Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1998

Þriðjudaginn 09. desember 1997, kl. 14:09:58 (1879)

1997-12-09 14:09:58# 122. lþ. 38.6 fundur 323. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum 1998# (breyting ýmissa laga) frv., GE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur

[14:09]

Gísli S. Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Ég vil strax í upphafi þessarar umræðu gera grein fyrir atriði sem lýtur að 2. gr. skerðingarákvæða þar sem ríkisstjórnin áformar að skera niður átaksverkefni um framleiðslu og markaðssetningu vistvænna og lífrænna afurða um 12,5 millj. kr. Ég skora á forsrh. að draga til baka þetta áform og hafa upphæðina eins og hún var hér ákveðin af þingflokkum, þingflokksformönnum og 48 greiddum atkvæðum á þingi, ekki með því að láta 25 millj. kr. á ári renna til þessa verkefnis heldur voru áformaðar 50 millj. kr. á ári í fimm ár. Hugsunin núna eftir að þrjú ár eru liðin af verkefninu og aðeins 75 millj. hafa farið til verkefnisins þá á að skera þetta niður. Ég veit ekki hvers vegna. Ég spyr hæstv. forsrh.: Hvers vegna á að skera þetta verkefni niður? Er það vegna þess að ekki hefur orðið árangur af því starfi sem unnið hefur verið í þessu átaksverkefni?

Ástandið er þannig í landbúnaði að aðeins er að vakna veik von um að það náist að markaðssetja lambakjöt á erlendum mörkuðum vegna þeirra aðgerða sem þessir fjármunir hafa skilað, vegna þeirra aðgerða sem gripið hefur verið til með þessum fjármunum, fyrir utan það að gripið hefur verið til búháttabreytinga í mjög miklum mæli. Allt það sem er í gangi mun lokast af með þessum niðurskurðaraðgerðum. Það lokast af verkefni sem eru í gangi bæði hjá háskólanum og stofnunum landbúnaðarins sem byggjast á slíkum framlögum.