Aukatekjur ríkissjóðs

Mánudaginn 08. desember 1997, kl. 15:24:07 (1813)

1997-12-08 15:24:07# 122. lþ. 37.5 fundur 304. mál: #A aukatekjur ríkissjóðs# (dómsmálagjöld o.fl.) frv., SJS
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur

[15:24]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég tók eftir því að óvenjulétt var yfir hæstv. fjmrh. þegar hann mælti fyrir frv. um hækkun á ýmsum aukatekjum ríkissjóðs, enda ekki lítill búhnykkur á ferðinni fyrir hæstv. fjmrh. þar sem er hækkun á þeim vinsælu skattstofnum sem ganga undir því sérstaka safnheiti aukatekjur ríkissjóðs, svona viðbótartekjur eða tekjuauki. Þetta eru eins og kunnugt er, herra forseti, ýmiss konar gjöld eða skattar sem oft hafa verið taldir liggja á gráu svæði mitt á milli þess að vera greiðslur fyrir útlagðan kostnað eða þjónustugjöld sem réttlætanleg væru sem slík vegna kostnaðar sem af því hljótist að skrá tiltekin réttindi eða gefa út leyfi eða hvað það nú er sem þar er á ferðinni, og hins vegar að vera hreinn og beinn tekjustofn eða fjáröflunargjald fyrir ríkissjóð. Þessir skattar hafa stundum, með leyfi, verið kallaðir skítaskattar og verið misvinsælir á undanförnum árum.

Það er eins og mig minni að Sjálfstfl. hafi stundum haft þá stefnu að það ætti eiginlega að slá þetta allt saman af, þessi frumskógur af alls konar aukatekjum og smásköttum væri heldur til óþurftar. En það vefst samt sem áður ekki fyrir hæstv. fjmrh. að koma hér tiltölulega brosmildur af einhverjum ástæðum og mæla fyrir hækkun á þessum gjöldum, þar á meðal á dómsmálagjöldunum sem hv. 13. þm. Reykv. Jóhanna Sigurðardóttir fór ágætlega yfir áðan.

En það var II. kafli þessa frv., herra forseti, sem ég ætlaði aðallega að gera að umtalsefni þar sem í 9. gr. frv. er verið að fjalla um hækkun á leyfi, starfsleyfi eða leyfi fyrir rekstur áfengisveitingastaða en þó fremur þær breytingar sem vísað er til í grg. frv. hvað þetta varðar. Það er með nokkuð sérkennilegum hætti, herra forseti, að mínu mati svo ekki sé meira sagt. En þar segir að um sé að ræða hækkun á leyfi fyrir áfengisveitingastaði, en þar hafa verið tekin gjöld allt frá bilinu 20 og upp í 100 þús. kr. eftir því til hve langs tíma leyfið er veitt. Síðan segir:

,,... og eru þær upphæðir að mati þeirra sem telja að herða þurfi skilyrði gagnvart leyfishöfum of lágar. Auk þess greiða áfengisveitingastaðir í Reykjavík sérstakt víneftirlitsgjald sem ætlað er að standa undir kostnaði við eftirlit. Nefnd um endurskoðun áfengislaga hefur lagt til að víneftirlit í núverandi mynd verði lagt niður og eftirlit með áfengisveitingum verði hluti af almennu starfi lögreglunnar. Með tilliti til þess að almennt er ekki farið fram á sérstaka gjaldtöku vegna starfa lögreglunnar þykir óeðlilegt að krefjast sérstaks víneftirlitsgjalds eins og verið hefur. Því er lagt til að leyfi til áfengisveitinga verði hækkað þannig að í leyfisgjaldinu felist einnig eftirlitsgjald sem standi straum af kostnaði lögreglunnar við þetta eftirlit.``

Þetta er alveg stórfurðulegur texti, herra forseti, svo ekki sé meira sagt. Í fyrsta lagi er þar til að taka að hér virðast vera á ferðinni tillögur nefndar sem ekki er nánar útskýrt í frv. hvar á vegi séu staddar. Hefur hæstv. ríkisstjórn ákveðið að gera þessar tillögur að sínum? Liggur fyrir niðurstaða um það í ríkisstjórninni? Að vísu boðaði hæstv. fjmrh. að frv. kynni að koma fram frá hæstv. dómsmrh.

