Tekjuskattur og eignarskattur

Mánudaginn 08. desember 1997, kl. 16:39:06 (1831)

1997-12-08 16:39:06# 122. lþ. 37.7 fundur 328. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (lífeyrisiðgjöld o.fl.) frv., SvG
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur

[16:39]

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ég verð að taka undir það með hv. 17. þm. Reykv. að auðvitað eru býsna mikil tíðindi uppi. Það kemur fram að það á ekki að standa við ekki bara gefin almenn fyrirheit ríkisstjórnarinnar heldur lögfest, lögfest fyrirheit um tilteknar skattalækkanir frá og með áramótum 1998. Enginn maður hefur hælt sér eins af málinu og hæstv. forsrh. Aftur og aftur hefur hann haldið ræður um að ríkisstjórnin væri heldur betur að feta sig út úr skattaáþjáninni með því að lækka skatta stig af stigi. Síðan gerist það korteri fyrir áramót eða svo að það berst út kvittur um að ríkisstjórnin sé að velta því fyrir sér að hætta við að lækka skattana eins og fyrirheit voru gefin um. Á hvaða forsendum, herra forseti? Á þeim forsendum að sveitarfélögin vilji ekki standa við loforð ríkisstjórnarinnar. Sveitarfélögin höfðu aldrei verið aðilar að þessu loforði. Sveitarfélögin höfðu aldrei gefið loforðin. Sveitarfélögin í landinu mótmæltu strax túlkun ríkisstjórnarinnar og einhliða fyrirheitum hennar í þágu og fyrir hönd sveitarfélaganna. Það hefur því legið fyrir allan tímann að sveitarfélögin mundu aldrei taka þátt í málinu með þeim hætti sem ríkisstjórnin ætlaðist til. Það hefur legið fyrir allan tímann og það er ekkert nýtt í því. Ríkisstjórnin getur ekki afsakað sig með því að nú sé að koma upp einhver ný mál gagnvart sveitarfélögunum í þessu sambandi. Það hefur legið fyrir mjög lengi að þau mundu ekki taka þátt í þessum leiðangri.

Ríkisstjórnin mun hafa haldið fund með sveitarfélögunum í morgun til að fjalla um ýmis samskiptamál þessara aðila, m.a. um húsaleigubætur trúi ég. Eða hvað? Það er mál sem liggur hér fyrir þinginu þar sem um er að ræða bullandi ágreining milli ríkisstjórnarinnar og sveitarfélaganna. Þar er ríkisstjórnin líka að gefa loforð fyrir hönd sveitarfélaganna í landinu. Nákvæmlega sama sagan er að endurtaka sig eins og gerst hefur í desembermánuði undanfarin ár að ríkisstjórnin gefur loforð fyrir hönd sveitarfélaganna og efnir til átaka við þau á síðustu vikum, mánuðum ársins og dögum ársins eins og gerðist á síðasta kjörtímabili þegar lögguskatturinn var lagður á og allt það fylgdi sem menn þekkja. Hér er nákvæmlega það sama upp á teningnum. Hér er um það að ræða að ríkisstjórnin stendur í átökum við sveitarfélögin og nú er staðan þannig að ríkisstjórnin ætlar að nota sér þau átök til að hætta við þá skattalækkun sem hún lofaði í kjarasamningunum á sl. vetri. Er ríkisstjórnin kannski með þessum yfirlýsingum sínum að segja að kauphækkanirnar fyrr á árinu hafi verið of miklar? Er hæstv. ríkisstjórn kannski að segja við verkalýðshreyfinguna að samningarnir um kaup og kjör, jafnvel fram á næstu öld, hafi falið í sér allt of miklar kauphækkanir? Er ríkisstjórnin með þessu að segja að þær kauphækkanir sem um hefur verið samið að undanförnu þar sem er um að ræða oft á tíðum tugi prósentna margfaldar hækkanir á við það sem samið var um á almennum vinnumarkaði? Er ríkisstjórnin að segja að þrátt fyrir þennan mun, þrátt fyrir þann veruleika sem síðan hefur komið fram þá þurfi enn þá að vega í þann knérunn að skerða kjör þess fólks sem var verið að semja við fyrr á árinu? Hvað er svo hæstv. ríkisstjórn að segja við sveitarfélögin núna rétt fyrir sveitarstjórnarkosningar? Hvað er hún að segja? Hvað er hún að segja þó það liggi fyrir í yfirlýsingum, m.a. í lögum, að það eigi að hafa samráð við sveitarfélögin? Hvað er hún að segja gagnvart alþjóðlegum samningum sem gerðir hafa verið um sjálfstæði sveitarfélaganna? Dettur henni í hug að hún komist upp með það áfram að gefa yfirlýsingar fyrir hönd sveitarfélaganna um að skerða tekjur þeirra, stöðu þeirra um hálfan milljarð kr. án þess að spyrja um hlutina?

Það er alveg augljóst mál, herra forseti, að hér er komið að verulegum tíðindum og ég tek undir það sem hv. 17. þm. Reykv. sagði að málið snýst ekki um það hvort menn lækka skatta eða hækka þá. Málið snýst um að menn standi við orð sín og það sé þannig umhverfi í þjóðfélaginu að verkalýðshreyfingin í landinu geti treyst því að ríkisstjórnin leggi allt kapp á að tryggja að samningar séu framkvæmdir eins og gert var ráð fyrir og að forsendur kjarasamninga haldist.

Hæstv. fjmrh. kom áðan í svari við ræðu minni og hv. þm. Ögmundar Jónassonar og sagði: ,,Hnika til.`` Það á að hnika til hlutunum. Veruleikinn er sá, herra forseti, að annaðhvort standa menn við forsendur kjarasamninga hundrað prósent eða ekki. Það er ekkert til níutíu og fimm prósent eða níutíu og sex eða sjö í þeim efnum. Annaðhvort standa menn við hlutina eða ekki. Ef á að breyta þeim þá á að semja sig út úr þeim en ekki að gera það með einhliða ákvörðunum eða árásum af hálfu stjórnvalda. Þess vegna er hér algjörlega ólíðandi hlutur á ferðinni og það er ástæða til að mótmæla honum mjög harðlega. Það höfum við þegar gert og við munum halda því áfram þangað til niðurstaðan í þessum málum liggur fyrir.