Veiðar og vinnsla erlendra skipa í fiskveiðilandhelgi Íslands

Mánudaginn 08. desember 1997, kl. 18:49:06 (1867)

1997-12-08 18:49:06# 122. lþ. 37.11 fundur 340. mál: #A réttur til veiða og vinnslu afla í fiskveiðilandhelgi Íslands# (heildarlög) frv., sjútvrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur

[18:49]

Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Í mars 1992 voru samþykkt á Alþingi lög nr. 13/1992, um rétt til veiða í efnahagslögsögu Íslands. Með samþykkt þeirra laga var erlendum veiðiskipum veittur frjáls aðgangur að íslenskum höfnum til löndunar afla og til að sækja hingað þjónustu nema í þeim tilvikum sem þau stunduðu veiðar úr stofnum sem veiddust bæði utan og innan lögsögunnar, hefði ekki verið samið um nýtingu þeirra stofna.

Við framkvæmd laga nr. 13/1992 hefur komið í ljós að ástæða er til að kveða skýrar á um heimildir erlendra veiði- og vinnsluskipa til athafna innan íslenskrar fiskveiðilandhelgi, m.a. með hliðsjón af þeim ákvörðunum sem teknar hafa verið hjá alþjóðlegum stofnunum sem fjalla um stjórn fiskveiða á úthafinu. Þá þykir og nauðsynlegt að ákvarða skýrt um heimildir íslenskra stjórnvalda til setningar reglna um veiðar erlendra skipa sem heimildir fá til veiða innan fiskveiðilandhelginnar auk þess sem ástæða þykir til að setja frekari reglur um framkvæmd milliríkjasamninga og leyfisveitinga samkvæmt þeim. Þá eru í frv. þessu viðurlagaákvæði samræmd viðurlagaákvæðum annarra laga um stjórn fiskveiða sem öll hafa nýverið verið endurskoðuð og þeim breytt. Er í þessu sambandi vísað til athugasemda með frv. en rétt þykir þó að vekja athygli á eftirtöldum atriðum:

Í 1. gr. er áréttað að íslenskum ríkisborgurum er einum heimilt að stunda veiðar og vinnslu sjávarafla í fiskveiðilandhelgi Íslands. Ákvæði þetta er í samræmi við ákvæði laga nr. 34/1991, um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri, eftir breytingar sem gerðar voru á þeim lögum með lögum nr. 46/1996. Þó kemur hér til viðbótar að kveðið er skýrt á um skilyrði fyrir eignaraðild að vinnsluskipi sem vinnur afla í fiskveiðilandhelginni og eru þau hin sömu og sett eru fyrir rekstri fiskvinnslufyrirtækis sem í landi starfar og þykir það eðlileg ráðstöfun. Þá er gert ráð fyrir að eingöngu þeim skipum sem skráð eru íslensk sé heimilt að vinna afla í fiskveiðilandhelgi Íslands.

Í 2. gr. frv. er kveðið á um rétt erlendra veiði- og vinnsluskipa innan fiskveiðilandhelginnar og segir þar að þeim sé óheimilt að hafast þar við og þeim aðeins heimil óslitin sigling um fiskveiðilandhelgina að þau tilkynni um ferð sína til Landhelgisgæslunnar í samræmi við reglur þar að lútandi. Með þessu ákvæði er lagt til að settar verði öllu strangari reglur um veru erlendra veiði- og vinnsluskipa í fiskveiðilandhelginni en gilda samkvæmt núgildandi lögum nr. 13/1992. Í þeim lögum segir aðeins að erlendum veiði- og vinnsluskipum séu óheimilar veiðar og vinnsla í efnahagslögsögunni en ekki kveðið á um að aðrar athafnir þeirra hér við land. Með þeirri breytingu sem er lögð til yrði eftirlit með erlendum skipum markvissara og auðveldara en það er nú. Erlendum veiðiskipum væri því í raun óheimilt að hafast við innan fiskveiðilandhelginnar nema þau væru við veiðar eða vinnslu samkvæmt sérstökum milliríkjasamningum þar að lútandi eða væru á óslitinni siglingu um fiskveiðilandhelgina hvort sem þau væru á leið til hafnar hér á landi eða annars staðar. Verður ekki séð að ástæða sé til frekari heimilda fyrir veru erlendra veiði- og vinnsluskipa innan fiskveiðilandhelginnar.