Í öðru lagi er svo auðvitað það efnisatriði hvort menn telja skynsamlegt að leggja sérstakt eftirlit með starfrækslu áfengisveitingastaða niður. Er það niðurstaða hæstv. ríkisstjórnar að það sé framfaraskref hvað varðar áfengispólitík í landinu? Er hæstv. heilbrrh. dús við það, ef svo má að orði komast, herra forseti, að fara þannig að? Ég hélt að mat þeirra sem fylgst hafa með þeim málum væri frekar hitt að brýna nauðsyn bæri til að reyna að efla þetta eftirlit, sérstaklega eftir að breytingar voru gerðar á áfengislögum hvað varðar fyrirkomulag heildsöludreifingar með áfengi. Það er fullyrt af þeim sem til þekkja að mun erfiðara hafi orðið að fylgjast með því t.d. að ekki sé um smyglaðan varning að ræða í bland við löglegan á veitingastöðunum. Þannig var fullyrt í mín eyru að komið hefði í ljós við skattalegt eftirlit að einn af stærri vínveitingastöðum borgarinnar hefði selt eina flösku af vodka í júlímánuði sl. og það þótti furðanlega lítið af þeim miði miðað við önnur umsvif á staðnum. Það vakna að sjálfsögðu grunsemdir um að á ferðinni sé smyglað staðgengi vörunnar.

Eins og menn vita varð allt eftirlit mun torveldara með því að heildsöludreifingu á vegum Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins var hætt eða opnað almennt fyrir að heildsalar gætu dreift vörunni og merkingar á flöskum aflagðar í því sambandi. Það virðist þar af leiðandi nokkuð sérkennilegt að í framhaldinu skuli hæstv. ríkisstjórn komast að þeirri niðurstöðu að rétt sé að leggja eftirlitið niður og fela það lögreglunni sem ég hélt að hefði nú alveg nóg að starfa og ætti nóg með sig. En svo kemur eiginlega rúsínan í pylsuendanum hvað röksemdafærsluna snertir, herra forseti, og ég held að ég verði að lesa þetta aftur, með leyfi forseta:

[15:30]

,,Með tilliti til þess að almennt er ekki farið fram á sérstaka gjaldtöku vegna starfa lögreglunnar þykir óeðlilegt að krefjast sérstaks víneftirlitsgjalds eins og verið hefur.``

Já, það á sem sagt ekki að halda aðgreindum þessum störfum lögreglunnar, að afla tekna til þeirra sérstaklega. Það er ekki hægt að lesa þennan texta öðruvísi en þannig að lögreglan eigi bara að fá almennar fjárveitingar til að sinna sínum störfum. En hvað er þá verið að fara í næstu setningu? Þar stendur:

,,Því er lagt til að leyfi til áfengisveitinga verði hækkað þannig að í leyfisgjaldinu felist einnig eftirlitsgjald sem standi straum af kostnaði lögreglunnar við þetta eftirlit.``

Þarna er fullyrt alveg hið gagnstæða. Ég held að Ragnar Reykás, sú merka persóna sem oft er vitnað til, yrði hreykinn af þessum texta. Hann hefði ekki getað gert þetta betur, að taka eina setningu og snúa merkingu hennar algjörlega við í næstu setningu og segja að hækkunin á leyfisgjaldinu eigi einmitt að vera að hluta til tekjustofn fyrir ríkið til að standa straum af auknum útgjöldum lögreglunnar í þessi efni. Er þetta nýr sérmerktur tekjustofn? Er ekki þarna verið að viðurkenna, herra forseti, að gjaldtakan í þessu sambandi sé þá ekki þjónustugjald, að þetta sé ekki greiðsla á raunverulegum útlögðum kostnaði vegna útgáfu vínveitingaleyfisins heldur í raun og veru tekjustofn fyrir ríkið og þá er þetta auðvitað ekkert annað en skattur og þá erum við komin á fulla ferð inn á þetta gráa svæði þar sem mörkin milli þjónustugjalda eða endurgreiðslu á útlögðum kostnaði annars vegar og skattstofns eða fjáröflunargjalda fyrir ríkissjóð hins vegar eru orðin mjög óljós.

