Sveitarstjórnarlög

Föstudaginn 05. desember 1997, kl. 17:41:47 (1790)

1997-12-05 17:41:47# 122. lþ. 36.13 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv., KH
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur

[17:41]

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Þetta er nú býsna viðamikið mál og tekur á fjölmörgum þáttum sem ég ætla nú reyndar ekki að fjalla um, ekki svona grein fyrir grein. Ekki vegna þess að þær séu ekki þess verðar að fjalla um þær heldur eru flest atriðin þar að mínu mati nokkuð skýr og hefur reyndar verið nokkuð fjallað um þau, m.a. af hv. 14. þm. Reykv. sem er formaður félmn. og var ég mjög sammála ýmsu því sem hún benti á í sínu máli. Ég treysti hv. félmn. ágætlega til að fara yfir þær athugasemdir sem hér hafa komið fram. En það er auðvitað fyrst og fremst 1. gr. frv. og ákvæði til bráðabirgða sem vakið hefur áhuga minn og áhyggjur. Sú tilhögun sem þar er lögð til er mjög stórt og mikilvægt mál og raunar svo stórt og mikilvægt að ég hefði talið rétt að þjóðin öll hefði átt að fá tækifæri til að fjalla um það og taka afstöðu til þess. Þetta er að mínu mati dæmigert mál sem ætti að fara í þjóðaratkvæði. En því miður hefur ekki náðst samstaða um það á Alþingi að setja lög um þjóðaratkvæðagreiðslur þrátt fyrir tillögur frá ýmsum og á ýmsum tímum.

Það þarf ekki að fara mörgum orðum um aðdraganda málsins og skiptar skoðanir sem þar hafa vegist á. Það er okkur flestum hér inni væntanlega vel kunnugt og hefur raunar verið rifjað upp í umræðunni. Því miður náðist ekki sátt um tillögu hv. fyrrv. umhvrh., Eiðs Guðnasonar, sem kom fram árið 1992 um það að miðhálendi Íslands yrði afmarkað frá heimalöndum, lýst sameign þjóðarinnar í heild sinni og sett undir eina skipulagsstjórn. Um þá ágætu tillögu náðist ekki sátt því miður og niðurstaðan varð sú sem við þekkjum, að sett var sérstök grein inn í skipulagslögin, grein sem kvað á um að sett yrði upp samvinnunefnd fulltrúa héraðsnefnda á þeim svæðum sem liggja að miðhálendinu og þessi nefnd skyldi gera tillögu að svæðisskipulagi miðhálendisins. Þessi niðurstaða hefur eðlilega sætt mikilli gagnrýni, einkum fulltrúa þess stóra hluta þjóðarinnar sem enga möguleika fékk þar með til íhlutunar eða áhrifa á meðan á þessu ferli hefur staðið og hvernig sú vinna hefur farið fram.

[17:45]

Það gegnir auðvitað allt öðru máli um þetta landsvæði en öll önnur. Miðhálendi Íslands hefur sérstöðu. Það hljóta allir að viðurkenna þó menn hafi reynt að draga úr því í umræðunni. Þetta landsvæði tekur yfir um þriðjung af öllu flatarmáli landsins og þar eru að miklu leyti hin óbyggðu víðerni sem land okkar býr yfir. Þar er sú auðlind sem er okkur hvað dýrmætust og má með sanni jafna til auðlindarinnar í hafinu umhverfis landið.

Það er reyndar ekki langt síðan menn fóru að átta sig á þeim verðmætum sem felast í náttúru landsins og ekki síst í þeim ósnortnu, eða kannski réttara sagt þeim lítt snortnu, víðernum sem áður vöktu fyrst og fremst óhug og töldust ekki til mikils nýt annars en ef hægt væri að beita á þau.

