Tekjuskattur og eignarskattur

Mánudaginn 08. desember 1997, kl. 16:45:02 (1832)

1997-12-08 16:45:02# 122. lþ. 37.7 fundur 328. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (lífeyrisiðgjöld o.fl.) frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur

[16:45]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil mótmæla því hér að leggja að jöfnu svokallaðan ,,lögguskatt`` og þær hugmyndir og áform um að sveitarstjórnirnar leggi til í skattalækkun eða með ámóta hætti fjármuni til þess að auka kaupmátt heimilanna í landinu. Það er ekki svo í þessu máli að ríkið sé að taka til sín fjármuni frá sveitarstjórnunum. Það stóð mjög nákvæmlega í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar að hugmyndin væri að sveitarstjórnirnar legðu fram í púkkið, það var niðurstaðan, og ég veit ekki betur en að fulltrúar Alþýðusambands Íslands hafi talið mjög eðlilegt að það gerðist. Það er ekki heldur ríkisvaldið sem hefur haldið því fram að kjarasamningar hafi farið úr böndum, kjarasamningar á milli ríkisins annars vegar og starfsmanna þess eða kjarasamningar á milli aðila á vinnumarkaðinum. Hins vegar hafa sveitarstjórnirnar kvartað undan því að samningurinn við kennarana væri allt of dýr og hafa notað það m.a. sem ástæðu fyrir því að fara gegn þeim hugmyndum sem hér eru til umræðu. Það sem skiptir öllu máli, hver sem niðurstaðan verður og hún kemur nú alveg um þetta leyti, er að það er einungis verið að færa til innan samningstímabilsins og ef um tilfærslu verður að ræða þá verður hún um eins árs skeið um þau 0,4% sem við teljum að sveitarstjórnirnar eigi að leggja fram til þess að hægt sé að standa við þau áform sem lögð voru fram í upphafi kjarasamninganna, og mjög skýrlega var lýst yfir að sveitarstjórnirnar ættu að leggja fram samkvæmt þeim hugmyndum sem þá voru ræddar á milli aðila ríkisvaldsins annars vegar og forystuaðila Alþýðusambands Íslands hins vegar.