Sveitarstjórnarlög

Föstudaginn 05. desember 1997, kl. 18:36:47 (1799)

1997-12-05 18:36:47# 122. lþ. 36.13 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv., ÁE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur

[18:36]

Ágúst Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Það er ekki rétt með farið hjá hæstv. ráðherra þegar hann segir að þetta frv. feli raunverulega bara í sér að sveitarfélögin fái núna vald yfir jöklunum. Það er ekki rétt. Sveitarfélögin fara ekki með stjórnsýsluvald í almenningi. Það sem hefur verið ágreiningsefni víðar hefur tengst mörkum á sveitarfélögum. Með þessu frv. er hins vegar sveitarfélögum falið stjórnsýsluvald mun víðtækara en þau hafa haft áður sem m.a. snýr að skipulagsmálum, ekki einungis á jöklum, heldur á því sem kallað er almenningar. Réttarstaðan er sú að hálendi er núna einskismannsland. Ríkið hefur víðtæka heimild til að setja reglur um nýtingu þess. Heimildir sveitarfélaganna og íbúa þeirra innan hálendisins takmarkast við þröngar nýtingarheimildir, fyrst og fremst beitarafnot og veiðiréttindi sem upprekstraraðilum t.d. eru falin með lögum. Þessi svæði hafa aldrei verið skýrt afmörkuð frá eignarlögum og það er í sjálfu sér ekki tekið á því í þessu frv. Málið er því miklu víðtækara en hæstv. ráðherra lét að liggja í síðustu ræðu sinni og það á ekki að draga neitt úr því. Hér er um að ræða mjög mikilvægt vald á mjög víðtæku sviði og stóru landsvæði sem sveitarfélögum er falið með þessu frv. Svo hefur það hefur komið skýrt fram af hverju við gagnrýnum það að tiltölulega fámenn sveitarfélög fái svona mikið vald yfir sameign þjóðarinnar. Þetta ætti þá frekar, eins og við höfum nefnt, að fela sérstöku stjórnvaldi.