Sveitarstjórnarlög

Föstudaginn 05. desember 1997, kl. 17:57:17 (1791)

1997-12-05 17:57:17# 122. lþ. 36.13 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv., KHG
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur

[17:57]

Kristinn H. Gunnarsson:

Herra forseti. Mér vannst ekki tími til þess áðan að fara yfir öll þau atriði sem ég hefði kosið þannig að ég vil bæta við þar sem frá var horfið. Fyrst vil ég segja um hlutverk ráðuneytisins að það er í raun og veru þríþætt. Það fer í fyrsta lagi með framkvæmd laganna. Í öðru lagi annast það eftirlit með sveitarfélögum og í þriðja lagi sér það um að kveða upp úrskurði í ágreiningsefnum og deilumálum sem upp kunna að rísa út af lögunum.

Eins og ég gat um hefur mér þótt sá þáttur í starfi ráðuneytisins sem lýtur að úrskurðum fara batnandi með árunum. Hann hefur styrkst frekar en hitt. Hins vegar hefur mér þótt eftirlit ráðuneytisins vera mjög í skötulíki og einkennast af því að ráðuneytið virðist ekki treysta sér til þess að grípa til aðgerða gagnvart sveitarfélögum eins og áskilið er í lögum, hvort heldur um er að ræða aðgerðir sem þurfi að grípa til til þess að bregðast við versnandi fjárhag sveitarfélaga og eins eru ákvæði í gildandi lögum sem kveða á um hvernig fara skuli að í þeim efnum og hvenær ráðuneytið eigi að bregðast við. Hefur mér þótt mjög á skorta að ráðuneytið sinnti þessu sómasamlega og við höfum því miður allnokkur dæmi um mjög erfiða fjárhagsstöðu sveitarfélaga sem varð miklu verri en þurfti að verða vegna þess að ráðuneytið greip ekki í taumana eins og því bar.

Í þriðja lagi um framkvæmd laga styðst ráðuneytið mjög við Samband ísl. sveitarfélaga. Það er mjög náið samband milli ráðuneytisins og þessara samtaka sveitarstjórnarmanna um framkvæmd laga eins og í gegnum Jöfnunarsjóð sveitarfélaga og ráðgefandi ferli um undirbúning að lagabreytingum eða úrvinnslu eða útfærslu á einstökum lögum. Mér finnst að þessir þættir fari ekki allir vel saman og ég tel nauðsynlegt að breyta hlutverki ráðuneytisins. Ég er að vísu á þeirri skoðun að ráðuneyti eigi fyrst og fremst að vera eftirlitsaðili. Þau eiga ekki að fara með mikið af beinni framkvæmd laga eða stjórnsýslu. Ráðuneyti eða ráðherra eiga fyrst og fremst að fara með eftirlit með þeim sem falin er framkvæmd laganna eða lögin fjalla um. Ég hefði því kosið að sjá breytingar í þá veru að draga úr framkvæmdaþætti ráðuneytisins, draga úr þessu nána samstarfi milli ráðuneytisins og Sambands ísl. sveitarfélaga sem ég tel að hái að mörgu leyti eftirlitshlutverki ráðuneytisins. Ég tel að ráðuneytið eigi að hafa eftirlitshlutverk og vera mjög öflugt á því sviði. Ég tel því t.d. að meðan Jöfnunarsjóður sveitarfélaga er við lýði ætti að kjósa stjórn hans af Alþingi. Það væri tekið úr höndum ráðuneytisins og beinna hagsmunaaðila að fara með forræði málsins. Ég tel að það yrði mjög til bóta og vísa til samsvarandi ákvæða í öðrum lögum eins og um flugmál og fleira.

[18:00]

Ég tel líka eðlilegast að úrskurðarþátturinn sé sjálfstæður jafnvel þótt sá þáttur í starfi ráðuneytisins sé að mínu mati sá sem best hefur gengið. Og ég vil velta því upp hvort ekki væri rétt að gera úrskurðarþáttinn að sjálfstæðum dómstól, eins og tíðkast sums staðar í Evrópu, að hafa sérstakan stjórnsýsludómstól sem hægt er að snúa sér til með umkvartanir og kærur hvað varðar opinbera stjórnsýslu og ekki bara sveitarstjórnarstigið heldur líka ríkisvaldið. Ég teldi það efla mjög eftirlit með þessum aðilum og stöðu almennings gagnvart hinni opinberu stjórnsýslu að settur yrði á fót stjórnsýsludómstóll. Ég hygg að líka kæmi til greina að gera umboðsmann Alþingis að slíkum dómstól. Þetta vil ég nú nefna mönnum til umhugsunar um þetta atriði.

