Fyrirhuguð frestun skattalækkunar

Þriðjudaginn 09. desember 1997, kl. 13:44:48 (1874)

1997-12-09 13:44:48# 122. lþ. 38.88 fundur 121#B fyrirhuguð frestun skattalækkunar# (aths. um störf þingsins), ÁE
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur

[13:44]

Ágúst Einarsson:

Herra forseti. Með frv. ríkisstjórnarinnar í vor segir svo, með leyfi forseta:

,,Í yfirlýsingu ríkisstjórnar kemur einnig fram að hún muni beita sér fyrir því að útsvar sveitarfélaga lækki um 0,4% frá því sem nú er, eða tekjuskattur lækki samsvarandi sem þá verði fjármagnað í samráði við sveitarfélögin og voru þær hugmyndir kynntar fulltrúum Sambands íslenskra sveitarfélaga sama dag.``

Það er alveg augljóst á þessum orðum hvað ríkisstjórnin ætlaði sér. Hún ætlaði að láta sveitarfélögin fjármagna 0,4% af þeirri skattalækkun sem nú er verið að tala um að fresta. Hvergi er í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar talað um að ef samningar náist ekki við sveitarfélögin, þá lækki ríkisstjórnin einhliða skattalækkunaráform sín. Ég skora á hæstv. ríkisstjórn að falla frá þeim áformum einfaldlega vegna þess að hún hefur engan rétt í þessu máli. Hún hefur hvergi neinn rétt sem hún getur hengt skoðun sína á að koma svona aftan að launþegum eins og hún er að gera. Samningar eiga einfaldlega að standa. Hæstv. forsrh. gaf í skyn að hann mundi kynna niðurstöðu í málinu í dag. Þeir eru ekki jafnharðir í afstöðu málsins og í gær og ég vona að hin einbeitta afstaða verkalýðshreyfingarinnar og stjórnarandstöðunnar dugi til að knýja fram að þessi áform verði lögð á hilluna.

Hæstv. forsrh. svaraði ekki spurningu minni hvort þetta hefði verið kynnt í þingflokkum stjórnarliðanna. Mínar heimildir segja að svo hafi ekki verið og mér kæmi ekki á óvart þótt margir stjórnarliða sem stóðu að löggjöfinni í vor mundu hugsa sig um tvisvar áður en þeir greiddu því braut í þinginu að falla frá umsömdum skattalækkunum. Það er grundvallaratriði í þessu máli að trúnaður milli ríkisvalds og samningsaðila verði að ríkja við lokagerð kjarasamninga. Það er ekki hægt að ganga frá kjarasamningum með annarri afstöðu. Þetta var erfitt samningsferli og þess vegna eru áform ríkisstjórnarinnar enn þá lúalegri en væri við venjulegar aðstæður.