Tekjuskattur og eignarskattur

Mánudaginn 08. desember 1997, kl. 17:23:51 (1846)

1997-12-08 17:23:51# 122. lþ. 37.7 fundur 328. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (lífeyrisiðgjöld o.fl.) frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur

[17:23]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég leyfi mér að lesa hér, með leyfi forseta, texta sem er í frv. sem um er að ræða:

,,Í yfirlýsingu ríkisstjórnar kemur einnig fram að hún muni beita sér fyrir því að útsvar sveitarfélaga lækki um 0,4% frá því sem nú er eða tekjuskattur lækki samsvarandi sem þá verði fjármagnað í samráði við sveitarfélögin og voru þær hugmyndir kynntar fulltrúum Sambands ísl. sveitarfélaga sama dag.``

Svo mörg voru þau orð. Ég held að það þurfi mikinn stálvilja til þess að skilja þennan texta öðruvísi en hann er settur fram. Það sem við erum að fjalla um í dag er þetta:

Ríkisstjórnin tók að sér það hlutverk eftir viðræður við forustumenn ASÍ að ræða við sveitarfélögin um það hvernig hægt væri að koma hlut sveitarfélaganna fyrir. Þeim viðræðum er ekki lokið. Sú staða kann að koma upp að það þurfi þess vegna að fresta hluta af skattalækkunum milli ára. Sú staða hefur verið kynnt fulltrúa ASÍ. Þessi staða hefur verið rædd við sveitarfélögin. Enn hefur engin ákvörðun verið tekin en ég vona að eftir umræðurnar í dag á hinu háa Alþingi skilji menn hver staðan er og það sé a.m.k. ljósara en áður því að á næstu dögum verða menn að taka ákvörðun um þetta efni.