Tekjuskattur og eignarskattur

Mánudaginn 08. desember 1997, kl. 16:12:46 (1822)

1997-12-08 16:12:46# 122. lþ. 37.7 fundur 328. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (lífeyrisiðgjöld o.fl.) frv., ÁE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur

[16:12]

Ágúst Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. fjmrh. gerði grein fyrir frv. Þetta eru fjögur atriði, þrjú minni háttar sem eru tæknilegs eðlis, ef má orða það svo, en eitt er veigamikið efnisatriði, þ.e. um 2% viðbótarfrádrátt af heildarlaunum. Þetta var aðferðin sem var notuð til að líma saman hina frægu lífeyrissjóðsnefnd hæstv. ráðherra í sumar og kemur náttúrlega fyrst og fremst þeim til góða sem hafa umframfjármagn í landinu og geta þá lagt fyrir meira til sparnaðar og fengið það frádráttarbært frá skatti. Spurning mín er hins vegar, herra forseti, hvað þýðir þetta mikið tekjutap fyrir ríkissjóð? Hvaða áætlanir liggja þar að baki? Það kemur fram í umsögn fjmrn. að þetta hafi ekki áhrif. Það er augljóslega rangt vegna þess að hér er tekjuskattsstofn lækkaður. En ég vildi gjarnan heyra frá hæstv. ráðherra hve tekjutapið er raunverulega mikið og ég ætla þá að bera það saman við þær upplýsingar sem ég hef um málið.