Sveitarstjórnarlög

Föstudaginn 05. desember 1997, kl. 18:07:47 (1792)

1997-12-05 18:07:47# 122. lþ. 36.13 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv., ÖS
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur

[18:07]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu mjög en það eru nokkur atriði sem ég tel nauðsynlegt að fá svör við frá hæstv. ráðherra. Auk þess eru nokkur atriði sem ég tel nauðsynlegt að reifa sérstaklega, m.a. forsaga málsins. Jafnframt langar mig til að draga fram í ræðu minni það sem ég tel vera grundvallaratriði þess sem við erum að deila um. Ef hæstv. ráðherra mætti vera að því að hlýða á mál mitt þá vildi ég fyrst byrja á því að spyrja hann tveggja spurninga. Það kom fram í máli hæstv. ráðherra í dag, og hann staðhæfði það beinlínis, að þetta frv. nyti stuðnings stjórnarflokkanna. Hann gat þess sérstaklega að í hans eigin flokki, Framsfl., hefðu allir utan einn lýst samþykki við frv. og þess vegna spyr ég hæstv. ráðherra: Er það rétt sem hann sagði að einungis einn þingmaður Framsfl. hefði gert fyrirvara við frv. eða er það rétt sem kom fram í ræðu hv. þm. Jóns Baldvins Hannibalssonar að ekki einn heldur fjórir þingmenn Framsfl. hefðu gert athugasemdir við frv.? Ef það er rétt, herra forseti, þá liggur það fyrir að verulega stór hluti af Framsfl. fylgir ekki málinu sem um er að ræða. Það sem hv. þm. hafa þá væntanlega gert athugasemdir við er hið sama og hv. þm. Siv Friðleifsdóttir gerði í ræðu sinni í dag þar sem hún tók mjög einbeitta og skelegga afstöðu gegn bráðabirgðaákvæðinu og lýsti því hvernig hún telur að það komi ekki heim og saman við sannfæringu hennar að samþykkja það ákvæði. Þar talaði hv. þm. fyrir hönd íbúa þéttbýlisins og drap þar í rauninni á kjarna málsins vegna þess að hér er um að ræða réttlætismál sem snertir þá mjög fast.

Mig langar líka, herra forseti, að fá fram skilning hæstv. ráðherra á eðli þessa frv. Ég hlýddi á ræðu hans fyrr í dag og það sem hæstv. ráðherra sagði í ræðu sinni var eftirfarandi. Hann sagði að sveitarfélögin færu með stjórnsýsluvald í heimalöndum og almenningum þannig að í rauninni væri ekkert eftir nema jöklarnir. Ég spyr þess vegna hæstv. ráðherra: Er það svo að bráðabirgðaákvæðið fjalli þá í rauninni einungis um það að draga mörk sveitarfélaganna inn eftir jöklunum? Er það í rauninni það sem bráðabirgðaákvæðið gengur út á? Ég tek fram, herra forseti, að ég er algjörlega ósammála þessari túlkun hæstv. ráðherra. En ef þetta er skoðun hæstv. ráðherra þá skil ég ekki til hvers hann er að hafa fyrir þessu öllu saman, ef það er það eitt sem skiptir máli.

Ég vil líka átelja, herra forseti, að farið sé með þessum hætti með þetta mikilvæga mál. Hér er um að ræða stórt og viðamikið frv. til sveitarstjórnarlaga og ég tel mjög óeðlilegt að þessar miklu breytingar, þ.e. breytingar á staðarmörkum sveitarfélaga, séu settar hér sem ákvæði til bráðabirgða við þennan mikla bálk. Ég tel auðvitað að hæstv. ráðherra sé að gera það vegna þess að hann er að reyna að draga úr umræðunni og deilunum sem það hlýtur að valda. Hvers vegna veldur það deilum, herra forseti? Vegna þess að þetta er réttlætismál fyrir þá sem búa hér á þéttbýlissvæðunum. Þeir eru í rauninni, samkvæmt þessu frv., útilokaðir frá því að hafa áhrif á stjórnsýslu miðhálendisins. Miðhálendið er stærsta perla Íslands. Það tekur 40% af flatarmáli landsins. Og það er í hæsta máta óeðilegt, herra forseti, að íbúar þessara fjölmennu svæða skuli ekki fá að koma að stjórnsýslu þess en það er það sem lagt er til með þessu frv.

