Vörugjald af ökutækjum

Mánudaginn 08. desember 1997, kl. 18:03:11 (1856)

1997-12-08 18:03:11# 122. lþ. 37.8 fundur 329. mál: #A vörugjald af ökutækjum# (dráttarbifreiðar, mengunarlaus ökutæki) frv., HjÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur

[18:03]

Hjálmar Árnason (andsvar):

Herra forseti. Ég hygg að okkur kunni að greina á, mig og hv. síðasta ræðumann. Ef ég man rétt þá lýsti hv. þm. Össur Skarphéðinsson því hér yfir í umræðum ekki alls fyrir löngu að stóriðja ætti ekki rétt á sér yfir höfuð.

Ég tel það heldur ekki rétta túlkun hjá hv. þm. að í því skjali sem hann vitnaði til frá hæstv. iðnrh. komi fram vilji hæstv. iðnrh. til þess að, eins og hv. þm. orðaði það, fylla allt landið af stóriðju. Í því er kynning á þeim aðilum sem hafa sýnt áhuga á því að koma hingað til lands og reisa stóriðju, sannarlega stóriðju, en eins og dæmin sanna er ekki þar með sagt að þau stóriðjuver séu risin né heldur að þau verði öll reist hér. Þetta tel ég að sé mjög mikilvægt að komi fram, þ.e. að skilningur hv. þm. á því þingskjali sem hann vitnaði til eða vilja hæstv. iðnrh. sé ekki réttur.

Varðandi magnesíumverksmiðjuna þá ítreka ég í sambandi við þá útreikninga sem hv. þm. dró mjög í efa, að hér er ekki einungis um að það ræða hvaða orkugjafi er notaður þar heldur hitt, sem er vert að hafa í huga, að magnesíumverksmiðjunni, ef af verður, er ætlað að framleiða magnesíum í bílaiðnað. En magnesíum er mjög léttur málmur og leysa þau 50 þúsund tonn sem magnesíumverksmiðju á Reykjanesi er ætlað að framleiða af hólmi stál í hefðbundnum bílum eins og þeir eru í dag. Og ásamt þeim vistvænu orkugjöfum sem notaðir verða, þá mun það leiða til þess sem ég nefndi áðan. Þannig að þetta var dálítil einföldum hjá hv. þm. Hins vegar veit ég að í grundvallaratriðum erum við sammála um markmið með nýtingu vistvænna orkugjafa.