Auðvitað ferðuðust menn yfir þessar óbyggðir á milli landshluta, milli Norðurlands eða Norðurlands eystra og Suðurlands eða Suðvesturlandsins hins vegar, riðu t.d. til þings eða í verin. Um hálendið fóru menn ekki að nauðsynjalausu nema kannski stöku sérvitringar sem menn tóku ekki mikið mark á og meðhöndluðu einfaldlega sem slíka, hristu jafnvel bara höfuðið yfir þessum skringilegheitum eða í mesta lagi brostu í kampinn af umburðarlyndi. Nú er mörgum góðu heilli orðið ljóst hversu mikilvægt og verðmætt svæði hér er um að ræða, hvort sem er til að njóta þess eða nýta það með öðrum hætti. Ég orða þetta svona vegna þess að njóta einhvers á fagurfræðilegan eða tilfinningalegan hátt er líka nýting að mínu mati. Hvort sem um er að ræða til vísindarannsókna eða ferðalaga, til orkuvinnslu eða til beitarnytja er hér um afar mikilvægt og verðmætt svæði að ræða. Eftir því sem mönnum eykst nú skilningur og hugi á þessu svæði og nýtingu þess þeim mun ljósara verður hversu nærri þessari auðlind hefur þegar verið gengið og hversu brýnt er að setja lög og reglur um svæðið og um umgengni um það. Þarna hefur ríkt stjórnleysi í skipulags- og byggingarmálum og afleiðingarnar eru m.a. vegarslóðar þvers og kruss um svæðið og mikill fjöldi óleyfilegra bygginga af öllum stærðum og gerðum. Þarna er að finna um 400 skála af ýmsu tagi og um helmingur þeirra er í einkaeign. Ekki nóg með það, heldur mun aðeins um þriðjungur þessara bygginga vera reistur samkvæmt byggingarleyfi og er þar ýmsu ábótavant í frágangi svo sem hreinlætisaðstöðu og fráveitu og miklar umbætur sem þyrftu að gera í því efni.

Þá er ekki ofsagt að umsvif í orkumálum hafa breytt ásýnd landsins. Orkuver og raflínur og uppbyggðir vegir sem oft fylgja með, miklar raflínur með þeim risamöstrum sem þeim tilheyra hafa breytt ásýnd stórra svæða og munu halda áfram að gera það ef orkugeirinn fær að fara sínu fram. Því eru ríkar ástæður fyrir því að við þurfum að koma böndum á þetta stjórnleysi og þessa þróun með samræmdum hætti. Við erum með þessa dýrmætu auðlind í höndunum og raunverulega framtíð þessarar auðlindar sem við höfum þó aðeins að láni frá afkomendum okkar.

Ábyrgð okkar er því mikil að marka þá stefnu sem dugir til að varðveita þessa auðlind fyrir allri ónauðsynlegri röskun því að röskun verður sjaldnast aftur tekin. Ég er algerlega sammála því og fylgjandi því að komið verði einhverjum böndum á stjórnleysi og skipulagsleysi sem ríkir á miðhálendi Íslands og það er auðvitað vilji okkar allra.

Tillaga hæstv. félmrh. er samkvæmt ákvæði 1. gr. og ákvæði til bráðbirgða að staðarmörk aðliggjandi sveitarfélaga verði framlengd inn til landsins og sama eigi að gilda jöklana. Samvinnunefnd um skipulag miðhálendisins hefur tekið afstöðu til þessa fyrirkomulags sem hér er lagt til og miðað við skipan nefndarinnar kemur niðurstaðan ekki á óvart. Þeir taka undir þessa tillögu. Ég geri það ekki. Mér finnst niðurstaðan vond og ekki til þess fallin að halda þeirri heildarsýn sem er nauðsynleg í málefnum miðhálendisins. Að mínu mati er algert óráð að skipta þessu svæði í 40 reiti sem jafnmargir aðilar fái til umsýslu, að 40 aðilar móti hver með sínum hætti aðalskipulag og deiliskipulag hver á sínu svæði.