Það liggur líka fyrir, herra forseti, að á næstunni munum við fá í þingið þjóðlendufrumvarpið svokallaða, nánast óbreytt frá því í fyrra, og ljóst að við það er mikið fylgi í flestum stjórnmálaflokkum. Þar er gert ráð fyrir að ríkið slái eign sinni á þau svæði sem enginn getur gert eignarréttartilkall til. Þar með er alveg ljóst að ríkið mun eignast þessi svæði og verða hinn lögformlegi eigandi. En hvað er ríkið? Það er auðvitað fólkið í landinu og það vill svo til að stór hluti þessa fólks býr hér á þéttbýlissvæðunum, býr í Reykjavík, býr í Reykjaneskjördæmi. Er ekki sanngjarnt að það fólk fái aðild að stjórn þessara svæða? Að sjálfsögðu er það svo. En með því að fara þá leið að einungis þau sveitarfélög sem beinlínis liggja eða eiga mörk að miðhálendinu fái að taka þátt í stjórninni, þá er verið að svipta okkur íbúa þéttbýlisins þeim frumburðarrétti sem við höfum eins og aðrir þegnar þessa lands til miðhálendisins. Og ég átel það, ég get ekki fallist á það. Mér er það mætavel ljóst að hæstv. ráðherra hefur aðra skoðun og ég virði það en hér er um grundvallarágreining að ræða.

Það er alveg ljóst að innan tíðar verður miðhálendið sameign þjóðarinnar samkvæmt lögum og þjóðin öll hlýtur að þurfa á einhvern hátt að koma að stjórn þess, í gegnum Alþingi eða með einhverjum öðrum hætti. En það er ekki hægt að fallast á það að einungis þau sveitarfélög sem liggja að miðhálendinu fái að fara með þetta vald. Og því mótmæli ég fyrir mína hönd og míns stjórnmálaflokks.

Alþfl. hefur ákveðna sögu í þessu máli og hún hefur lítillega verið rakin í dag, og ég held að nauðsynlegt sé að menn fari aðeins yfir það mál. Fyrrv. umhvrh. Eiður Guðnason lagði á upphafsárum síðustu ríkisstjórnar fram frv. á þingi. Þar var gert ráð fyrir að sérstök stjórnarnefnd færi með skipulags- og byggingarmál á miðhálendinu. Frá því er rétt að greina að þetta frv. var umdeilt. Það sætti harðri gagnrýni af hálfu sveitarfélaganna sem vildu sitja ein að þessu. Jafnframt kom upp ágreiningur innan samstarfsflokks Alþfl., Sjálfstfl., sem varð til þess að ekki náðist sátt um frv. Niðurstaðan var því sú að þáv. umhvrh. Eiður Guðnason lagði fram annað frv. sem gerði ráð fyrir því að sett yrði á stofn sérstök samvinnunefnd um skipulag miðhálendisins. Það var tvennt sem sú samvinnunefnd átti að sjá um. Í fyrsta lagi átti hún að einbeita sér að því verkefni að skilgreina mörk miðhálendisins og síðan átti hún að vinda sér í skipulag þess. Það er hins vegar alveg klárt að sú nefnd vélaði ekkert um stjórnsýslu og ekkert um eignarhald. Það var alveg ljóst og ég ítreka það alveg sérstaklega, herra forseti, vegna þess að fram hefur komið í máli manna fyrr í dag að menn átelja Alþfl. fyrir að hafa farið þessa leið. Það var að vísu rétt að það var ráðherra Alþfl. sem lagði þetta mál fram en um það mál skapaðist alger sátt í þinginu.

[18:15]

Ég vek sérstaka athygli á því og mér þykir það verra að hv. þm. Hjörleifur Guttormsson er ekki viðstaddur en mál hans í dag var ekki hægt að skilja með öðrum hætti en þannig að hann væri í rauninni að ásaka Alþfl. fyrir að hafa hörfað frá stefnu sem hann taldi góða og sem við vorum sammála um, Alþfl. og ég held obbi Alþb. og örugglega ég og hv. þm., og í staðinn farið þá leið sem valin var með samvinnunefndinni. En það er nauðsynlegt að ítreka að hv. þm. Hjörleifur Guttormsson var líka sammála því. Hann átti meira að segja þátt í því í umhvn. þingsins að málinu var breytt svolítið. Ég leyfi mér, herra forseti, að vitna til ræðu hv. þm. þegar málið var rætt við 2. umr. Þá sagði hv. þm. Hjörleifur Guttormsson, með leyfi hæstv. forseta:

