Lífeyrissjóður bænda

Mánudaginn 08. desember 1997, kl. 16:01:36 (1820)

1997-12-08 16:01:36# 122. lþ. 37.6 fundur 327. mál: #A lífeyrissjóður bænda# (iðgjaldastofn og innheimta) frv., fjmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur

[16:01]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lögum nr. 50/1984, um Lífeyrissjóð bænda, með síðari breytingum.

Lagðar eru til nokkrar breytingar á þessum lögum en þetta frv. er að finna á þskj. 413 og er 327. mál þingsins.

Lagafrumvarpið er samið að tilhlutan stjórnar Lífeyrissjóðs bænda í þeim tilgangi að breyta iðgjaldastofni sjóðsins og innheimtuformi. Enn fremur er tekið á örfáum atriðum í núgildandi lögum sjóðsins sem nauðsynlegt þykir að breyta.

Á seinni árum hefur orðið ljóst að iðgjaldastofn sjóðsins, þ.e. verð til framleiðenda búvöru, hefur smátt og smátt orðið óraunhæfur þar sem launaliðir hinna ýmsu framleiðslugreina eru misjafnir. Réttara þykir því að miða stofninn við greidd eða reiknuð laun í landbúnaði.

Lög um búnaðargjald, nr. 84/1997, taka eiga gildi 1. jan. nk. Samkvæmt þeim lögum flyst innheimta allra gjalda sem Framleiðsluráð landbúnaðarins hefur innheimt af bændum til innheimtumanna. Framleiðsluráð hefur séð um innheimtu iðgjalda fyrir Lífeyrissjóð bænda samhliða eigin innheimtu, en hefur nú sagt upp innheimtusamningi við sjóðinn og er það bein afleiðing af setningu laganna um búnaðargjald.

Í kjölfar uppsagnarinnar varð ljóst að huga þyrfti að öðrum innheimtuleiðum þar sem áframhaldandi innheimta samkvæmt gildandi lögum yrði illframkvæmanleg fyrir Lífeyrissjóð bænda.

Í frv. er því lagt til að iðgjaldi verði annars vegar haldið eftir af beingreiðslum og hins vegar innheimt samhliða innheimtu búnaðargjalds. Gert er ráð fyrir að iðgjaldið sem þannig innheimtist verði skilað til sjóðsins eigi síðar en 30 dögum frá því að það er greitt. Gert er ráð fyrir að meginhluti iðgjaldanna verði innheimtur hjá Ríkisbókhaldi með afdrætti af beingreiðslum til mjólkur- og sauðfjárframleiðenda en innheimta iðgjalds af öðrum bændum fari fram hjá innheimtumönnum ríkissjóðs ásamt búnaðargjaldi. Þrátt fyrir þessa tilhögun verður Lífeyrissjóður bænda eigandi kröfunnar og mun því þurfa að innheimta þau iðgjöld sem lenda í vanskilum eftir því sem við á. Ákvæðið felur því ekki í sér skattlagningu í þágu Lífeyrissjóðs bænda.

Í 1. gr. frv. er fjallað um hvenær bændur og makar þeirra eiga aðild að sjóðnum. Lagt er til að sjóðsaðild taki til bænda sem reka bú sem einkahlutafélög eða í öðru lögformlegu búrekstrarformi og er þar um rýmkun að ræða. Þá er lögð til ný skilgreining á því við hvaða búrekstur sjóðsaðild að Lífeyrissjóði bænda skuli miðuð. Er þar stuðst við atvinnugreinanúmer Hagstofunnar og er það sama skilgreiningin og í lögum um búnaðargjald. En þessir flokkar eru taldir upp á bls. 4 í frv.

Í 2. gr. eru lagðar til minni háttar breytingar á ákvæðum er snerta ávöxtun með einum eða öðrum hætti þar sem þau ákvæði þykja úrelt.

Í 3. gr. er fjallað um iðgjaldsstofninn og iðgjaldið og þar er lagt til að breyta ákvæðum er fjalla um iðgjöld og framlög vegna búvöruframleiðslu og innheimtu þeirra en jafnframt er röð málsgreina breytt í því skyni að gera greinina skýrari.

Ég hef fjallað hér um nýjan iðgjaldsstofn og nýjar innheimtuaðferðir og er því ekki ástæða til að fjölyrða frekar um það. Um greiðslu mótframlags er það að segja að framlag hefur verið á fjárlögum undanfarin ár vegna mótframlags til Lífeyrissjóðs bænda vegna bændaiðgjalda. Verði frv. að lögum verður framlag úr ríkissjóði eftir sem áður ákvarðað á fjárlögum og munu ákvæði frv. því ekki leiða til aukinna útgjalda fyrir ríkissjóð. Það er hins vegar ljóst að gera verður frekari breytingar á lögum um Lífeyrissjóð bænda á næstu árum og þá verða menn að svara spurningum, sem eru kannski aðrar en þær sem hér er verið að fjalla um, eins og hvort eðlilegt sé að ríkið greiði bæði atvinnurekendaframlagið og launþegaframlagið til þessa sjóðs í greinum sem ríkið hefur í raun enga samningsaðild að. Það er alveg ljóst að ríkið er með samningsaðild annars vegar við sauðfjárbændur og hins vegar við mjólkurbændur og þess vegna þarf að taka tillit til þess í þeim samningum en það háttar þannig til í öðrum greinum að þar er sams konar samband á milli launþegans og atvinnurekandans, eins og er í mörgum öðrum greinum, og í raun er mjög óljóst hvar jaðarinn er á milli landbúnaðar og annarra atvinnugreina. En um þessi atriði er ekki fjallað í frv., það verður að bíða betri tíma.

Ég vil að lokum, virðulegi forseti, segja frá því að eftir að frv. var lagt fram á hinu háa Alþingi barst mér bréf frá stjórn Lífeyrissjóðs bænda þar sem bent var á að það þyrfti kannski að orða betur en gert er í frv. hluta af einni greininni. Ég vil að það komi fram við framsögu í málinu að það bréf hefur borist ráðuneytinu en því miður það seint að ekki var hægt að taka það inn í frv. en ég vænti þess að hv. nefnd taki við bréfinu og fjalli um það eins og um ósk ráðuneytisins væri að ræða um breytingar á þessu frv. Þetta mál fjallar um skilgreiningar sjóðfélaga og undanþágu frá skilyrðislausri aðild maka, sem var í fullu starfi, en ég hygg að það sé ekki neinum til gagns að fara frekar ofan í það mál. Það er mál sem er nánast tæknilegs eðlis en getur þó haft efnisleg áhrif og ástæða er til þess að minna hv. nefndarmenn á að þetta bréf mun verða sent til nefndarinnar til frekari meðferðar.

Ég leyfi mér síðan, virðulegi forseti, í lok máls míns að leggja til að frv. verði vísað til 2. umr. og til hv. efh.- og viðskn.