Sveitarstjórnarlög

Föstudaginn 05. desember 1997, kl. 18:23:40 (1795)

1997-12-05 18:23:40# 122. lþ. 36.13 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv., KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur

[18:23]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Össur Skarphéðinsson er skynsamur maður og rökfastur en í þessu tilfelli finnst mér hann hafa farið heldur yfir mörkin því að honum sést algerlega yfir að hingað til hefur ekki verið nein stjórn á miðhálendinu. Eins og hann kom réttilega inn á áðan hafa verið byggðir víða skúrar og einhver mannvirki sem enginn hefur í raun gefið leyfi til að koma upp á þeim svæðum vegna þess að ekki hefur verið ljóst hver átti í rauninni að gefa heimildir til þess að þarna risi eitthvað. Nú er verið að taka á því að sveitarfélögin munu koma til með að skipuleggja þá byggð eða þá nýtingu sem á þessum svæðum eigi að vera til framtíðar.

Það er síðan handhafi eigenda, forsrh., sem mun koma til með að samþykkja og þá væntanlega breyta ef á þarf að halda því skipulagi sem sveitarstjórnirnar koma til með að leggja fyrir embætti hans. Ég tel að með þessu frv. sé verið einmitt að tryggja að allir íbúar landsins sem forsrh. hefur umboð fyrir hafi eitthvað um það að segja hvernig þessi mál verða unnin á næstu árum.

Ég sagði einnig áðan að það sem ég hefði heyrt frá forustumönnum sveitarfélaga væri í þá áttina að menn vildu reyna að draga úr tortryggni sem mér finnst að sé verið að reyna að koma upp út af því að sveitarfélög fari með skipulagið þarna, að þessi svæði sem munu falla undir þetta sem er miðhálendið og jöklar annars staðar eins og Snæfellsjökull og Drangajökull. Þar væru þau tilbúin til þess að skipa skipulagsnefnd sem í sætu fulltrúar sveitarfélaga sem hefðu stjórnsýslu á löndum innan þessara marka ásamt því að heimila eða fallast á það að fulltrúar frá sveitarfélögum eins og höfuðborgarsvæðinu sætu einnig í þeirri nefnd og gætu þá komið að skipulaginu á einhvern hátt. Ég tel að sveitarstjórnirnar séu tilbúnar til þess að leysa þetta til að komast hjá ágreiningi.