Tekjuskattur og eignarskattur

Mánudaginn 08. desember 1997, kl. 16:50:43 (1835)

1997-12-08 16:50:43# 122. lþ. 37.7 fundur 328. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (lífeyrisiðgjöld o.fl.) frv., SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur

[16:50]

Svavar Gestsson (andsvar):

Herra forseti. Það er athyglisvert, út af síðustu orðum hæstv. fjmrh., að velta því fyrir sér hvort það er virkilega þannig að núv. hæstv. fjmrh. sé að óska eftir verðbólgu og hann sakni þess að verðbólgan var kveðin í kútinn. Er hann að gagnrýna ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar fyrir það að hún náði samkomulagi um það við launþegasamtökin í landinu, verkalýðssamtökin í landinu, að kveða niður verðbólguna? Eina árásarefni hæstv. fjmrh. á þá ríkisstjórn aftur og aftur úr þessum stól er einmitt þetta, að sú ríkisstjórn tók þá ákvörðun, sem var auðvitað óvinsæl á sínum tíma, að gera allt sem hægt var til þess að ná verðbólgunni niður. Veruleikinn er líka sá, herra forseti, að á bak við þá ákvörðun ríkisstjórnarinnar stóðu ekki aðeins flokkar hennar heldur einnig verulegur hluti samtaka launafólks í landinu. Það er veruleiki sem hæstv. fjmrh. má ekki gleyma þó svo að hann vilji það. Hann vill þyrla upp moldviðri í kringum þann veruleika að hann er að ganga á bak við lögfest fyrirheit gagnvart samtökum launafólks í landinu. Veruleikinn er auðvitað líka sá að það er ekki bara á þessu sviði sem ríkisstjórnin stendur í bullandi stríði við sveitarfélögin. Það á líka við um húsaleigubæturnar þar sem ríkisstjórnin hefur ekki komið hlutunum í þann farveg að telja megi eðlilegan. Veruleikinn er með öðrum orðum sá að þessi mál eru í uppnámi og það er þar af leiðandi rétt, sem ég sagði áðan, að reynslan sýnir nú þegar að það er ekki hægt fyrir samtök launafólks í þessu landi að gera samninga mörg ár fram í tímann við ríkisstjórnina sem nú situr af því henni er ekki treystandi. Það kemur strax í ljós í dag þó hæstv. fjmrh. kalli þetta ,,að hnika til`` sem sumir kalla öðrum nöfnum.