Tekjuskattur og eignarskattur

Mánudaginn 08. desember 1997, kl. 16:49:11 (1834)

1997-12-08 16:49:11# 122. lþ. 37.7 fundur 328. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (lífeyrisiðgjöld o.fl.) frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur

[16:49]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Að sjálfsögðu var talað við sveitarstjórnarmenn um það leyti sem viðræður áttu sér stað á milli ríkisstjórnarinnar og forustumanna ASÍ. Ég tók sjálfur þátt í því. Það er hins vegar alveg rétt að forustumenn sveitarfélaganna lýstu því yfir að þeir væru einungis tilbúnir til að tala um þetta atriði í tengslum við önnur fjárhagssamskiptamál ríkis og sveitarfélaga. Að því leytinu til er það rétt sem hv. þm. segir. Ríkisstjórnin og sveitarfélögin standa nú í viðræðum sem er að ljúka um þetta leyti. Á undanförnum árum hefur niðurstaðan alltaf verið samningur þannig að ríkisstjórnir sem ég hef setið í hafa ávallt gert samninga við sveitarfélögin þannig að það er ekki hægt að halda öðru fram. Svo botnaði hv. þm. ræðu sína með því að lýsa því yfir að ekki væri hægt fyrir launþega að treysta ríkisstjórninni. Það væri ekki hægt að semja við ríkisstjórnina um eitt eða neitt og menn ættu að gjalda varhug við því. Þetta leyfir hv. þm. sér að segja eftir að hafa setið í ríkisstjórn á sínum tíma sem með bráðabirgðalögum, á einni sumarnóttu, tók alla samninga úr sambandi. Heldur hv. þm. að þjóðin sé búin að gleyma þessu?