Sveitarstjórnarlög

Föstudaginn 05. desember 1997, kl. 18:20:17 (1793)

1997-12-05 18:20:17# 122. lþ. 36.13 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv., KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur

[18:20]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Össur Skarphéðinsson mótmælir því hástöfum að aðeins sveitarfélögin sem liggja að hálendinu komi til með að ráða einhverju um hálendið eða um það hverjir komi til með að hafa eitthvað með þau mál að gera sem að því snúa. Ég velti því fyrir mér hvort hv. þm. hafi ekki almennilega skilið að þetta frv. gengur út á að skipuleggja hálendið. Það gengur ekki út á eignarrétt á hálendinu.

Frv. um þjóðlendur mun aftur á móti taka á því og þjóðlendufrv. gerir ráð fyrir því að öll lönd sem eru ekki í eigu einhverra í dag samkvæmt lögum verði eign ríkisins og þar með er það ríkið og fólkið í landinu sem verður eigendur að landinu. Því mun ekkert geta farið fram á þessum svæðum nema með samþykki eigendanna eða ríkisins og forsrh. í þessu tilfelli. Ég átta mig því ekki á því hvers vegna hv. þm. vill halda því fram að þarna sé enginn sem geti komið að nema sveitarfélögin sjálf, það er misskilningur.