Aukatekjur ríkissjóðs

Mánudaginn 08. desember 1997, kl. 15:13:21 (1812)

1997-12-08 15:13:21# 122. lþ. 37.5 fundur 304. mál: #A aukatekjur ríkissjóðs# (dómsmálagjöld o.fl.) frv., JóhS
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur

[15:13]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Það frv. sem hér er til umræðu um breytingu á lögum um aukatekjur ríkissjóðs felur í sér verulegar hækkanir á dómsmálagjöldum sem ég geri hér einkum athugasemdir við. Eins og fram kom í máli hæstv. fjmrh. er áætlað að fyrirhugaðar hækkanir muni gefa ríkissjóði tæpar 100 millj. kr. Hverjir eru það svo sem aðallega lenda í þessum hækkunum? Jú, það eru einkum heimili sem eru í verulegum fjárhagserfiðleikum og miklum vanskilum, menn jafnvel komnir með íbúðir sínar á nauðungarsölu. Ég hef fengið í hendur sundurliðun á þessum 100 millj. Þar kemur fram að hækkun t.d. vegna beiðna um nauðungarsölu er 24 millj kr. Þetta er hækkun á þeim pósti sem lendir að verulegu leyti á heimilum sem eru í miklum fjárhagserfiðleikum. Aðfarargjald á að hækka um 22 millj. þannig að samtals er hækkunin á aðfarargjöldum og gjöldum fyrir beiðni um nauðungarsölu um helmingurinn af hækkun á dómsmálagjöldunum.

[15:15]

Ég vil rifja upp, herra forseti, að ég flutti á síðasta þingi, ásamt hv. þm. Rannveigu Guðmundsdóttur, Kristínu Ástgeirsdóttur og Gísla S. Einarssyni till. til þál. um aðgerðir til að bæta stöðu skuldara. Einn þáttur í því var að dregið yrði úr gjaldtöku og skattlagningu hins opinbera vegna skulda einstaklinga, svo sem stimpil- og þinglýsingargjalda og gjaldtöku við fjárnám, nauðungarsölu og virðisaukaskatt á innheimtukostnað lögmanna. Hækkun dómsmálagjalda sem hér er boðuð gengur þvert á þá tillögu sem þá var lögð til. Ljóst er að gjaldtaka ríkisins, m.a. þessi dómsmálagjöld, er skuldurum afar þungbær og getur haft úrslitaáhrif á það hvort fólk getur unnið bug á fjárhagserfðileikum sínum. En til að forðast nauðungaruppboð þarf viðkomandi einstaklingur oft að greiða til ríkisins bæði í formi stimpil- og þinglýsingargjalda, réttargjalda og virðisaukaskatts tugi eða jafnvel hundruð þúsunda króna ofan á hinar eiginlegu skuldir og gjöld til lögmanna. Þannig er algengt að þóknun, kostnaður og álög á skuldir einstaklinga til ríkisins og innheimtuaðila geti þegar upp er staðið orðið mun hærri en höfuðstóll skuldarinnar. Slík innheimta verður oft til þess að brjóta niður einstakling sem þarf á öllu sínu að halda til að ráða fram úr erfiðleikunum.

Í þeirri tillögu sem við fluttum á síðasta þingi var sýnt fram á með ýmsum dæmum hvernig einmitt gjaldtaka ríkissjóðs og ýmis lögfræðikostnaður væri oft miklu hærri en höfuðstóllinn. Og nú, herra forseti, er fyrirhugað að hækka enn þessi gjöld með ákaflega skrýtnum rökstuðningi vægast sagt. Til þess er vitnað að rekstrarkostnaður héraðsdómstólanna hafi hækkað úr 281 millj. í 341 millj. kr. Hvað skyldi nú ríkissjóður hafa miklar tekjur vegna gjaldtöku og skattlagningar á skuldir einstaklinga? Það eru alveg gífurlegar fjárhæðir og vil ég rifja upp, herra forseti, að á 120. löggjafarþingi fékk ég svar frá hæstv. fjmrh. um gjaldtöku og skattlagningu á skuldir einstaklinga. Þar kom fram að stærsti liðurinn í því voru stimpilgjöld sem voru á árinu 1995 tæpir 2,3 milljarðar kr. og þó ekki sé verið að hækka þau hér, þá sýnist mér að í fjárlagafrv. sjálfu sé verið að hækka þetta um 130 millj. a.m.k. og spyr hæstv. ráðherra um hvort það sé ekki rétt að verið sé að hækka stimpilgjöldin í fjárlagafrv. um 130 millj.

Af þinglýsingargjaldtökunni árið 1995 hafði ríkið um 111 millj. í tekjur og það á að fara að hækka þinglýsingarnar um 17--18 millj. samkvæmt þessu yfirliti sem ég hef frá dómsmrn., þ.e. við sundurliðun á slíkum dómsmálagjöldum, þá eru þinglýsingarnar eða kostnaður vegna þeirra hækkaður um tæpar 18 millj. kr.

