Sveitarstjórnarlög

Föstudaginn 05. desember 1997, kl. 18:28:04 (1797)

1997-12-05 18:28:04# 122. lþ. 36.13 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv., SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur

[18:28]

Svavar Gestsson (andsvar):

Herra forseti. Það sem ég vildi nefna í framhaldi af ræðu hv. 15. þm. Reykv. var það sem hann sagði um málflutning hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar sem mér fannst vera á dálitlum misskilningi byggt. Það sem hv. þm. Hjörleifur Guttormsson var að gera með máli sínu í dag var að rifja upp að Alþfl. er flokkur með fortíð í þessu máli eins og öðrum. Hv. þm. Hjörleifur Guttormsson rakti málið. Í fyrsta lagi var skipuð hálendisnefnd af hæstv. umhvrh. Júlíusi Sólnes á sínum tíma. Þessi nefnd skilaði skýrslu og um hana var fjallað hér í þinginu og aðilar að þeirri skýrslu voru menn úr öllum flokkum nema Sjálfstfl.

Síðan skipaði hæstv. umhvrh. Eiður Guðnason aðra nefnd. Í henni voru menn úr mörgum flokkum, m.a. bæði Alþfl. og Sjálfstfl. Hv. þm. Árni Ragnar Árnason var í þeirri nefnd. Niðurstaða hennar varð sú að gera tillögu um að það yrði sérstök stjórnsýslueining á miðhálendinu og það er sú stefna sem við alþýðubandalagsmenn viljum halda okkur við í málinu. Þannig stendur það að því er okkur varðar.

Hins vegar sagði hv. þm. Hjörleifur Guttormsson og við sem áttum þá sæti á Alþingi og greiddum samhljóða atkvæði með málinu eins og hv. þm. Össur Skarphéðinsson benti á, að það er betra að skipa þessum málum einhvern veginn en engan veginn. Það var ekki vegna þess að við teldum þetta gott fyrirkomulag heldur vegna þess að við sögðum að það væri engin önnur leið sem menn féllust á. Þetta var samþykkt samhljóða atkvæðum í þinginu og hæstv. umhvrh. Eiður Guðnason beygði sig fyrir þessum pólitíska meiri hluta sem allt í einu birtist úr stjórninni og stjórnarandstöðunni þar sem Sjálfstfl. og Framsókn sameinuðust í málinu.

Gagnrýni okkar núna á ákvæði til bráðabirgða stafar af því að við teljum að það eigi ekki að vera inni í þessu frv. Við teljum að í veigamiklu atriði að því er varðar óbyggðanefndina sérstaklega stangist frv. um þjóðlendur og þetta frv. á. Á því byggist okkar gagnrýni á þetta frv.