Ég tel sem sagt, herra forseti, þarna vera á mjög sérkennilegan og reyndar á gagnrýnisverðan hátt fjallað um þessa hluti. Í fyrsta lagi hefði ég að sjálfsögðu talið eðlilegt að frv. hæstv. dómsmrh. væri þá á undan, kæmi fram og um það yrði fjallað og það kæmi í ljós hvort vilji væri fyrir því á Alþingi að gera þá breytingu að fella niður sérstakt eftirlit með rekstri vínveitingastaða og þá kæmi væntanlega í ljóst hvort, sem ég út af fyrir sig dreg ekki í efa, þetta væri hluti af nýrri stefnu hæstv. ríkisstjórnar í þessum málum sem hæstv. heilbrrh. væri aðili að. Í kjölfarið hefði verið eðlilegt að gera þá breytingu sem hæstv. fjmrh. er hér að leggja til. Mér finnst þetta bera að þinginu í algjörlega öfugri röð fyrir nú utan að röksemdafærslan er hér alveg stórbrotin svo ekki sé meira sagt og mótsagnakennd mjög.

Að síðustu, herra forseti, er nokkuð skondið atriði í 11. gr. frv. Þar er settur inn nýr kafli til að heimila að reyta svona pínulítið, svolitla aura, af þeim sem eru að sækja til ráðuneytanna um að fá staðfestar sínar skipulagsskrár og/eða lífeyrissjóðum sem birta sínar reglugerðir. Það þarf náttúrlega að passa að hægt sé að ná af þeim þannig að það er skotið inn heilli nýrri lagagrein, gott ef ekki bara kafla, nýjum XI. kafla sem á að heita Gjöld fyrir staðfestingu skipulagsskráa og birtingu reglugerða lífeyrissjóða. Og það á að kosta heilar 5.000 kr. að fá þetta staðfest. En það sem er enn þá skrautlegra er að síðan segir:

,,Þeir sem fara fram á staðfestingu dómsmálaráðuneytisins á skipulagsskrá skulu endurgreiða ráðuneytinu kostnað við birtingu skipulagsskráar í B-deild Stjórnartíðinda.``

Það er ekkert annað. Það á sem sagt að fara að velta kostnaðinum af útgáfu Stjórnartíðindanna yfir á einstaka aðila sem fá sitt efni birt þar. Þetta er alveg stórbrotið nýmæli hjá hæstv. fjmrh. og ég óska honum alveg sérstaklega til hamingju með hugkvæmnina á þessu sviði að vera að fara út á þá braut að koma kostnaðinum af útgáfu Stjórnartíðindanna yfir á einstaka aðila sem verða fyrir því að þeirra efni er þar birt eins og lög gera ráð fyrir. (Gripið fram í.) Þetta hlýtur að enda þannig að smátt og smátt komi hæstv. fjmrh. öllum kostnaðinum af Stjórnartíðindunum yfir á aðra. Ég sé ekki annað.

Ég spyr nú samt sem áður: Er ekki ástæða til að ætla að þetta verki heldur hamlandi á það sem er auðvitað hið mesta þjóðþrifamál að aðilar af þessu tagi komi því í verk eða þeir geri gangskör að því að fá staðfestar sínar skipulagsskrá? Það geta verið áhöld um það hvort þeim er það beinlínis skylt eða ekki og jafnvel þó svo sé að þeir eigi samkvæmt laganna bókstaf að afla staðfestingar á sinni skipulagsskrá, þá er ekki endilega víst að allir hafi komið því í verk. Og ég er ekki viss um að það sé til bóta í réttarfarslegu eða stjórnsýslulegu tilliti að vera með gjaldtöku eða ákvæði af þessu tagi sem gætu verkað þarna hamlandi fyrir utan að mér finnst nú smámunasemin vera orðin dálítið mikil í þessum efnum ef það á að fara að rukka menn fyrir það að efni af þessu tagi birtist í Stjórnartíðindunum, fyrir prentkostnaðinum eða hvað það er nú er.

Ég segi nú bara að lokum, herra forseti, að litlu verður Vöggur feginn. Og hvað kemur næst hjá hæstv. fjmrh. í þessum efnum? Fer hann ekki að rukka gestina í fjmrn. fyrir kaffi ef þeir skyldu fá það? (Fjmrh.: Góð hugmynd.)