Vörugjald af ökutækjum

Mánudaginn 08. desember 1997, kl. 17:49:32 (1851)

1997-12-08 17:49:32# 122. lþ. 37.8 fundur 329. mál: #A vörugjald af ökutækjum# (dráttarbifreiðar, mengunarlaus ökutæki) frv., ÖS
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur

[17:49]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Hjálmari Árnasyni fyrir fróðlega ræðu. Það er ljóst að hann þekkir vel til þessara mála og hefur reyndar flutt hér ýmis þingmál sem varða vernd umhverfisins. Hins vegar er það svo að mjög sjaldan blaktir einhver týra á skari þessarar ríkisstjórnar þegar umhverfismál eru annars vegar. Auðvitað er stórmerkilegt að það skuli fyrst vera hjá hæstv. fjmrh. sem kemur vottur af skilningi á því að nauðsynlegt sé að breyta um stefnu þessarar ríkisstjórnar í umhverfismálum.

Ég kem hingað upp vegna þess að ég tel sjálfsagt að þakka það sem vel er gert. Sú tillaga, sem hæstv. ráðherra leggur hér fyrir þingið um að afnumin verði vörugjöld af þeim ökutækjum sem kannski er ekki hægt að kalla mengunarlaus eins og hv. þm. en menga sannarlega minna en önnur ökutæki, er lofsverð og það ber að þakka hæstv. fjmrh. alveg sérstaklega. En þetta er nú ríkisstjórnin sem um þessar mundir fer um landið kynnir t.d. að setja eigi niður olíuhreinsistöð í Skagafirði. Hún boðar að það sé farsælt fyrir fiskimiðin og fyrir hina hreinu ímynd Íslands að hér vaði stór olíuskip um helstu fiskimið Íslendinga. Þetta er líka ríkisstjórnin sem hefur nýlega lagt fram þingskjal til kynningar á áformum í stóriðju og þar eru talin hvorki meira né minna en sjö stóriðjuver sem ríkisstjórnin vill gjarnan láta byggja hér á Íslandi. Í því þskj. kemur einnig fram að sum þeirra áforma séu það langt komin að gera megi ráð fyrir að á næstu missirum verði hægt að ráðast í framkvæmdir. Þetta er sem sagt ríkisstjórnin sem er búin að senda sína menn til Kyoto til að biðja allra náðarsamlegast um að fá leyfi til þess að menga meira á meðan það blasir við að fá lönd sem eiga jafnmikið á hættu og Ísland. Mitt í þessu myrkri er þess vegna gaman og gleðilegt að sjá það að hæstv. fjmrh. er skyndilega orðinn talsmaður framsækinnar umhverfisstefnu í ríkisstjórn Íslands.

Hvar er hæstv. umhvrh.? Hvar er hæstv. forsrh.? Er það virkilega svo að eina vottinn af framsækinni stefnu í þessum mikilvæga málaflokki sé að finna í fjmrn.? En það er hæstv. fjmrh. sem hefur vakið umræðu um umhverfismál með þessu máli. (Gripið fram í: Endar hann í Kyoto?) Ef hæstv. fjmrh. væri í Kyoto þá er ég viss um að frjáls og óháð dagblöð mundu ekki þurfa að skrifa leiðara um klaufana í Kyoto.

Eins og ég sagði, herra forseti, þá hefur hæstv. fjmrh. vakið þessa umræðu um umhverfisstefnu. Það sem hæstv. ráðherra er að leggja hér fram er auðvitað jákvæður vottur um framsýna umhverfisstefnu. Þess vegna langar mig að spyrja hæstv. ráðherra, í tengslum við það sem hann sagði áðan, hvort það sé fleira á döfinni í fjmrn. sem lýtur að þessu. Kemur það t.d. til greina að hæstv. ráðherra beiti sér fyrir því að einhvers konar skattur verði lagður á útblástur samgöngutækja eða er einhvers konar vinna í gangi í ráðuneytinu sem miðar að því að safna upplýsingum um hvað aðrar þjóðir eru að gera og gæti orðið grunnur að breyttri skattastefnu íslenska ríkisins?