Í 3. gr. þessa frv. er áréttað að erlendum veiðiskipum sé heimilt að leita hér þjónustu og landa afla. Er þetta í samræmi við þá stefnu sem upp var tekin með lögum nr. 13/1992 og verður að telja að sú ákvörðun hafi reynst vel og leitt til aukinna viðskipta með sjávarafla auk þess sem erlend skip hafa í vaxandi mæli leitað hér ýmiss konar þjónustu. Í lögum nr. 13/1992 var sú undanþága gerð frá heimildum skipa til að leita til hafna hér að þeim var það ekki heimilt, veiddu þau úr fiskstofnum sem veiddust utan og innan lögsögunnar, hefði ekki verið samið um nýtingu þeirra stofna. Hins vegar voru frekari takmarkanir settar á heimildir erlendra skipa til að leita hafna hér á landi í 10. gr. laga nr. 51/1996, um fiskveiðar utan lögsögu Íslands.

Í 3. gr. frv. er gert ráð fyrir að felld verði í eina grein heildstæð ákvæði sem lúta að þeim tilvikum sem erlendum skipum er óheimilt að leita hafnar hér á landi og tæki það bann bæði til veiði- og vinnsluskipa. Í greininni er bann við því að þau skip sem stunda veiðar úr sameiginlegum nytjastofnun sem veiðast bæði utan og innan íslenskrar fiskveiðilandhelgi landi hér afla, umskipi eða sæki þjónustu hér landi, hafi ekki verið samið um nýtingu viðkomandi stofns. Sama gildir einnig stundi skip veiðar eða vinnslu sem brjóta í bága við samninga um nýtingu lifandi auðlinda hafsins sem Ísland er aðili að.

Í grein þessari er einnig gert ráð fyrir að ráðherra geti ákveðið að sama gildi gagnvart skipum ef fánaríki skipsins er ekki aðili að samningi sem gildir um stjórn þeirra veiða sem viðkomandi skip stundar eða fylgir ekki þeim reglum sem settar eru samkvæmt þeim samningi enda sé Ísland aðili að honum. Með orðinu samningur er hér vísað til veiðistjórnunarstofnunar eða veiðistjórnunarfyrirkomulags eins og þau hugtök voru notuð í úthafsveiðisamningnum og er þetta ákvæði í samræmi við ákvæði hans.

Loks er ráðherra veitt í þessari grein almenn heimild til lokunar hafna fyrir erlendum veiði- og vinnsluskipum sé slíkt talið nauðsynlegt til verndar lifandi auðlindum hafsins. Hér er um almenna heimild að ræða sem þykir nauðsynleg vegna þeirra ófyrirséðu tilvika sem upp kunna að koma. Með frv. verður að telja að unnt sé að koma í veg fyrir að íslenskar hafnir verði notaðar til sóknar í stofna sem hafa ekki verið felldir undir veiðistjórn eða til sóknar í trássi við samninga um veiðistjórn. Taki þetta bæði til þeirra tilvika þegar veiðar væru stundaðar úr stofnum sem hefði ekki verið samið um stjórn á og eins til veiða skipa frá ríkjum sem óbundin eru af samningum eða veiðistjórn, hvort sem það væri vegna þess að viðkomandi ríki væri ekki aðili að viðkomandi samningi eða óbundið af honum af öðrum ástæðum.

Í 5. gr. frv. er sú meginregla mótuð að um veiðar erlendra skipa í fiskveiðilandhelginni gildi sömu reglur og um veiðar íslenska skipa þar enda hafi ekki verið um annað samið með milliríkjasamningi. Sérstaklega er það áréttað að þetta gildi um þau ákvæði laga og reglugerða sem lúta að veiðarfærum, friðunarsvæðum, veiðitíma, nýtingu fiskstofna og eftirliti með veiðum. Ákvæði þetta er bæði nauðsynlegt og eðlilegt en hins vegar er það svo að um veiðar erlendra skipa þarf í mörgum tilvikum að setja nokkrar sérreglur bæði vegna ákvæða í milliríkjasamningunum sjálfum og eins vegna þess að sérstakar kröfur þarf að gera til eftirlits með veiðum þeirra. Má í þessu efni nefna að hin erlendu skip landa yfirleitt afla sínum erlendis andstætt íslenskum skipum og kallar á annað eftirlit með veiðum þeirra af þeim sökum. Af þessum ástæðum er í frv. gert ráð fyrir í 9. gr. að ráðherra sé heimilt að setja frekari reglur um framkvæmd einstakra milliríkjasamninga og sé þá heimilt að gera nokkuð aðrar kröfur til erlendra skipa en almennt gilda um íslensk skip. Einnig er gert ráð fyrir í því í 7. gr. frv. að Fiskistofu sé heimilt að setja veiðieftirlitsmenn um borð í erlend veiðiskip sem stunda veiðar innan íslensku fiskveiðilögsögunnar og útgerð skips greiði allan kostnað sem af veru þeirra um borð í skipinu hlýst.

Herra forseti. Ég hef í aðalatriðum gert grein fyrir efni frv. og legg til að því verði vísað að lokinni umræðunni til 2. umr. og meðferðar hjá hv. sjútvn.