Vörugjald af ökutækjum

Mánudaginn 08. desember 1997, kl. 17:55:58 (1853)

1997-12-08 17:55:58# 122. lþ. 37.8 fundur 329. mál: #A vörugjald af ökutækjum# (dráttarbifreiðar, mengunarlaus ökutæki) frv., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur

[17:55]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Hæstv. fjmrh. vanmetur sjálfan sig ef hann telur að ég hafi hér hlaðið hann óverðskulduðu lofi. Ekki er hægt að benda á nema tvær tillögur af hálfu núv. ríkisstjórnar sem horfa til framfara í umhverfismálum að því verðar mengun og losun á skaðlegum lofttegundum. Þetta er önnur tillagan þannig að hann verðskuldar sannarlega lofið.

Ég er líka þakklátur hæstv. fjmrh. fyrir að rifja hér upp að ágæt samvinna sem ég átti við hann meðan ég var umhvrh. leiddi til þess að hér var tekið upp spilliefnagjald og það hefur skilað góðum árangri. Hæstv. ráðherra sagði að hann og umhvrn. ættu í viðræðum af meiri alvöru nú en áður um takmörkun á losun skaðlegra efna. Ég velti fyrir mér: Er sama alvara af hálfu umhvrn. í þessum viðræðum? Ég dreg það í efa, herra forseti.

Ég fagna því líka að hæstv. fjmrh. hefur sagt það hér að í fjmrn. undir hans stjórn fari nú fram vinna þar sem verið er að safna upplýsingum, til að mynda um hvað nágrannaþjóðirnar eru að gera í þessum efnum. Það er auðvitað sögulegt að hæstv. fjmrh. hefur nú lýst því yfir að hann telji líklegt að á allra næstu árum verði teknir upp grænir skattar. Ég get því ekki annað en spurt hæstv. fjmrh.: Fyrst þessi pólitíska stefnumörkun liggur bersýnilega fyrir innan ráðuneytisins, hvers eðlis eru þessir grænu skattar sem hann hefur lýst yfir að líklegt sé að verði lagðir á á allra næstu missirum?