Sveitarstjórnarlög

Föstudaginn 05. desember 1997, kl. 18:46:03 (1805)

1997-12-05 18:46:03# 122. lþ. 36.13 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv., KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur

[18:46]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Það er mjög nauðsynlegt að ráðuneyti sinni hlutverki sínu um eftirlit með fjárhag sveitarfélaga því að þegar hann fer úr böndum, þá líða íbúar sveitarfélagsins fyrir og það hefur því miður gerst og leitt af sér t.d. fólksfækkun umfram það sem annars hefði orðið.

Ég er hissa á hæstv. félmrh. að leggja til í frv. sínu að hafa áfram þriggja ára áætlun fyrst hann hefur ekki meiri trú á því plaggi en raun ber vitni og reyndar bætir hann um betur því að hann gerir ráð fyrir því að þessi þriggja ára áætlun verði fjögurra ára áætlun, þ.e. fjárhagsáætlun ársins og næstu þriggja ára þar á eftir, en í gildandi lögum er þetta þriggja ára áætlun aðeins tvö næstu ár á eftir gerð fjárhagsáætlunar.

Ég vil nefna sem dæmi það sem kom fram í fyrri ræðu minni í dag um sleifarlag félmrn. í eftirlitsskyldu sinni og það er um vatnsgjald. Það er vitað að innheimt er vatnsgjald af íbúunum um 200--300 millj. kr. á ári umfram það sem lög um vatnsgjald heimila. Þau lög heyra undir félmrh. og í svari sem ég er með hérna kemur skýrt fram að félmrn. vill ekki framfylgja þeim lögum.