Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins

Mánudaginn 08. desember 1997, kl. 18:21:34 (1859)

1997-12-08 18:21:34# 122. lþ. 37.9 fundur 330. mál: #A lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins# (uppgjör á skuldbindingum, iðgjöld til B-deildar) frv., fjmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur

[18:21]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson):

Virðulegi forseti. Ég fylgi hér úr hlaði frv. til laga um breyting á lögum nr. 1/1997, um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, og lögum nr. 2/1997, um Lífeyrissjóð hjúkrunarfræðinga. Þetta er bandormur, þ.e. sem sagt verið að breyta tvennum lögum en þó á samsvarandi hátt.

Annars vegar er tilgangur þessa frv. að gera launagreiðendum sem tryggja starfsmenn sína í Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins og Lífeyrissjóði hjúkrunarfræðinga kleift að gera upp skuldbindingar sínar við sjóðina með því að greiða áfallnar skuldbindingar með skuldabréfum og að greiða viðbótariðgjöld til lúkningar á þeim skuldbindingum sem falla til ár hvert. Hins vegar er tilgangurinn að ryðja því braut að ríkisstofnanir greiði iðgjöld til B-deildar LSR og Lífeyrissjóðs hjúkrunarfræðinga sem nálgast það að vera hin sömu og greitt væri af launum þeirra sem tryggðir eru í A-deild LSR. Með því næst sá árangur að gjaldfærður launakostnaður hverrar stofnunar er nær því að gefa rétta mynd en nú er og að eytt er því misræmi sem ella yrði á milli stofnana eftir því hvort starfsmenn eru að meira eða minna leyti í A-deild LSR.

Í umsögn um þetta frv. er á það bent að þeir fjármunir sem gengju til stofnana á þennan hátt eru til sem sérstakur liður í fjárlagafrv. og þess vegna mun þessi ráðstöfun ekki kosta meira en ráðgert er í fjárlagafrv.

Í lögum um LSR er heimild til handa sjóðnum að taka við skuldabréfum til uppgjörs á áföllnum skuldbindingum launagreiðenda annarra en ríkisins. Hefur ákvæði þetta þegar verið notað til að gera upp skuldbindingar Pósts og síma hf. og Skýrr hf. og í undirbúningi er uppgjör vegna Sementsverksmiðjunnar hf. Uppgjör skuldbindinga þeirra stofnana sem ætlað er að starfa sem hlutafélög er nauðsynlegt. Það er jafnframt æskilegt fyrir aðrar stofnanir, einkum þær sem ætlað er að standa undir kostnaði við starfsemi sína að öllu eða verulegu leyti með eigin aflafé. Með frumvarpinu er lagt til að þessi heimild verði víkkuð og verði ekki lengur takmörkuð við aðra launagreiðendur en ríkið. Er einkum litið til þess að með þeirri breytingu verði unnt að gera upp skuldbindingar B-hluta stofnana og fyrirtækja í ríkiseigu.

Sú heimild sem ég hef þegar lýst er miðuð við uppgjör áfallinna skuldbindinga. Í frumvarpinu er auk þess gert ráð fyrir heimild til að semja um að launagreiðendur geti losnað undan nýmyndun skuldbindinga með því að greiða viðbótariðgjald til sjóðanna. Auk þess að losna þannig undan óvissum skuldbindingum mun það leiða til þess að litlu skiptir fyrir þá í greiðslum hverju sinni hvort starfsmenn eru í A-deild LSR eða í eldra tryggingakerfi sjóðanna þar sem gera má ráð fyrir að heildariðgjöldin verði svipuð í báðum tilvikum. Rétt þykir hins vegar að lögbinda ekki viðbótariðgjaldið en gert er ráð fyrir að um það verði samið hverju sinni á grundvelli tryggingafræðilegrar úttektar eins og þegar áfallnar skuldbindingar eru gerðar upp.

Virðulegi forseti. Það mætti reyndar gera þetta með ýmsum öðrum hætti. Þetta er þó talin vera einfaldasta aðferðin og það er lagt til að þetta verði gert að lögum nú til þess að stofnanirnar geti lagt til lífeyrissjóðanna alveg burt séð frá því hvort starfsmenn eru í A- eða B-hluta Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins og einnig að öðrum en þeim sem eru farnir út úr ríkisreikningi gefist kostur á að gera upp skuld sína við Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins með skuldabréfi, en það hefur gengið ágætlega að koma þeirri skipan á að undanförnu.

Að umræðu lokinni legg ég til að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. efh.- og viðskn.