Fyrirhuguð frestun skattalækkunar

Þriðjudaginn 09. desember 1997, kl. 13:37:59 (1871)

1997-12-09 13:37:59# 122. lþ. 38.88 fundur 121#B fyrirhuguð frestun skattalækkunar# (aths. um störf þingsins), ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur

[13:37]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Það er margt sem bendir til þess að áform ríkisstjórnarinnar um að brjóta lögin um tekju- og eignarskatt frá sl. vori, svíkja það sem þá var lögfest, svíkja það sem þá var lofað hafi átt að fara leynt. Þetta gerist ítrekað á þessum árstíma rétt fyrir jólin. Þá koma skerðingarfrumvörpin fram og það er þakkarvert að hv. þm. Svavar Gestsson skuli hafa vakið máls á þessu á Alþingi í gær, togað þessar upplýsingar upp úr hæstv. fjmrh. og þannig tryggt að umræða færi fram um þetta í tíma.

Hæstv. forseti. Ég vil benda á umfang þessa máls. Það snýst nefnilega ekki bara um skatta. Þegar allt kemur til alls eru skattaráðstafanir ríkisstjórnarinnar í fullkominni andstöðu við það sem verkalýðshreyfingin vildi, í fullkominni andstöðu við það sem verkalýðshreyfingin stefndi að þrátt fyrir að ríkisstjórnin hafi reynt að láta líta svo út sem þetta væri í samráði við hana. Svo var ekki. Það er gróf fölsun eins og hæstv. forsrh. hefur nú viðurkennt og sagt. Verkalýðshreyfingin, landssamböndin innan ASÍ litu hins vegar á tekjuskattslækkunina sem forsendur sinna samninga. Þar væri komið það gólf sem miðað væri við þegar samið væri um kaupið. Ríkisstjórnin hamraði sjálf á þessu á sínum tíma. Þess vegna trúðu menn því ekki og trúa því vart enn að hún ætli að hlaupast frá þeim skuldbindingum sínum, ekki síst þegar menn hafa í huga við hvert góðæri við búum, góðæri sem hefur skilað 600 tekjuskattsmilljónum umfram það sem áður hafði verið áætlað í ríkissjóð, miklu meiri peningum en nú er talað svo snyrtilega um að hnika til eins og hæstv. fjmrh. sagði í gær.

Þetta mál snýst ekki um skattastefnu og ekki um neinar 500 millj. Þetta snýst um trúverðugleika í stjórnmálum og (Forseti hringir.) á því prófi falla ráðherrar í ríkisstjórn Davíðs Oddssonar hver um annan þveran og þeim nægir ekki að falla á því prófi hér á landi, þeir þurfa að fara alla leið til Kyoto í Japan til að falla þar á prófinu frammi (Forseti hringir.) fyrir allri heimsbyggðinni og það er áhyggjuefni fyrir Alþingi Íslendinga.