Tekjuskattur og eignarskattur

Mánudaginn 08. desember 1997, kl. 17:16:46 (1842)

1997-12-08 17:16:46# 122. lþ. 37.7 fundur 328. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (lífeyrisiðgjöld o.fl.) frv., ÁE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur

[17:16]

Ágúst Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Meginatriðið í þessu er að hæstv. fjmrh. getur ekki látið það koma niður á launafólki í landinu að hann nái ekki samningum við sveitarfélögin um fjármögnun á 0,4% sem var ósk ríkisstjórnarinnar. Það var ekki samningur milli sveitarfélaganna og ríkisstjórnarinnar heldur einhliða ákvörðun ríkisstjórnarinnar að láta sveitarfélögin taka þátt í þessu. Ég skil ósköp vel að sveitarfélögin eru ekki sátt við það, þau eru á móti og ekki hafa náðst samningar. En að láta það koma fram gagnvart launafólki í landinu, herra forseti, það gengur ekki. Hæstv. fjmrh. má taka allan þann tíma sem hann telur sig þurfa í að semja við sveitarfélögin í landinu og reyna að ná út úr þeim þessum 500 millj. eða bara standa við yfirlýsingar sínar. En hann getur ekki, herra forseti, látið þetta koma fram með því að skerða skattalækkunina sem á að koma til framkvæmda eftir nokkra daga. Það er það sem málið sýst um. Það er ólíðandi framkoma af hálfu ríkisvaldsins og alveg sama hver hefði verið í ríkisstjórn. Svona hluti er ekki hægt að gera. Hæstv. fjmrh. verður að klára samninga sína og hann hefur til þess tíma og hann getur hafa lækkað upphæðina árinu seinna ef það er málið eða fundið einhverja aðra útfærslu. Aðalmálið er: Ríkisvald, ríkisstjórn Íslands, þó að ég styðji hana ekki, er aðili að kjarasamningum sl. vor og henni ber að standa við öll þau loforð sem hún gaf því að þau voru gefin af meiri hluta á Alþingi. Það verður að virða þann vilja sem kom fram á Alþingi varðandi þessar skattalækkanir og allar forsendur sem lágu til grundvallar. Annað er ekki hægt. Þó að ég sé andstæðingur ríkisstjórnarinnar þá ber henni að standa við þá samninga sem hún hefur gert.