Tekjuskattur og eignarskattur

Mánudaginn 08. desember 1997, kl. 16:08:54 (1821)

1997-12-08 16:08:54# 122. lþ. 37.7 fundur 328. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (lífeyrisiðgjöld o.fl.) frv., fjmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur

[16:08]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson):

Virðulegi forseti. Í frv. því sem ég mæli hér fyrir, sem er ekki langt, eru nokkur efnisatriði. Þetta er frv. til laga um breyting á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum. Þetta er 328. mál þingsins og er að finna á þskj. 414.

Í fyrsta lagi eru í frv. lagðar til breytingar sem snerta breytingar sem gerðar voru um síðustu áramót á viðmiðunargrundvelli verðleiðréttinga í skattskilum. Ekki er um efnisbreytingu að ræða, heldur er framsetningu breytt til þess að skýra núverandi lagatexta. Hagstofan er með tvær neysluvöruvísitölur og kann það að valda ruglingi þegar vísitala neysluverðs er nefnd án þess að hún sé aðgreind frá hinni sem er verðvísitala neysluvöruverðs vegna lánavísitölunnar.

Í öðru lagi eru ákvæði í þessu frv. sem rýmka heimildir einstaklinga til skattfrádráttar vegna lífeyrisiðgjalda. Um er að ræða viðbótarfrádrátt allt að 2% af heildarlaunum. Breyting þessi er í samræmi við niðurstöðu sem varð í framhaldi af starfi nefndar er samdi frv. til laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða en í því frv. er gert ráð fyrir að heimildir til skattfrádráttar vegna lífeyrisréttinda verði rýmkaðar. Hér er um það að ræða að launþeginn geti ekki einungis dregið frá 4% af launum, eins og hann getur nú, frá skatti heldur sé honum heimilt að bæta við 2% og því er síðan lýst í löggjöfinni hvernig nýta megi þennan rétt. Ég vil taka það fram, virðulegi forseti, að sú breyting, sem mun eiga sér stað verði þetta frv. samþykkt, um önnur áramót, átti sinn þátt í að leysa þann hnút sem kominn var í viðræður milli nokkurra aðila um lífeyrismálin.

Í þriðja lagi eru í þessu frv. smávægilegar leiðréttingar á barnabótaákvæði laganna. Þar er ekki heldur um efnislegar breytingar að ræða fremur en er snertir viðmiðunargrundvöllinn nema bætt er við ákvæði um heimild til þess að draga frá barnabótum hérlendis ofgreiddar barnabætur sem viðkomandi hefur fengið erlendis. Þetta er í samræmi við samstarf landa um þessi mál og sett inn í lögin þess vegna.

Í fjórða lagi er lagt til að tekin verði af öll tvímæli í lögunum um að einstaklingum með takmarkaða skattskyldu skv. 3. gr. laganna beri að greiða 20% í söluhagnað samkvæmt meginreglunni í 2. tölul. 1. mgr. 71. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt. Hér er um að ræða að setja sömu reglu fyrir fjármagnstekjuskattinn og gildir um tekjuskatt og eignarskatt.

Virðulegi forseti. Ég tel ekki ástæðu til þess að fara fleiri orðum um þetta frv. en legg til að það verði afgreitt til 2. umr. og til hv. efh.- og viðskn.