Gjald vegna beiðni um nauðungarsölu var 210 millj. á árinu 1995 og það á að hækka það núna samkvæmt þessu frv. um tæpar 25 millj. kr. Ég spyr hæstv. fjmrh.: Hefur hann enga matarholu að leita í nema þá verst stöddu í þjóðfélaginu? Þarf hann að hækka gjaldtöku á þeim sem eru í miklum vanskilum, jafnvel komnir svo tæpt fjárhagslega að vera með íbúðir sínar undir hamrinum? Þessari gjaldtöku mótmæli ég og sé ekki að rökstuðningur um hækkun á rekstri héraðsdómstólanna hafi neitt með þetta að segja enda hefur ríkið samkvæmt því svari sem ég vitnaði í um 2,7 milljarða í gjaldtöku og skattlagningu af skuldum einstaklinga og þá er ótalinn virðisaukaskattur af starfsemi lögmanna sem fjmrn. gat ekki svarað mér um hvað gæfi ríkissjóði mikið í tekjur.

Ég taldi, herra forseti, fulla ástæðu undir þessari umræðu að vekja athygli á þessu og kannski rétt af því að þetta tengist mikið erfiðleikum heimilanna, sem á að fara að íþyngja enn meira, að rifja upp hvaða áhrif þær aðgerðir hafa haft sem ríkisstjórnin fór í þegar hún hafnaði því að fara út í greiðsluaðlögum sem Framsfl. hélt hæst á lofti í síðustu kosningum og fór í staðinn þá leið að leggja fram frv. til laga um réttaraðstoð einstaklinga og frv. sem lýtur að fjmrn., þ.e. að breyta lögum um tekju- og eignarskatt í þá veru að undir ákveðnum kringumstæðum verði heimilt að fella niður tekju- og eignarskatt hjá einstaklingum sem ættu í verulegum erfiðleikum. Hverju hefur þetta nú skilað, herra forseti, sem átti að bjarga heimilunum sem voru í miklum fjárhagserfiðleikum? Hve margir hafa fengið fyrirgreiðslu samkvæmt lögum um réttaraðstoð við einstaklinga sem leita nauðasamninga? 47 einstaklingar hafa sótt um slíka aðstoð og 29 fengið. Það er nú allt og sumt. Og aðstoðin er um 250 þús. kr. sem hver og einn einstaklingur getur fengið vegna þessarar réttaraðstoðar. Því er haldið fram í mín eyru að þessi aðstoð dugi skammt og stór hluti hennar fari í að standa straum af kostnaði undirbúningsvinnu lögmanna sem aðstoða skuldara.

Þá er komið að lögunum um niðurfellingu á tekju- og eignarskatti sem voru samþykkt sl. vor. Eftir þeim upplýsingum sem ég hef hefur ekkert erindi uppfyllt skilyrði laganna en þar er kveðið á um að telji innheimtumaður að hagsmunum ríkissjóðs verði betur borgið með nauðasamningi gjaldanda við skuldheimtumenn skuli hann gefa fjmrh. skýrslu um málavöxtu. Fjmrh. er síðan heimilt að samþykkja nauðasamninga að fenginni umsögn Ríkisendurskoðunar og að uppfylltum nánari skilyrðum í lögunum. Það hefur enn enginn getað fengið aðstoð samkvæmt þessum lögum. Á það var einmitt bent þegar þetta mál var til umræðu að skilyrðin væru með þeim hætti að mjög fáir gætu nýtt sér þau þannig að eftir stendur að þau úrræði sem ríkisstjórnin hafði fyrir skuldugustu heimilin í landinu, skuldbreyting aldarinnar, eins og Framsfl. nefndi það í kosningabaráttunni, hefur nánast engu skilað fyrir þessi skuldugu heimili. Og enn á að bæta um betur í þessu frv. sem hér er til umræðu þegar hækka á dómsmálagjöldin um hundrað millj. kr. sem að stærstum hluta lendir á heimilunum sem eru í erfiðustu og verstu fjárhagsstöðunni.

Þetta er það sem hæstv. ríkisstjórn er að skila skuldurum landsins þ.e. að leggja fram frv. sem litlu eða engu hafa skilað þeim sem eru í vandræðum og síðan kemur frv. sem hækkar verulega dómsmálagjöldin og íþyngir þar með heimilunum og gerir þeim erfiðara fyrir að reyna að leysa úr sínum vandræðum og komast hjá nauðungarsölu. Þegar ég nefni að aðeins 29 manns hafi fengið aðstoð samkvæmt lögum um réttaraðstoð við einstaklinga, þá er hægt að bera saman tölur um hversu margir einstaklingar voru úrskurðaðir gjaldþrota. Á árinu 1995 voru tæplega 700 einstaklingar úrskurðaðir gjaldþrota og það er alveg ljóst, herra forseti, að sú leið sem hér er verið að fara þ.e. að hækka dómsmálagjöldin og gjaldtöku vegna nauðungarsölu, aðfarargerðar o.fl. hjálpar ekki þeim heimilum sem nú eru í þessari stöðu. Þess vegna mótmæli ég, herra forseti, því sem hér á að koma í gegn, þ.e. hækkun á dómsmálagjöldunum, og hvet til þess að þetta mál verði ítarlega skoðað í hv. efh.- og viðskn. sem fær það mál til umfjöllunar og bið um að leitað verði annarra leiða en níðast á þeim verst settu í þjóðfélaginu sem kannski standa frammi fyrir því þessa dagana og vikurnar að missa íbúðir sínar og heimili á uppboði.