Hv. formaður nefndarinnar sem samdi þetta frv., hv. þm. Jón Kristjánsson, benti á það í máli sínu að landsmenn allir hefðu tækifæri til að gera athugasemdir við svæðisskipulag. Það er rétt. Allir hafa rétt til að gera athugasemdir en þeir koma ekki að ferli málsins fyrr en tillagan liggur á borðinu en það skiptir máli að þeir geta gert athugasemdir. En eftir að skipulagsrétturinn er kominn í hendur einstakra sveitarfélaga, margra sveitarfélaga, koma til aðalskipulag og deiliskipulag og þá verður ekki kallað eftir áliti þéttbýlisbúa eða annarra utan sveitarfélagamarkanna sem þarna ræðir um. Ég teldi hins vegar í hæsta máta eðlilegt að þessi sveitarfélög komi ákveðið að málum. --- Er hæstv. félmrh. ekki viðstaddur umræðuna? (Félmrh.: Ég er hér.) Ég vildi gjarnan að hæstv. ráðherra heyrði það að ég tel í hæsta máta eðlilegt að þessi sveitarfélög komi ákveðið að þessum málum, þ.e. þeim væri t.d. falin ákveðin verkefni á miðhálendinu í samræmi við þessa reitaskiptingu og að því leyti er gagnleg sú vinna sem hefur farið fram við að skipta þessu svæði upp eins og gert hefur verið. Með ákveðnum verkefnum er ég fyrst og fremst að hugsa um verkefni eins og heilbrigðiseftirlit og löggæslu. En eignarhald, yfirstjórn, skipulags- og byggingarstjórn þarf og á að vera á einni hendi.

Ég vil hins vegar taka það skýrt fram að þessi skoðun er ekki byggð á vantrausti í garð þeirra sem byggja þau sveitarfélög sem liggja að miðhálendinu. Ég vil að það komi skýrt fram. Ég get alveg hugsað mér að þar séu menn sem ég treysti til þess að fara með skipulagsmál á þessu svæði, en þá á öllu svæðinu.

Ég gef lítið fyrir vangaveltur og upphrópanir um þau 4% sem þar er um að ræða. Það er ekkert meginatriði í mínum huga heldur þessi kökusneiðaskipting. Meginatriðið er auðvitað að mörkuð sé stefna sem hægt er að búa við og ekki bara hægt að búa við heldur metnaðarfull stefna sem við getum verið stolt af og sem getur tryggt varfærnislega og sómasamlega nýtingu og umgengni um þetta mikilvæga svæði.

Það er skoðun mín að miðhálendi Íslands ætti að gera að friðlandi sem lúti sérstakri stjórn og sérstakri löggjöf með verndun náttúrunnar í fyrirrúmi en hvers konar nýting og mannvirkjagerð verði háð ströngu mati og skilyrðum um umhverfisvernd. Þar sem menn hafa í umræðunni í dag ítrekað minnst á Þingvelli til samanburðar og m.a. sagt að Þingvellir skipi ákveðinn sess í huga landsmanna, þá vil ég segja að hið sama gildir um miðhálendi Íslands í margra huga. Það hefðu menn t.d. heyrt ef þeir hefðu setið fund sem nokkur útivistar- og umhverfissamtök efndu til í gærkvöldi. Afstaða fundarmanna fór ekki milli mála en mest hreif mig afstaða eins af okkar ágætu listamönnum sem reyndi að lýsa þeim tilfinningum sem ráða því að við erum og verðum Íslendingar í hjarta okkar og sinni hvert svo sem örlögin bera okkur. Þar ræður saga þjóðarinnar, tunga, menning og ættarbönd, en ekki síður landið sjálft og náttúra þess, sérkenni landsins og víðáttan. Í landinu og víðáttum þess eigum við þá auðlind sem flestar aðrar þjóðir hafa bylt svo mjög og gjörnýtt og raskað að ekki verður um bætt. Miðhálendi Íslands er sameign þjóðarinnar allrar sem við berum sameiginlega ábyrgð á.