Ég bendi á að í lögum og þessu frv. er gert ráð fyrir að sveitarstjórnarstigið starfi í raun á ábyrgð ríkisvaldsins sem felst í hlutverki ráðuneytisins með eftirlitinu og felst líka í því að sveitarfélög verða eigi gerð gjaldþrota. Ríkisvaldið gengur alltaf í ábyrgð fyrir skuldbindingum sveitarfélaga. Það er út af fyrir sig eðlilegt út frá þeirri hugsun að ríkisvaldið sé eitt og því beri að fara eins með það enda ljóst að ríkisvaldið verður ekki gert gjaldþrota eitt og sér og eðlilegt að ríkisvaldið beri ábyrgð á sveitarstjórnarstiginu. Þessi staða gerir það að verkum að ef menn eru ákveðnir í því að ríkisvaldið eigi að vera bakábyrgt fyrir starfsemi sveitarfélaganna hvað fjárhagsmál varðar þá verði ríkisvaldið að hafa eftirlit með þeim og ráðuneytið verði að fara með það eftirlit og það verði að vera mjög öflugt og miklu virkara en gert er ráð fyrir í frv. sem þó er nokkur endurbót frá gildandi lagaákvæðum.

Mér finnst ferlið vera fremur seinvirkt í frv. eins og það er lagt til og þó að eftirlitsnefndin sé framför frá því sem nú er þá eru möguleikar eftirlitsnefndarinnar til að grípa í taumana mjög takmarkaðir og í raun einvörðungu þeir að leggja fram tilmæli og síðan tillögur til ráðherra. Ég tel því að skilgreina verði hlutverk eftirlitsnefndar mun ákveðnar ef það á að styðjast við það fyrirkomulag og veita henni lagaúrræði til að grípa til aðgerða eins og kveður á um í 75. gr. frv. en þar vantar alveg hvaða aðgerða eftirlitsnefndin getur gripið til.

Þá finnst mér líka koma til greina að hverfa einfaldlega frá þessu fyrirkomulagi og mér finnst nokkur rök mæla með því að afnema ríkisábyrgðina af sveitarfélögunum og þau starfi á eigin ábyrgð og þau verði þá gerð gjaldþrota ef svo vill verkast. Það undirstrikar sjálfstæði sveitarfélaganna og að við ætlumst til þess að þau standi sig í sínu hlutverki. Þau verða líka sjálfstæðari gagnvart framkvæmdarvaldinu. Það er að mínu viti mjög nauðsynlegt að auka sjálfstæði sveitarfélaganna gagnvart ríkisvaldinu en ég fer ekki nánar yfir það því tíminn er of naumur til þess.

Ég vil í lokin, herra forseti, hlaupa yfir örfá atriði í frv. sem ég hef athugasemdir við. Það er fyrst í 19. gr. frv. þar sem fjallað er um hæfi sveitarstjórnarmanna og að sveitarstjórnarmenn sem jafnframt eru starfsmenn sveitarfélaga séu vanhæfir til að fjalla um mál sem þeir hafa undirbúið þegar það kemur til sveitarstjórnar. Mér finnst það vera mikið álitaefni að menn verði vanhæfir við það eitt að fjalla um mál áður en það kemur til sveitarstjórnar en mér finnst ekki nein rök fyrir hinu og raunar fráleitt að gera undanþágu frá þessu ákvæði ef menn eru á annað borð á þeirri skoðun, að það að fjalla um mál í starfi sínu geri menn vanhæfa sem stjórnmálamenn í sveitarstjórn, þá finnst mér fráleitt að gera undanþágu varðandi þann embættismann sem fjallar um flest ef ekki öll mál áður en þau koma til sveitarstjórnar, þ.e. framkvæmdastjóra sveitarstjórnarinnar. Annaðhvort verður ákvæði að gilda um alla starfsmennina eða þá að endurskoða þurfi það.

Ég geri athugasemdir við ákvæði 12. gr. um fjölda fulltrúa í sveitarstjórn. Þar sem svo háttar til að tiltölulega fáir sveitarstjórnarmenn eru þá hafa komið upp þau tilvik, og oftar en einu sinni, að einn flokkur hefur fengið meiri hluta sveitarstjórnarmanna út á minni hluta atkvæða og dæmi eru um að allt niður í 43% atkvæða hafi skilað mönnum meiri hluta í sveitarstjórn. Þetta er fullkomlega óeðlilegt ákvæði og ég tel að hafa verði jöfnunarákvæði eða ákvæði um jöfnunarfulltrúa í frv. eins og tíðkast sums staðar erlendis svo sem í Hamborg, svo ég nefni dæmi, þannig að þess sé ávallt gætt að meiri hluti í sveitarstjórn (Forseti hringir.) styðjist við meiri hluta atkvæða.