Aukatekjur ríkissjóðs

Mánudaginn 08. desember 1997, kl. 15:59:10 (1819)

1997-12-08 15:59:10# 122. lþ. 37.5 fundur 304. mál: #A aukatekjur ríkissjóðs# (dómsmálagjöld o.fl.) frv., JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur

[15:59]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og fagna því að hann telji kannski ástæðu til þess að fjmrn. og Ríkisendurskoðun setjist yfir þessi nýsettu lög frá því í vor og finni þá leiðir og úrræði sem gagnast betur en raun ber vitni að þau geri.

Ég fagna því líka að hæstv. ráðherra útilokar ekki að skoða það --- að vísu sagði hann: ,,án allra skuldbindinga`` --- að fella brott úr dómsmálagjöldunum og hækkun á þeim það sem snýr sérstaklega að skuldugum heimilum í landinu og hvet nefndarmenn í efh.- og viðskn. til þess að skoða það sérstaklega og veita athygli þessari yfirlýsingu hæstv. ráðherra að hann útiloki ekki að skoða það sérstaklega að fella niður þá gjaldtöku í dómsmálagjöldunum sem snýr sérstaklega að skuldugum heimilum.

[16:00]

Ég held að það væri mjög til bóta og til þess fallið að ná frekari sátt um frv. ef hæstv. ráðherra væri tilbúinn að skoða það sérstaklega í samráði við nefndina að fella þessa þætti brott enda hefur ríkið þegar verulegar tekjur af aðfarargjöldum og gjöldum vegna nauðungarsölu eða um 400--500 milljónir. Ég fullyrði og ráðherrann verður þá að svara, ef hann mótmælir því, að þessar 400--500 milljónir er langt umfram þann kostnað sem er af nauðungarsölum og aðfarargerðum.

Af því hæstv. ráðherra nefndi árið 1991, þegar sú sem hér stendur átti sæti í ríkisstjórn, þá var vissulega fjallað um hækkun á dómsmálagjöldum. Ég vona að hæstv. ráðherra muni að ég mótmælti því mjög harðlega þegar fara átti út í hækkun á dómsmálagjöldum. Ég gerði sérstaka grein fyrir því og kom með tillögur á móti í staðinn fyrir að fara þá leið að hækka gjaldtöku á skuldugum heimilum í landinu. Ég vildi halda þessu til haga fyrst hæstv. ráðherra sá ástæðu til þess að nefna þetta sérstaklega.