Vörugjald af ökutækjum

Mánudaginn 08. desember 1997, kl. 17:44:50 (1849)

1997-12-08 17:44:50# 122. lþ. 37.8 fundur 329. mál: #A vörugjald af ökutækjum# (dráttarbifreiðar, mengunarlaus ökutæki) frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur

[17:44]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. fyrir að taka undir með mér að mikilvægt sé að gera breytingar á vörugjöldum vegna bifreiða sem nota mengunarlausa orkugjafa. Ég hlustaði á hann lýsa því að á markaðinn væru komnir bílar sem notuðu hvort tveggja og mér finnst sjálfsagt að nefndin líti á það. Hins vegar eru vandamál í þessu vegna þess að við skattleggjum eldsneyti náttúrlega verulega og margir milljarðar á ári renna til vegagerðar sem er nauðsynleg til þess að hægt sé að nota þessi ökutæki.

Virðulegi forseti. Í andsvari mínu minni ég á að hugmyndin með breytingum á lögum er að hægt sé að kaupa inn dísilbíla og þá er ég að tala um dísilfjölskyldubíla, oft með vélum sem eyða minna eldsneyti og eru minna mengandi en þeir bílar sem við notum núna. Ég ætla ekki að spá um hver framþróunin verður. Ég víst við að það verði a.m.k. áratugur eða tveir þar til menn geta notað vetni. Mér er kunnugt um það að a.m.k. hjá Toyota sem er mjög framarlega í þessum efnum, ég þekki ekki sjónarmið Daimler Benz verksmiðjanna, en hjá Toyota, er talið að það verði yfirgnæfandi sprengjumótorar notaðir, a.m.k. næstu 20 árin, en upp frá því megi gera ráð fyrir því að menn færi sig yfir í nýtt eldsneyti. Þetta eru þær staðreyndir sem menn standa frammi fyrir í dag en eins og frv. kom fram var það auðvitað flutt til þess að koma til móts við óskir ýmissa sem benda á að við eigum að feta okkur áfram, gefa mönnum tækifæri á að kaupa slíkar bifreiðar og gefa Íslendingum jafnvel tækifæri til að smíða slíkar bifreiðar eins og dæmi eru um.