þetta. Af hverju ætli honum hafi verið svo mikið í mun að stoppa þetta? Jú, vegna þess að hann taldi í raun og veru að þetta skerti yfirráðamöguleika inni á hálendinu og hann vildi ekki hafa fyrirkomulagið sem þar var um að ræða. Hann vildi heldur að sveitarfélögin og þeir sem byggju næst þessu svæði gætu komið beinna að málinu en þarna var gert ráð fyrir.

Mér finnst því, herra forseti, í ljósi forsögunnar, athyglisvert að rifja upp hinar miklu ræður hans í málinu. Það ýtir undir að menn velti því fyrir sér og ég tel eðlilegt að menn velti því fyrir sér hvort þetta mál er í raun og veru bara sveitarstjórnarmál og sveitarmarkamál eða hvort menn séu í raun og veru að hreyfa hér mikið stærra máli, þ.e. að opna fyrir að þessi mál geti haft önnur áhrif á aðra hluti og þar með stangast á við önnur frumvörp eða lög sem liggja hér fyrir.

Ég vil í þessu sambandi segja það, herra forseti, að ég er alveg sammála því sjónarmiði sem fram kom hjá hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni fyrr í dag að best hefði verið að ljúka þessu máli með þeim hætti sem miðhálendisnefndin lagði til, ég tel að það hefði tvímælalaust verið best. Hitt er hins vegar ljóst að meiri hluti á Alþingi, einkum úr Framsfl. og Sjálfstfl., var ekki tilbúinn til þess að vinna hlutina svona. Þá er næsta spurning: Hvernig á að gera það? Niðurstaða Alþingis varð að draga sveitarfélagamörkin inn á hálendið eins og í grófum dráttum er gert í bráðabirgðaákvæði þessa frv. Ég held að við verðum að kannast við þá forsögu okkar að við stóðum í raun og veru öll að þeirri málamiðlun. Það var reyndar undir forustu Kvennalistans í umhvn. Alþingis sem þessi niðurstaða fékkst út úr meðferð skipulagslaganna á sínum tíma og ég man ekki betur en við höfum öll ,,prinsipielt`` greitt þessari niðurstöðu atkvæði þegar við vorum að fjalla um skipulagslögin á sl. vori.

En þá kemur hins hitt upp sem er alveg rétt og hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson fór mjög rækilega yfir áðan að á sama tíma eru menn með þetta þjóðlendufrv. til meðferðar í þinginu. Auðvitað verður að horfa á þessi mál í samhengi. Það er ekki hægt annað og þess vegna heyfði ég hugmyndinni um hugsanlega sérnefnd.

Ég vil láta það koma fram sem mína skoðun að mjög mikilvægt sé að ná lendingu í málinu þannig að óvissunni linni og það verði tekið á þessum málum með skipulegri hætti heldur en gert hefði verið. Ég tel að óvissunni linni ekki þó að sú leið verði farin sem hér var gerð tillaga um vegna þess að í einu veigamiklu atriði stangast þessi tvö frumvörp, annars vegar þetta og hins vegar þjóðlendufrv. á í veigamiklu atriði. Atriðið varðar það sem kallað er, minnir mig, í þjóðlendufrv. óbyggðaráð eða óbyggðanefnd þar sem gert er ráð fyrir því að hún geti í raun og veru fellt úrskurði og tekið ákvarðanir sem venjulega eru á vettvangi sveitarstjórna. Og það er alveg bersýnilegt að þessa hluti verður að lesa betur samana og vinna betur en gert hefur verið.

Ég vil líka segja það, herra forseti, að ég kann ekki að meta það og tek alveg undir það með hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni að í raun og veru er nokkuð sérkennilegt að setja þjóðlendumálin undir forsrh. eins og þar er gert ráð fyrir og ég held að á því máli verði líka að taka. Þó forsrh. sé sterkur í þessu landi eins og alþjóð veit, getur hann ekki haft hér sömu stöðu og kóngurinn hefur í norsku lögunum. Það gengur ekki þó að sjálfsagt vildu einhverjir hylla hæstv. forsrh. til þeirrar tignar, þá liggur það bara ekki fyrir að kostur sé á slíku og ég tel að auðvitað eigi þessi mál að vera undir umhvrh. eins og þau eru sett fram.

Varðandi ákvæði til bráðabirgða þá finnst mér að þar skorti verulega á upplýsingar með framlagningu frv. Ég hefði viljað sjá hvaða sveitarfélög er hér um að ræða. Ég hefði viljað sjá lista yfir það, skrá yfir það, helst kort þannig að það væri ljóst um hvaða byggðarlög væri verið að ræða.

Ég held að það væri líka nauðsynlegt að fá fram vangaveltur um það í frv., greinargerð lögfræðinga og annarra, hvaða áhrif þessar ákvarðanir gætu haft á þau verðmæti sem eru innan sveitarfélagamarkanna. Hvaða áhrif gæti þessi lagabinding haft á þau verðmæti, jarðir eða annað sem eru innan sveitarfélagamarkanna? Því að þó þessu, eins og bent hefur verið á, sé ekki ætlað að hafa áhrif á einkaeignarrétt og eignir inni á svæðinu, þá er ljóst að það getur verið þannig að skýari afmörkun hafi áhrif á eignir og eignamyndun að því er varðar einstaka þætti, jarðir, hlunnindi og jafnvel fleira.

Ég tel að þetta ákvæði frv. sé illa undirbúið til framlagningar hér og þó ekki kæmi annað til, þá ætti að skoða það mikið mikið betur heldur en gert hefur verið. Mér finnst satt að segja að vinnubrögð félmrh., að troða þessu inn sem ákvæði til bráðabirgða, vera fyrir neðan allar hellur. Það sýnir virðingarleysi við þingið, virðingarleysi við sveitarfélögin og eins að ætlunin var að koma ákvæðinu í gegn með býsna ódýrum hætti. Með hliðsjón af offorsinu sem hann beitti gegn miðhálendisfrv. á sínum tíma, vekur aðild hans á málinu tortryggni umfram það sem væri með aðra hæstv. ráðherra.