Tekjuskattur og eignarskattur

Mánudaginn 08. desember 1997, kl. 16:16:16 (1824)

1997-12-08 16:16:16# 122. lþ. 37.7 fundur 328. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (lífeyrisiðgjöld o.fl.) frv., ÁE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur

[16:16]

Ágúst Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. ráðherra nefndi hér tölu, 1.200 millj. sem væri tekjutap ríkissjóðs, þ.e. frestun. Nú er launasumman í landinu um 300 milljarðar. Þetta er allt hægt að reikna út með margvíslegum hætti. Sjálfur hef ég verið með töluna 1,5 milljarða eða 1,6 milljarða, það skiptir ekki öllu máli. Alla vega er meginatriðið í þessu að hér er um að ræða nokkuð háa upphæð sem ríkissjóður verður af um nokkuð langan tíma. Þetta var greinilega sett upp þannig til að friða þá aðila í umhverfi hæstv. fjmrh. sem knúðu mest á breytingar í lífeyrissjóðaumhverfinu. Þetta var gulrótin sem dugði til að fá þá til að fallast á málamiðlunartillögur í lífeyrissjóðanefndinni. Það eru reyndar skiptar skoðanir um það hvort þessi aðgerð út af fyrir sig muni örva sparnað eða ekki. Þegar þetta kemur til tekjuskattsgreiðslna síðar hjá aðilum, þá hafa náttúrlega myndast ákveðnar vaxtatekjur á þeim þætti. Það er þó alla vega ljóst og ber að hafa skýrt í huga að ríkissjóður er að leggja til þeirra sem betur mega sín í þessu þjóðfélagi 1,2--1,8 milljarða. Það eru gjafir fjmrh. með þessu frv. og þarf að láta koma skýrt fram að til eru fjármunir þegar svo ber undir.