,,Því var það sammæli í nefndinni að stíga það skref sem hér er lagt til og taka undir þann farveg sem lagður var til og samstaða hafði tekist um með umhvrh. og fulltrúum sveitarstjórna sem umhvrn. leitaði samráðs við. Ég vænti þess að sá farvegur sem hér hefur verið markaður leiði til þess að innan ekki langs tíma verði mótuð tillaga að skipulagi miðhálendisins og að sú tillaga fái umsagnir af hálfu sveitarstjórna og síðan verði hægt að vinna markvisst áfram í málinu á grundvelli þeirra ákvarðana sem Alþingi síðar tekur...`` Það er nauðsynlegt að þetta komi fram vegna þess að ég gat ekki skilið mál hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar öðruvísi í dag en hann væri þeirrar skoðunar að það hefði verið eitthvert alveg sérstakt óhappaspor sem þáv. umhvrh. Eiður Guðnason tók. Hafi það verið þá var það skref stigið með öllum þingmönnum sem voru staddir í þessu þingi þá. Enginn greiddi atkvæði á móti því og einn af þeim sem greiddi atkvæði með því var hv. þm. Hjörleifur Guttormsson sem sagði í ræðu sinni að hann vonaðist til þess að þetta yrði til þess að fram kæmi skipulagstillaga sem sveitarstjórnir gætu síðan sett skoðanir sínar fram við. Nákvæmlega þetta hefur gerst. Hafi þetta verið óhappaskref er það óhappaskref sem þingið stóð allt að. Það var einfaldlega þannig, herra forseti, að samstaða skapaðist um þetta mál. Allir stjórnmálaflokkar áttu þátt í því, það var enginn einn stjórnmálamaður sem greiddi ekki atkvæði með þessari niðurstöðu.

Það er rétt að velta því fyrir sér af hverju menn urðu sammála um að stíga þetta skref. Þetta var sá sameiginlegi flötur sem lengst gekk. Menn stóðu frammi fyrir því að það var skipulagsleg óvissa á miðhálendinu. Menn voru þar að byggja skúra og kofa út um allt vegna þess að enginn hafði lögsögu yfir því. Það eru á sjöunda hundrað byggingar á miðhálendinu í dag og þeim hefur fjölgað á síðustu árum. Nákvæmlega þegar þetta mál var inni í þinginu stóðu m.a. deilur um bústaðaþyrpingu inn af Skjaldbreið sem þar var í nokkrum vexti og enginn gat komið nokkrum hömlum á. Menn horfðu fram á að þetta gæti gerst víðar og þess vegna ákváðu menn að stíga þetta skref til þess að það væri þó a.m.k. hægt að ná samkomulagi um það að koma einhvers konar skipulagi á miðhálendið til að það yrði ekki áfram þetta skipulagslega rugl. Þetta var t.d. obbinn í ræðu þáv. formanns umhvn. Kristínar Einarsdóttur og hún mælti fyrir munn allrar nefndarinnar þegar hún sagði líka, með leyfi forseta:

,,Nefndin leggur áherslu á að þau mörk, sem dregin verða um miðhálendið, munu á engan hátt breyta núverandi réttarstöðu hvað varðar eignarhald á svæðinu og lögsögu yfir afréttum og almenningum.``

Umhvn. varð sammála um þetta. Það var enginn sem mælti í mót þessu, enginn þeirra sem tóku til máls þannig að hér var um að ræða hið sameiginlega álit umhvn. Í því ljósi tel ég ósanngjarnt að koma núna og reyna að ásaka þá sem höfðu frumkvæði að því að finna þennan stærsta samkomulagsflöt í málinu og segja að það hafi leitt málið allt yfir á óheillaspor. Staðreyndin er einfaldlega sú að við stóðum frammi fyrir því að það varð með einhverjum hætti að koma böndum á skipulag miðhálendisins. Það voru uppi mismunandi skoðanir, menn náðu ekki öðru samkomulagi en þessu og allt þingið stóð að því og það tel ég, herra forseti, að sé afskaplega mikilvægt að menn rifji upp í tilefni þeirra umræðna sem urðu fyrr í dag.