Tekjuskattur og eignarskattur

Mánudaginn 08. desember 1997, kl. 17:22:39 (1845)

1997-12-08 17:22:39# 122. lþ. 37.7 fundur 328. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (lífeyrisiðgjöld o.fl.) frv., SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur

[17:22]

Svavar Gestsson (andsvar):

Herra forseti. Þetta mál er orðið nokkuð skrautlegt, verð ég að segja. Hæstv. fjmrh. vill ekki kannast við orðin í eigin texta. Í textanum stendur fullum fetum að annaðhvort lækki útsvarið eða tekjuskatturinn. Það stendur ekki í textanum að málið sé þannig að ef sveitarfélögin neiti þá fái fólkið í landinu ekki neitt.

Hið alvarlega í málinu er að það traust sem verkalýðshreyfingin í landinu hafði á ríkisstjórninni gagnvart þeim kjarasamningum sem gerðir voru til margra ára hefur ekki staðist og það fyrirheit sem hæstv. ríkisstjórn gaf einhliða fyrir hönd sveitarfélaganna var fráleitt að öllu leyti og eðlilegt að sveitarfélögin mótmæltu því af fullum krafti eins og þau gerðu. En að setja hlutina upp eins og hæstv. fjmrh. gerði, að hann geti hlaupið frá loforðinu af því að sveitarfélögin gerðu það, af því að sveitarfélögin þrjóskast við, af því að sveitarfélögin neita að gegna ráðherranum. Þvílík uppsetning mála, herra forseti.